Sólríkur arkitektúr
Morgunblaðið, laugardagur 13. desember 2025.
Gunnar Hansson – Arkitektinn og verk hans ★★★★★ Eftir Pétur H. Ármannsson. KIND, 2025. Innb., 223 bls., texti á íslensku og ensku, fjöldi mynda og teikninga.
Bækur um íslenska arkitekta veita fræðilegan fróðleik og eru forvitnilegar fyrir þá sem hafa áhuga á umhverfi sínu. Nútímaleg húsagerðarlist er svo ung hér að þeir sem fæddir eru á fyrri hluta síðustu aldar kannast af eigin raun við áhrif flestra breytinga vegna ólíkra skipulagshugmynda og þróunar byggðar frá því að raunverulegt þéttbýli myndaðist.
Meginlínur skipulags ráðast mjög af áhrifum einstaklinga. Arkitektabækurnar opna lesendum nýja sýn á þessi áhrif á borgarhverfi, strauma og stefnur.
Gunnar Hansson (1925-1989) var arkitekt hreinstefnu, sólarbirtu og aðstöðu til að njóta sólskins. Á líðandi stundu má hins vegar lesa hér í blaðinu ádrepu eins og þessa:
„Nú þegar rísa hverfi þar sem háar þéttbyggðar blokkir varpa skugga yfir nærliggjandi svæði. Sólarljós og birta, sem er fólki af holdi og blóði sálræn og líkamleg nauðsyn, nær ekki til jarðar. Á norðurslóðum hefur slíkt umhverfi neikvæð áhrif á líðan fólks og skaðar jafnvel geðheilsu, sérstaklega yfir dimmustu mánuðina.“ (Magnús Skúlason arkitekt, 7. nóvember 2025.)
Enginn er betri en Pétur H. Ármannsson, arkitekt og sviðsstjóri hjá Minjastofnun Íslands, til að segja almennum lesendum frá arkitektum, ævi þeirra og verkum. Hann er höfundur bókarinnar Gunnar Hansson – Arkitektinn og verk hans. Samhliða því sem hann skrifar um Gunnar nýtir Pétur þekkingu sína til að draga saman mikinn fróðleik. Hann nær vel utan um það sem lýst er, tæmir málið ef svo má segja.
Til dæmis um það má nefna lýsingu Péturs á því hvernig bygging raðhúsa með samræmdu útliti, sérinngangi og garði þróaðist frá því að Bankahúsin svonefndu voru byggð við Framnesveg eftir uppdráttum Guðjóns Samúelssonar á árunum 1922-1923. Árið 1942 teiknuðu arkitektarnir Gísli Halldórsson og Sigvaldi Thordarson tvær tvílyftar lengjur raðhúsa við Miklubraut 22-38. Á árunum 1947-1951 reis þyrping einlyftra raðhúsa við Snekkjuvog og Karfavog sem Gunnlaugur Pálsson arkitekt teiknaði. Raðhús eftir Gunnlaug risu einnig við Háagerði og eftir Sigvalda Thordarson við Skeiðarvog snemma á sjötta áratugnum.
Gunnar Hansson kynnti til sögunnar raðhúsaíbúðir á fjórum pöllum við Kaplaskjólsveg 1954. Í skipulagi Háaleitis- og Grensáshverfa, þar sem Gunnar var annar aðalhöfundur, var gert ráð fyrir raðhúsabyggð við ofanvert Hvassaleiti. Þar risu syðst þrjár húsalengjur eftir uppdráttum Gunnars frá 1959. Lýsir Pétur húsagerðinni af nákvæmni. (94)
Pétur bregður því ekki aðeins ljósi á verk Gunnars heldur skipar honum sess meðal arkitekta samtíðar hans og nefnir þá fjölmarga til sögunnar. Bókin er því í senn um Gunnar og flóru arkitektúrs þegar hann tók að láta að sér kveða.
Í inngangi fer Pétur yfir sviðið eins og það var þegar Gunnar stundaði nám í Berkeley í Bandaríkjunum og Þrándheimi í Noregi og haslaði sér síðan völl hér á landi. Þar segir einnig: „Mótun sólríks dvalarsvæðis í beinum tengslum við hjarta hverrar íbúðar var lykilatriði í flestum þeim íbúðarhúsum sem Gunnar teiknaði og eitt af því sem skapar þeim sérstöðu“ (16).
