5.8.2023

Smáríki andspænis stórveldum

Morgunblaðið, laugardagur 5. ágúst 2023

Í fyrri viku var Qin Gang vikið þegj­andi og hljóðalaust úr embætti ut­an­rík­is­ráðherra Kína. Skömmu síðar hurfu mynd­ir af hon­um af veggj­um kín­verskra sendi­ráða um heim all­an og nafn hans var þurrkað út af vefsíðu ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins. Hans er ekki einu sinni getið á síðunni um fyrr­ver­andi ut­an­rík­is­ráðherra.

He Rulong, sendi­herra Kína á Íslandi, sá ástæðu til að minna á sig mánu­dag­inn 31. júlí með há­deg­is­verði „til heiðurs ís­lensk­um fjöl­miðlum“ eins og sagði í Viðskipta­blaðinu.

Að kvöldi 31. júlí var rætt við sendi­herr­ann í frétt­um rík­is­sjón­varps­ins. Þegar spurt var hvort ís­lensk stjórn­völd ættu aðild að kín­verska fjár­fest­inga- og lána­verk­efn­inu sem kennt er við belti og braut fór sendi­herr­ann und­an í flæm­ingi. Svaraði án þess að segja neitt bita­stætt. Hann sagði „for­gangs­mál“ hjá sér að koma á beinu flugi milli Kína og Íslands, það yrði kannski inn­an fimm ára.

Í há­deg­is­verði sendi­herr­ans til heiðurs ís­lensk­um fjöl­miðlum var lík­lega ekk­ert rætt um viðkvæm mál eins og ráðherra­hvarfið í kín­verska ut­an­rík­is­ráðuneyt­inu, hvort það leiddi til stefnu­breyt­ing­ar gagn­vart Íslandi.

Til­vilj­un réð því vafa­laust að há­deg­is­verður­inn var hald­inn á loka­starfs­degi sendi­ráðs Íslands í Moskvu og í lok þess frests sem rúss­neski sendi­herr­ann fékk til að hverfa héðan.

Nú er rúss­neska sendi­ráðið í Reykja­vík í raun höfuðlaust þótt þar séu enn við störf nokkr­ir starfs­menn með óljóst hlut­verk.

Kín­verski sendi­herr­ann minnti fjöl­miðlamenn­ina á að enn starfaði hér sendi­ráð með fullri reisn sem styddi inn­rás Rússa í Úkraínu og legði Rúss­um diplóma­tískt lið. Kín­verj­ar sækja mark­visst í norður og fjár­festa í rúss­nesk­um auðlind­um.

Official-leidrettUtanríkisráðherrarnir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir og Gabrielius Landsbergis (mynd: utanríkisráðuneyti Litháens).

Skýrt var frá því 1. ág­úst að ut­an­rík­is­ráðuneyti Íslands og Lit­há­ens hefðu samið um að ís­lensk­ir stjórn­ar­er­ind­rek­ar fengju vinnuaðstöðu í sendi­ráði Lit­há­ens í Kyív. Áform væru uppi um að auka viðveru ís­lenskra stjórn­ar­er­ind­reka í Úkraínu og sýna úkraínsku þjóðinni þannig sam­stöðu á stríðstím­um vegna lög­lausr­ar inn­rás­ar Rússa. Sam­komu­lag­inu fylgdu eng­ar fjár­hags­leg­ar skuld­bind­ing­ar.

Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir ut­an­rík­is­ráðherra sagði að með auk­inni viðveru í Úkraínu gætu ís­lensk stjórn­völd treyst bönd­in við þarlend stjórn­völd og sýnt úkraínsku þjóðinni sam­kennd um leið og sótt yrði í þá þekk­ingu og reynslu sem Lit­há­ar og aðrar vinaþjóðir hefðu varðandi þetta svæði. Það kæmi að ómet­an­legu gagni við ákv­arðanir um stuðning við Úkraínu á kom­andi árum.

Gabrielius Lands­berg­is, ut­an­rík­is­ráðherra Lit­há­ens, sagði sam­starf ut­an­rík­is­ráðuneyta land­anna í Kyív til marks um að „þétt samstaða Íslands og Lit­há­ens“ væri „ekki aðeins tákn­ræn held­ur raun­veru­leg“.

