Smáríki andspænis stórveldum
Morgunblaðið, laugardagur 5. ágúst 2023
Í fyrri viku var Qin Gang vikið þegjandi og hljóðalaust úr embætti utanríkisráðherra Kína. Skömmu síðar hurfu myndir af honum af veggjum kínverskra sendiráða um heim allan og nafn hans var þurrkað út af vefsíðu utanríkisráðuneytisins. Hans er ekki einu sinni getið á síðunni um fyrrverandi utanríkisráðherra.He Rulong, sendiherra Kína á Íslandi, sá ástæðu til að minna á sig mánudaginn 31. júlí með hádegisverði „til heiðurs íslenskum fjölmiðlum“ eins og sagði í Viðskiptablaðinu.
Að kvöldi 31. júlí var rætt við sendiherrann í fréttum ríkissjónvarpsins. Þegar spurt var hvort íslensk stjórnvöld ættu aðild að kínverska fjárfestinga- og lánaverkefninu sem kennt er við belti og braut fór sendiherrann undan í flæmingi. Svaraði án þess að segja neitt bitastætt. Hann sagði „forgangsmál“ hjá sér að koma á beinu flugi milli Kína og Íslands, það yrði kannski innan fimm ára.
Í hádegisverði sendiherrans til heiðurs íslenskum fjölmiðlum var líklega ekkert rætt um viðkvæm mál eins og ráðherrahvarfið í kínverska utanríkisráðuneytinu, hvort það leiddi til stefnubreytingar gagnvart Íslandi.
Tilviljun réð því vafalaust að hádegisverðurinn var haldinn á lokastarfsdegi sendiráðs Íslands í Moskvu og í lok þess frests sem rússneski sendiherrann fékk til að hverfa héðan.
Nú er rússneska sendiráðið í Reykjavík í raun höfuðlaust þótt þar séu enn við störf nokkrir starfsmenn með óljóst hlutverk.
Kínverski sendiherrann minnti fjölmiðlamennina á að enn starfaði hér sendiráð með fullri reisn sem styddi innrás Rússa í Úkraínu og legði Rússum diplómatískt lið. Kínverjar sækja markvisst í norður og fjárfesta í rússneskum auðlindum.
Utanríkisráðherrarnir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir og Gabrielius Landsbergis (mynd: utanríkisráðuneyti Litháens).
Skýrt var frá því 1. ágúst að utanríkisráðuneyti Íslands og Litháens hefðu samið um að íslenskir stjórnarerindrekar fengju vinnuaðstöðu í sendiráði Litháens í Kyív. Áform væru uppi um að auka viðveru íslenskra stjórnarerindreka í Úkraínu og sýna úkraínsku þjóðinni þannig samstöðu á stríðstímum vegna löglausrar innrásar Rússa. Samkomulaginu fylgdu engar fjárhagslegar skuldbindingar.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sagði að með aukinni viðveru í Úkraínu gætu íslensk stjórnvöld treyst böndin við þarlend stjórnvöld og sýnt úkraínsku þjóðinni samkennd um leið og sótt yrði í þá þekkingu og reynslu sem Litháar og aðrar vinaþjóðir hefðu varðandi þetta svæði. Það kæmi að ómetanlegu gagni við ákvarðanir um stuðning við Úkraínu á komandi árum.
Gabrielius Landsbergis, utanríkisráðherra Litháens, sagði samstarf utanríkisráðuneyta landanna í Kyív til marks um að „þétt samstaða Íslands og Litháens“ væri „ekki aðeins táknræn heldur raunveruleg“.
Í desember 2021 lokaði Landsbergis utanríkisráðherra sendiráði Litháens í Peking og kallaði sendiráðsmenn þaðan heim til Vilníus. Utanríkisráðherrann gerði þetta til að mótmæla hörðum viðbrögðum og refsiaðgerðum kínverskra yfirvalda vegna þess að stjórnvöld í Litháen leyfðu Taívanstjórn að opna skrifstofu fyrir fulltrúa sinn í Vilníus. Hefði skrifstofan verið kennd við viðskipti er óvíst að kínverskir kommúnistar hefðu sett Litháa í skammarkrókinn.
Þegar ríkisoddvitafundur NATO var í Vilníus um miðjan júlí 2023 spurðu blaðamenn Landsbergis hvort hann sæi eftir að hafa ögrað kínverska efnahags- og herveldinu tveimur árum áður. Hann sagði svo ekki vera.
Skilningur innan ESB á áhættunni af viðskiptum við Kínverja hefði aukist eftir innrás Rússa í Úkraínu. Margir teldu að í Kína væri um auðfenginn gróða að ræða. Í samskiptum við ólýðræðislegar stjórnir byggi þó alltaf eitthvað annað að baki viðskiptum sem þær leyfðu. Það kæmi í ljós fyrr eða síðar.
Þegar litið væri til viðskipta við Rússland hefði til dæmis verið betra fyrir Litháa og aðra að hugsa sig um tvisvar áður en þjóðirnar urðu háðar orkukaupum af Rússum.
Landsbergis sagði að aukin viðskipti við Taívan hefðu meira en bætt upp tapið sem varð þegar Kínastjórn lokaði á viðskipti við Litháa.
Nú glíma ítölsk stjórnvöld við alvarlegar afleiðingar þess að hafa gerst þátttakendur í áætlun Kínverja um belti-og-braut.
Ítalska ríkisstjórnin gerðist hátíðlega þátttakandi í belti-og-braut árið 2019 þegar Giuseppe Conte var forsætisráðherra og Xi Jinping Kínaforseti heimsótti Róm. Nú bíður það Giorgiu Meloni forsætisráðherra að ákveða fyrir desember hvort halda eigi samstarfinu áfram. Verði því ekki slitið framlengist það sjálfkrafa í mars árið 2024.
Það er til marks um hug ítalskra ráðherra til þessa samstarfs við Kínverja að Guido Crosetto varnarmálaráðherra lýsti sunnudaginn 30. júlí samningnum frá 2019 sem „viðurstyggilegri hrákasmíði“.
Samningurinn hefur stóraukið skuldir ítalska ríkisins og magnað þrýstivald Kínastjórnar fyrir utan að það skortir allt gagnsæi um framkvæmd hans.
Ítalir gerðu samninginn í óþökk ESB og annarra G7-ríkja sem litu á hann sem kínverskan trójuhest innan borgarmúra sinna.
Helstu rök Crosettos gegn samningnum voru að hann hefði ekki skilað því sem að var stefnt. Hann sagði við blaðið Corriere della Sera að Kínverjar hefðu hagnast á auknum útflutningi til Ítalíu en lítil breyting hefði verið á útflutningi Ítala til Kína.
Í raun er óskiljanlegt að ekki sé unnt að svara afdráttarlaust hvort íslensk stjórnvöld séu í samstarfi um belti-og-braut við Kínverja eða hafi áhuga á því. Það er löngu tímabært að tekið sé af skarið um að svo sé ekki og Ísland sé ekki á neinu gráu svæði að því er þetta varðar.