Stjórnarandstaða í ESB-faðmi
Morgunblaðið, laugardagur 24. september 2022.
Umræðuaðferð meirihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur færist nú úr ráðhúsinu yfir Vonarstræti í þinghúsið. Athygli er beint að gamalkunnum málefnum án þess að boða lausnir eða málalyktir. Úr borgarstjórn má nefna fimm mál: Sundabraut, flugvöllinn í Vatnsmýrinni, umferðargötur í stokk, borgarlínu og nú síðast þjóðarhöll í þágu íþrótta.
Burðarflokkarnir í meirihluta borgarstjórnar: Píratar, Samfylking og Viðreisn stofnuðu sameiginlega til sex tíma umræðu á alþingi þriðjudaginn 20. september um tillögu til þingsályktunar sem allir 17 þingmenn flokkanna þriggja flytja (í þingflokki sjálfstæðismanna sitja einnig 17 þingmenn) um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna við Evrópusambandið.
Flokkarnir þrír hafa áhuga á að Ísland gangi í Evrópusambandið. Þeir flagga þeirri skoðun sinni þó misjafnlega mikið. Hún bar til dæmis ekki hátt fyrir þingkosningarnar fyrir einu ári.
Yfirlýstur næsti formaður Samfylkingarinnar, Kristrún Frostadóttir, telur ESB-aðild ekki brýnt úrlausnarefni. Helga Vala Helgadóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, er „innilega ósammála“ Kristrúnu um þetta en segir þó „engan ágreining“ á milli þeirra! Helga Vala vill áfram stól þingflokksformannsins þótt Logi Einarsson hætti sem flokksformaður í lok október.
Logi er einmitt fyrsti flutningsmaður tillögunnar um þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir árslok 2023 um hvort halda skuli áfram aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið.
Orðalagið um að „halda áfram“ viðræðum er undarlegt. Össur Skarphéðinsson, þáv. utanríkisráðherra Samfylkingarinnar, setti viðræðurnar á ís í janúar 2013. Þáverandi framsóknarmennirnir Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra slitu viðræðunum formlega árið 2015 og Ísland var tekið af lista ESB-umsóknarlanda.
Í greinargerð með tillögunni núna er þess getið að 19. mars 2013, á meðan vinstri ESB-stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sat enn við völd, flutti Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þá í Sjálfstæðisflokknum, ein tillögu um að samhliða þingkosningum 27. apríl 2013 yrði þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort ESB-viðræðunum ætti að halda áfram. Tillagan kom ekki einu sinni til umræðu á þinginu.
Í greinargerð tillögunnar var hún meðal annars rökstudd á þann veg að „mjög áríðandi“ væri fyrir Íslendinga að loka ekki ESB-dyrunum á þeirri stundu. Árið 2013 ætti að samþykkja nýja sjávarútvegsstefnu ESB, viðræður yrðu um viðamikinn fríverslunarsamning milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna og David Cameron, þáv. forsætisráðherra Breta, vildi efna til viðræðna um um breytingar á aðildarsamningi Breta. Öll þessi mál gætu skipt Íslendinga miklu um langa framtíð.
Ekkert af því sem þarna er nefnt hefur síðan breytt neinu um tengsl Íslands og ESB eða veikt stöðu Íslendinga á alþjóðavettvangi.
Viðræður fulltrúa ESB og Bandaríkjanna um fríverslunarsamning
(TTIP-viðræðurnar) hófust vissulega árið 2013, þeim lauk án
niðurstöðu árið 2016. Formlega var bundinn endir á þær árið 2019
enda talið um úrelta hugmynd að ræða.
Katrín jakobsdóttir forsætisráðherra var í Washington DC miðvikudaginn 21. september 2022. Þar hitti hún meðal annarra öldungadeildarþingmennina Lisu Murkowski frá Alaska og Angus King frá Maine sem flutt hafa frumvarp um norðurslóðamál í deildinni þar sem meðal annars er heimilað að gera fríverslunarsamning við Íslendinga (mynd forsætisráðuneytið).
Fyrir bandarísku öldungadeildinni liggur tillaga frá því sumar um heimild fyrir Bandaríkjastjórn til fríverslunarviðræðna við ríkisstjórn Íslands. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hitti flutningsmenn tillögunnar í Washington 21. september sl.
Viðræður Breta við ESB fóru á allt annan veg en Cameron ætlaði. Bretar gengu úr ESB í ársbyrjun 2020.
Síðan 27. apríl 2013 hefur engin íslensk ríkisstjórn viljað ganga í ESB. Þess vegna hefur verið tilgangslaust að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort sækja eigi um ESB-aðild. Hefur sú staða sem kynni að skapast vegna ótímabærrar atkvæðagreiðslu réttilega verið kennd við „pólitískan ómöguleika“. Enginn flokkur vill hins vegar nýja umsókn án umboðs þjóðarinnar í atkvæðagreiðslu. Það er stóri pólitíski lærdómurinn af umsóknarfrumhlaupinu sumarið 2009.
Efnislegu rökin fyrir tillögu stjórnarandstöðuflokkanna nú birtast í þessum orðum í greinargerð hennar:
„Óhætt er að segja að vatnaskil hafi orðið í umræðunni um stöðu Íslands í Evrópu með innrás Rússa í Úkraínu.“
Fullyrðingin um „vatnaskil“ vegna innrásarinnar er rétt en rangt að staða Íslands í Evrópu hafi breyst við innrásina. Það er einfaldlega röng fullyrðing hjá flutningsmönnum að nauðsynlegt sé fyrir Íslendinga að taka „afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu vegna nýs veruleika í öryggis- og varnarmálum“.
Fimm andmæli má nefna:
Í fyrsta lagi er óskynsamlegt og óþarft við þær aðstæður sem nú ríkja í alþjóðlegum öryggis- og efnahagsmálum að stofna til stórdeilna hér um ESB-aðild.
Í öðru lagi er ekkert nágrannaríki Íslands við Norður-Atlantshaf í ESB en þau eru Noregur, Færeyjar, Bretland, Grænland, Kanada og Bandaríkin.
Í þriðja lagi eru EES-ríki tilgreind með ESB-ríkjum sem samstarfsaðilar NATO í grunnstefnu NATO frá 29. júní 2022.
Í fjórða lagi stefnir ESB að nánu samstarfi í öryggismálum við aðildarríki EES-samningsins auk Kanada og Bretlands eins og segir grunnskjali sambandsins um öryggismál frá 21. mars 2022.
Í fimmta lagi geta Íslendingar gerst aðilar að áætlunum Evrópusambandsins í öryggis- og varnarmálum af þeim þunga sem íslensk stjórnvöld kjósa.
Að þrír af fimm stjórnarandstöðuflokkum ákveði að ganga fram á þennan veg í upphafi nýs þings sýnir að þeir geta ekki sameinast um neitt viðfangsefni líðandi stundar. Stjórnarandstaðan gengur veikburða og sundruð til verkanna sem bíða haustþingsins.