Í des­em­ber 2021 lokaði Lands­berg­is ut­an­rík­is­ráðherra sendi­ráði Lit­há­ens í Pek­ing og kallaði sendi­ráðsmenn þaðan heim til Viln­íus. Ut­an­rík­is­ráðherr­ann gerði þetta til að mót­mæla hörðum viðbrögðum og refsiaðgerðum kín­verskra yf­ir­valda vegna þess að stjórn­völd í Lit­há­en leyfðu Taívan­stjórn að opna skrif­stofu fyr­ir full­trúa sinn í Viln­íus. Hefði skrif­stof­an verið kennd við viðskipti er óvíst að kín­versk­ir komm­ún­ist­ar hefðu sett Lit­háa í skammar­krók­inn.

Þegar rík­is­odd­vita­fund­ur NATO var í Viln­íus um miðjan júlí 2023 spurðu blaðamenn Lands­berg­is hvort hann sæi eft­ir að hafa ögrað kín­verska efna­hags- og her­veld­inu tveim­ur árum áður. Hann sagði svo ekki vera.

Skiln­ing­ur inn­an ESB á áhætt­unni af viðskipt­um við Kín­verja hefði auk­ist eft­ir inn­rás Rússa í Úkraínu. Marg­ir teldu að í Kína væri um auðfeng­inn gróða að ræða. Í sam­skipt­um við ólýðræðis­leg­ar stjórn­ir byggi þó alltaf eitt­hvað annað að baki viðskipt­um sem þær leyfðu. Það kæmi í ljós fyrr eða síðar.

Þegar litið væri til viðskipta við Rúss­land hefði til dæm­is verið betra fyr­ir Lit­háa og aðra að hugsa sig um tvisvar áður en þjóðirn­ar urðu háðar orku­kaup­um af Rúss­um.

Lands­berg­is sagði að auk­in viðskipti við Taív­an hefðu meira en bætt upp tapið sem varð þegar Kína­stjórn lokaði á viðskipti við Lit­háa.

Nú glíma ít­ölsk stjórn­völd við al­var­leg­ar af­leiðing­ar þess að hafa gerst þátt­tak­end­ur í áætl­un Kín­verja um belti-og-braut.

Ítalska rík­is­stjórn­in gerðist hátíðlega þátt­tak­andi í belti-og-braut árið 2019 þegar Giu­seppe Conte var for­sæt­is­ráðherra og Xi Jin­ping Kína­for­seti heim­sótti Róm. Nú bíður það Gi­orgiu Meloni for­sæt­is­ráðherra að ákveða fyr­ir des­em­ber hvort halda eigi sam­starf­inu áfram. Verði því ekki slitið fram­leng­ist það sjálf­krafa í mars árið 2024.

Það er til marks um hug ít­alskra ráðherra til þessa sam­starfs við Kín­verja að Guido Crosetto varn­ar­málaráðherra lýsti sunnu­dag­inn 30. júlí samn­ingn­um frá 2019 sem „viður­styggi­legri hráka­smíði“.

Samn­ing­ur­inn hef­ur stór­aukið skuld­ir ít­alska rík­is­ins og magnað þrýsti­vald Kína­stjórn­ar fyr­ir utan að það skort­ir allt gagn­sæi um fram­kvæmd hans.

Ítal­ir gerðu samn­ing­inn í óþökk ESB og annarra G7-ríkja sem litu á hann sem kín­versk­an tróju­hest inn­an borg­ar­múra sinna.

Helstu rök Crosettos gegn samn­ingn­um voru að hann hefði ekki skilað því sem að var stefnt. Hann sagði við blaðið Corri­ere della Sera að Kín­verj­ar hefðu hagn­ast á aukn­um út­flutn­ingi til Ítal­íu en lít­il breyt­ing hefði verið á út­flutn­ingi Ítala til Kína.

Í raun er óskilj­an­legt að ekki sé unnt að svara af­drátt­ar­laust hvort ís­lensk stjórn­völd séu í sam­starfi um belti-og-braut við Kín­verja eða hafi áhuga á því. Það er löngu tíma­bært að tekið sé af skarið um að svo sé ekki og Ísland sé ekki á neinu gráu svæði að því er þetta varðar.