Skemmtileg er tenging Péturs þegar hann setur þessi orð í samhengi við hjónaband Gunnars og Huldu, dóttur Valtýs Stefánssonar ritstjóra og Kristínar Jónsdóttur listmálara, sem bjuggu við Laufásveg. Kristín hafði þar vinnustofu. Á henni „voru dyr út í skjólsælan garðkrók undir suðurvegg sem var vinsæll samverustaður íbúa hússins þegar veður leyfði“ (16). Telur Pétur að sólarhornið við Laufásveg 69 hafi orðið Gunnari fyrirmynd að sólríku skjólkrókunum.

Þrjár dætur Huldu og Gunnars eiga frumkvæði að útgáfu bókarinnar. Bókaútgáfan KIND stendur þannig að gerð bókarinnar að hún er markverður prentgripur. Hönnun og myndritstjórn var í höndum Hildigunnar, dóttur Gunnars. Hún fer til dæmis nýstárlega leið við gerð bókarkápu. Minnir hún á „hreinstefnu í arkitektúr 6. áratugarins“ svo að vitnað sé til orða Péturs og þar með arkitektúr Gunnars.
Mikill fjöldi mynda setur sterkan svip á stórt brot bókarinnar. Þær sýna annars vegar fjölskyldu, líf og starfsvettvang Gunnars og hins vegar byggingar sem hann teiknaði. Þá eru einnig birtar húsateikningar Gunnars, grunnmyndir, útlit og þversnið, sem kynna vinnuferli hans.
Í bókinni eru skrár yfir tilvísanir, heimildir, helstu byggingar og verkefni Gunnars auk lista yfir ljósmyndir en Vigfús Birgisson er nefndur sem ljósmyndari í skrá yfir þá sem að gerð bókarinnar komu.
Það loftar um textann á hverri síðu en í meginmáli og við myndir er hann bæði á íslensku og ensku. Shauna Laurel Jones þýddi textann á ensku. Greint er milli textanna á þann veg að íslenskan er feitletruð.
Margar byggingar sem Gunnar teiknaði setja svip á borgarmyndina og ber þar hæst Morgunblaðshúsið, Aðalstræti 6, við enda Austurstrætis.
Pétur segir byggingarsögu hússins sem var löng og skrautleg á tímum fjárhagsráðs og fjárfestingahafta. Morgunblaðið flutti starfsemi sína í húsið úr Austurstræti vorið 1956 og tók þá nýja prentvél í notkun. Í desember 1956 var verslunarmiðstöðin Vesturver opnuð með níu verslunum á þremur hæðum í húsinu. „Vesturver var fyrsti vísir að nútímalegri verslunarmiðstöð sem var sérhönnuð sem slík“ (44). Aðrar komu síðar. Má þar nefna Kjörgarð við Laugaveg sem var opnaður með 14 verslunum í desember 1959.
Vesturver var ævintýraheimur á sínum tíma og spennandi að kynnast honum sem sendill á blaðinu og síðan húsnæði blaðsins sem vinnustað árum saman á öllum deildum þess. Hélt húsnæðið vel utan um starfsemina.
Prentvélin var í bakhúsi og í neðsta kjallara voru pappírsrúllurnar geymdar. Þær voru hífðar inn um bakdyr frá Fischersundi. Vesturver var í suðurhluta hússins við Aðalstræti en auglýsingadeild Morgunblaðsins á jarðhæð í norðurhlutanum. Þar var lúga á glugga út í Aðalstræti. Sunnudagsblaðið fór snemma í prentun á laugardagskvöldum og safnaðist þá oft hópur fólks við húsið og beið eftir að geta keypt blaðið volgt úr prentvélinni. Var lúgan sett til að viðhalda þjónustu sem var vinsæl þegar blaðið var prentað í Austurstræti.
Setjarasalur var á millihæð séð úr anddyri hússins og afgreiðsla blaðsins fyrir aftan hann. Ritstjórnarskrifstofur voru á annarri hæð – ritstjórar, lesbók og ljósmyndarar í framhúsi en blaðamenn í bakhúsi í opnu rými sem skipt var í vinnuherbergi með þiljum neðst og stórum gluggum þannig að sást á milli herbergja á suður- og norðurhlið með góðu miðrými. Þarna var bjart og að jafnaði mikið um að vera og spenna í lofti á tímum stórtíðinda.
Minningin er ljúf vegna andrúmsloftsins sem ríkti og skapaðist ekki aðeins vegna góðra samskipta samstarfsmanna heldur einnig af því hvernig vinnustaðurinn var hannaður og hugsað fyrir öllu.
Við lestur bókarinnar um Gunnar Hansson vakna margar minningar um Reykjavík sem var. Endurtekin dæmi Péturs um hve birtan og sólskinið setti sterkan svip á verk Gunnars minna einnig á liðinn tíma og gamlar áherslur.