Sigrún Gísladóttir - minning
Sigrún Gísladóttir sýndi mikinn styrk í veikindum sínum. Hún vissi
að hverju stefndi um nokkurt skeið án þess að láta hugfallast.
Andlát hennar kom okkur í utanferð MR-64-árgangsins því ekki
alveg í opna skjöldu þegar fréttin barst. Vinur hennar, Júlíus
Sæberg Ólafsson, skólabróðir okkar, sendi hana til forystu
ferðarinnar. Vöknuðu þá góðar og bjartar minningar um hlut
Sigrúnar í fyrri ferðum sama hóps. Í sameiginlegum kvöldverði í
ferðarlok minntust allir Sigrúnar af hlýhug.
Nú eru því um 60 ár frá því að leiðir okkar Sigrúnar lágu saman í
MR. Í árganginum var einnig Guðjón Magnússon síðar eiginmaður
hennar, læknir og prófessor, sem varð bráðkvaddur og öllum
harmdauði í október 2009. Í Háskóla Íslands sátum við Guðjón saman í
stúdentaráði og áttum góða samvinnu þótt í ólíkum deildum værum.
Síðar urðu kynnin við Sigrúnu og Guðjón nánari og persónulegri þegar börn okkar Sigríður Sól og Heiðar felldu hugi saman og gengu í hjónaband árið 1999.
Sigrún skipaði sér í forystu hvar sem hún lét að sér kveða. Hún stjórnaði skóla sínum, Flataskóla í Garðabæ, í 20 ár, frá 1984 til 2004. Tók hún við skólastjórninni af þjóðkunnum skólamanni, Vilbergi Júlíussyni. Lagði hann grunn að starfi skólans árið 1958. Sigrún tók því við mikilli ábyrgð á stóli skólastjórans eftir að frumkvöðullinn hafði setið þar í 26 ár.
Hún komst þannig að orði að í tvo áratugi hefði hún gegnt „draumastarfinu“. Hún lét af störfum til að geta dvalist með Guðjóni í Kaupmannahöfn þar sem hann gegndi forstöðumannsstarfi á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO).
Flataskóli naut vinsælda og virðingar meðal Garðbæinga og sat skólastjórinn tvö kjörtímabil í bæjarstjórn fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Tvisvar fékk ég sem menntamálaráðherra tækifæri til að kynnast metnaðarfullum skólabragnum. Í fyrra skiptið í nóvember 1996 í þann mund sem grunnskólinn fluttist frá ríkinu til sveitarfélaganna. Í seinna skiptið í september 1998 þegar Soroptimistar völdu Flataskóla sem upphafsskóla í átaki meðal sex ára barna til að efla gagnkvæma virðingu. Fórum við Salóme Þorkelsdóttir, forseti landssamtaka Soroptimista, þá til skóla Sigrúnar og afhentum börnunum fræðsluefni.
Eftir að fjölskyldutengsl okkar komu til sögunnar kynntumst við Rut því af eigin raun hve Sigrún lét sér innilega annt um syni sína þrjá, tengdadætur og barnabörnin átta.
Þegar Bjarki Heiðarsson varð stúdent í lok maí 2021 tók hún þátt í fagnaðinum og hafði lifandi áhuga á því sem hæst bar eins og jafnan endranær.
Sigrúnu var mikið í mun að gefa barnabörnum sínum færi á að sjá sem flestar leiksýningar. Er ekki að efa að með þeim lifir sú minning sterkt auk utanferða sem hún skipulagði með hópinn sinn til hátíðarbrigða.
Við Rut minnumst ánægjustunda með þakklæti og einnig þess hve mikinn styrk Sigrún sýndi við skyndilegt brotthvarf Guðjóns.
Við færum ástvinunum öllum innilegar samúðarkveðjur.
Blessuð sé minning Sigrúnar Gísladóttur.