Stjórnarleiðtogar á faraldsfæti
Morgunblaðið, föstudagur, 23. ágúst 2019
Fundur forsætisráðherra Norðurlandanna með Angelu Merkel Þýskalandskanslara hér í Reykjavík dagana 19. og 20. ágúst bar annað og friðsamlegra yfirbragð en orðin sem flugu á sama tíma milli Donalds Trumps Bandaríkjaforseta og Mette Frederiksen, forsætisráðherra Dana, um Grænland. Merkel, leiðtogi öflugasta ríkis Evrópusambandsins og öflugasti leiðtogi sambandsins, kom hingað og ræddi loftslagsmál, jafnréttismál og önnur ágreiningslítil málefni á sama tíma og fyrir vestan Ísland flugu skeyti um hvort Trump fengi að kaupa Grænland.
Umræðunum um nýtt eignarhald á Grænlandi lauk að kvöldi þriðjudags 20. ágúst með því að Trump aflýsti komu sinni til Kaupmannahafnar 2. september. Þegar um fyrirhugaðan fund hans þar var rætt hér á þessum stað fyrir tveimur vikum var hann talinn staðfesta aukinn áhuga og áherslu Bandaríkjastjórnar á norðurslóðir. Vilji Trumps til að Bandaríkjamenn eignist Grænland bendir þó til meiri áhuga hans á að treysta stöðu sína þar en áður var vitað.
Trump sagði að hann ætti ekkert erindi til Kaupmannahafnar úr því að danski forsætisráðherrann vildi ekki ræða kaup hans á Grænlandi. Með vísan til þess hve Danir hafa staðið þétt við hlið Bandaríkjamanna áratugum saman, ekki síst eftir árásina á New York og Washington 11. september 2001, eiga þeir síst skilið að sæta óvirðingu af hálfu Bandaríkjaforseta. Mette Frederiksen sagði á blaðamannafundi 21. ágúst að uppákoman breytti engu um einstakt og gott samband ríkjanna. Stjórnir landanna þurfa þó að vinna úr nokkrum vanda sín á milli.
Mike Pence í heimsókn
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, hefur boðað komu sína hingað 4. september. Hann ætlar að undirstrika strategískt mikilvægi Íslands á norðurslóðum og viðleitni NATO til að mæta sókn Rússa á svæðinu, einnig beinist athyglin að tækifærum til að auka gagnkvæm viðskipti og fjárfestingar, sagði í tilkynningu frá embætti varaforsetans.
Fréttir herma að staðgengill Katrínar Jakobsdóttur í embætti forsætisráðherra taki á móti varaforsetanum vegna skuldbindinga hennar erlendis. Eins og sannast hefur í samskiptum Trumps við Dani ráða forsetar og forsætisráðherrar eigin dagskrá. Á hinn bóginn hefði í fljótu bragði mátt ætla að Katrín teldi sig eiga erindi við Pence þó ekki væri til annars en skýra honum frá fundinum með Merkel og norðurslóðastefnu Íslands í norrænu ljósi.
Mike Pence fer héðan til Bretlands og Írlands. Stjórn Trumps vill taka af skarið um stuðning sinn við stefnuna sem Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, boðar um brexit, úrsögn Breta úr ESB.
Fari Bretar úr ESB án viðskilnaðarsamnings 31. október 2019 geta þeir strax hafið viðræður við Bandaríkjastjórn um fríverslunarsamning. Með framlögðum viðskilnaðarsamningi við ESB verða Bretar hins vegar áfram í tollabandalagi við ESB þar til landamæramálin á Írlandi leysast.
Erindi Pence til Írlands snertir brexit, meirihluti demókrata á Bandaríkjaþingi segist ekki styðja fríverslunarsamning við Breta nema írska landamæramálið sé leyst. Trumpstjórnin þarf því að leysa mál gagnvart ríkisstjórn Írlands semji hún við Breta.
Að veði fyrir brexit
Boris Johnson hefur lagt forsætisráðherraembættið að veði fyrir brexit. Hann segist vilja gera nýjan viðskilnaðarsamning, takist það ekki hverfi Bretar samningslausir á brott úr ESB 31. október 2019.
Af hálfu ESB er harkan jafn mikil og hjá Johnson. Brusselmenn segjast ekki vilja hrófla við samningnum sem Theresa May gerði og breska þingið hafnaði þrisvar. Þeir segja að huga megi að orðalagi á stjórnmálayfirlýsingunni sem fylgdi samningnum.
Yfirlýsingin er 26 bls. að lengd. Sé hún lesin með hliðsjón af EES-samningnum sem Íslendingar gerðu við ESB árið 1992 sést betur en ella hve EES-samstarfið er einstætt, ekki síst tveggja stoða kerfið.
Boris Johnson segir Angelu Merkel að hann vilji brexit-samning.
Í inngangi stjórnmálayfirlýsingarinnar segir að til frambúðar skuli samskipti ESB og Breta reist á jafnræði þar sem tekið sé tillit til hagsmuna hvors aðila um sig. Tryggja verði sjálfstæði ESB til ákvarðana um heilleika sameiginlega markaðarins og tollabandalagsins og óskipt fjórfrelsið. Þá verði einnig að tryggja fullveldi Bretlands og virða niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar frá 2016 þar á meðal með tilliti til þróunar sjálfstæðrar viðskiptastefnu og til að binda enda á frjálsa för fólks milli ESB og Bretlands.
Þarna er vikið að ýmsum viðkvæmum málum. Bretar geta til dæmis ekki mótað sjálfstæða viðskiptastefnu sem leiðir til fríverslunarsamninga við ríki utan ESB nema þeir fari úr tollabandalagi ESB-ríkjanna. Að þeir þurfi að vera í tollabandalagi til að hindra landamæri á Írlandi hafnar Boris Johnson alfarið í bréfi til Donalds Tusks, forseta leiðtogaráðs ESB, mánudaginn 19. ágúst. Sama dag birti breska innanríkisráðuneytið tilkynningu um að bundinn yrði endi á frjálsa för fólks til Bretlands í núverandi mynd 31. október 2019. Eftir brexit mundi ríkisstjórnin kynna nýjar sanngjarnari reglur um för útlendinga þar sem lögð yrði áhersla á fagkunnáttu og hvað fólk gæti lagt af mörkum til bresks samfélags frekar en hvaðan það kæmi.
Að baki stjórnmálayfirlýsingunni um að virða sameiginlega markaðinn liggur skuldbinding um sameiginleg úrræði til að tryggja að unnt sé að stunda hindrunarlaus viðskipti á markaðnum. Ætlunin er að koma á fót sameiginlegri nefnd á borð við þá sem starfar á EES-vettvangi og gerðardómi til að eiga lokaorðið. Þar er ráðgert að sé ágreiningur um túlkun ESB-löggjafar skuli leita bindandi álits ESB-dómstólsins. Í þessum áformum felst að Bretar lúti forræði ESB-dómstólsins án þess að eiga aðild að honum.
Hér á landi yrði framsal valds á þennan veg talið óbærilegt enda er það meginstyrkur tveggja stoða EES-kerfisins að EES/EFTA-ríkin skipa stjórnarnefnd Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) og dómara í EFTA-dómstólinn.
Fylgi hugur máli þegar forráðamenn ESB annars vegar og Boris Johnson hins vegar segjast vilja forðast brexit án samnings verður eitthvað undan að láta. Mætist stálin stinn er einsýnt hvert stefnir.
Boris Johnson hittir Merkel
Donald Trump er til alls vís. Hann hallmælti Theresu May fyrir að fara ekki að ráðum hans í brexit-viðræðunum við ESB. Hvort Trump á útspil til hjálpar Boris Johnson kemur í ljós. Líkist það uppákomunni vegna Grænlands verður það varla nokkrum til framdráttar.
Boris Johnson hóf í vikunni viðræður við leiðtoga ESB-ríkja með fundum með Angelu Merkel og Emmanuel Macron Frakklandsforseta. Á fundinum með Merkel fékk Johnson 30 daga til að finna nýja lausn á írska landamæravandanum. Við hlið Merkel minnti breski forsætisráðherrann á skólastrák. Hann á hins vegar allt undir stuðningi þingsins í London, gagnvart því beitir hann „hótuninni“ um kosningar.