10.1.2024

Sauðfjárrækt skapar lífsstíl

Morgunblaðið, miðvikudagur, 10. janúar 2024.

 


Sauðfjárbúskapur Dr. Ólafur R. Dýrmundsson er sérfræðingur í sauðfjárrækt og fjáreigandi í Reykjavík.Sauðfjár­bú­skap­ur Dr. Ólaf­ur R. Dýr­munds­son er sér­fræðing­ur í sauðfjár­rækt og fjár­eig­andi í Reykja­vík. — Morg­un­blaðið/​Krist­inn Magnús­son


Sauðfjárbúskapur í Reykjavík eftir Ólaf R. Dyrmundsson ★★★★ Hið íslenska bókmenntafélag, 2023. Innb. 304 bls., myndi og skrár


Í umræðum á alþingi í byrj­un októ­ber 2020 sagði Kristján Þór Júlí­us­son, sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðherra: „Maður heyr­ir viðtöl við sauðfjár­bænd­ur og á sam­tal við þá þar sem þeir segja að þetta sé meiri lífs­stíll en spurn­ing um af­komu.“

Orð Kristjáns Þórs um lífs­stíl­inn vöktu nokkr­ar umræður og sum­ir hneyksluðust á þeim. Þeir sem það gerðu ættu að lesa bók­ina Sauðfjár­bú­skap­ur í Reykja­vík – Fjár­eig­enda­fé­lag Reykja­vík­ur eft­ir dr. Ólaf R. Dýr­munds­son (f. 1944) bú­vís­inda­mann, sér­fræðing í sauðfjár­rækt og fjár­eig­anda í Reykja­vík. Á bók­ar­kápu seg­ir að nú um átt­rætt sinni hann „enn fag­leg­um verk­efn­um í þágu líf­ræns land­búnaðar og fæðuör­ygg­is og stund[i] borg­ar­bú­skap sér til ynd­is og ánægju“.

8b8da604-f928-4461-bf31-f8f8ead977ac

Vandaðri fræðimann og borg­ar­bónda hefði ekki verið unnt að finna til að skrifa bók um af­drif sauðfjár í Seltjarn­ar­nes­hreppi hinum forna. Ólaf­ur hef­ur verið fjár­eig­andi í Reykja­vík síðan 1957. Við skóla­bræður hans í MR viss­um af fjár­bú­skapn­um sem hann stundaði af alúð og áhuga. Frétt­ir af sauðfé í höfuðborg­inni hafa jafn­an vakið áhuga þess sem þetta skrif­ar.

Stjórn Fjár­eig­enda­fé­lags Reykja­vík­ur samþykkti 15. nóv­em­ber 2017 að fela Ólafi að skrifa sögu fé­lags­ins, sem var stofnað 1927, og fjár­bú­skap­ar í Reykja­vík. Ákvað höf­und­ur að lýsa þróun bú­skap­ar­ins frá því eft­ir miðja 19. öld­ina. Þessi flétta á milli fé­lags- og bú­skap­ar­sög­unn­ar er þunga­miðja bók­ar­inn­ar.

Bók­in skipt­ist í 22 kafla og flest­ir þeirra í undirkafla. Hún er ríku­lega myndskreytt á vönduðum papp­ír. Meg­in­máli fylgja til­vís­ana- og heim­ilda­skrá, mynda­skrá, atriðisorðaskrá, nokkr­ar orða- og hug­taka­skýr­ing­ar, manna­nafna­skrá og heilla­óska­skrá. Í ramma­grein­um seg­ir höf­und­ur frá minn­is­verðum ein­stak­ling­um og at­vik­um.

Vegna þess hve oft er vitnað til ein­stakra staða og ör­nefna hefði aukið gildi bók­ar­inn­ar að hafa í henni kort svo í sjón­hend­ingu hefði verið unnt að átta sig á staðhátt­um.

Af stakri vand­virkni lýs­ir Ólaf­ur svæðum í Seltjarn­ar­nes­a­f­rétti, beit­ar­lönd­um, smala­slóðum og rekstr­ar­leiðum. Ná­kvæmni ræður þegar lýst er hvar, hvenær og hvernig mik­il­væg­ar ákv­arðanir voru tekn­ar um mál­efni Fjár­eig­enda­fé­lags­ins. Ólaf­ur varðveit­ir einnig tungu­tak í texta sín­um. Eft­ir til­hleyp­ing­ar með láns­hrútn­um Hetti seg­ir hann: „Ærnar mín­ar sem fengu við Hetti festu all­ar fang“ (212).

Höf­undi verður eðli­lega tíðrætt um sauðfjár­stríðið í Reykja­vík 1962-1970 um hvort Fjár­borg, það er fjár­húsa­byggð, mætti standa ofan við Blesu­gróf í Reykja­vík og Meltungu í Kópa­vogi. Þar er nú stór­hýsi lagna­fyr­ir­tæk­is­ins Teng­is. Árið 1959 rætt­ist ósk Fjár­eig­enda­fé­lags­ins um að fjár­hús­in yrðu þar í stræt­is­vagna­leið (69-70).

Í nóv­em­ber 1962 gagn­rýndu „tveir áhrifa­mikl­ir starfs­menn borg­ar­inn­ar“ sauðfjár­haldið í
Fjár­borg­inni. Inn­an borg­ar­inn­ar voru uppi áform „mjög and­stæð hags­mun­um fjár­eig­enda og reynd­ar borg­ar­búa líka í flestu til­liti“ (73).

Deil­unni lauk með fjár­borg­ar­samn­ingi milli borg­ar og fjár­eig­enda um landsvæði Fjár­eig­enda­fé­lags Reykja­vík­ur í Hólms­heiði haustið 1970. Þar er Fjár­borg­in síðan (91).

Haustið 1978 var staðfest riða í Fjár­borg­inni. Vildu fjár­eig­end­ur koma í veg fyr­ir að öllu fé þar yrði slátrað. Tókst far­sælt sam­starf við Sig­urð Sig­urðar­son, dýra­lækni á Keld­um, um til­raun und­ir for­sjá hans og Ólafs bók­ar­höf­und­ar.

Eft­ir að til­raun­in hafði staðið í átta ár gengu þeir Sig­urður og Ólaf­ur á fund Davíðs Odds­son­ar borg­ar­stjóra í sept­em­ber 1986 til að tala máli Fjár­borg­ar, kind­ur þar væru eng­um til ama and­stætt full­yrðing­um í bréfi sem borg­ar­stjóra hafði borist:

„Í lok­in spurði ég hvað borg­ar­stjóri ætlaði að gera við þetta bréf. Þessu svaraði Davíð ekki, opnaði aðeins skúffu í skrif­borðinu og stakk bréf­inu í hana. Þar með var málið af­greitt með skjót­um og skil­virk­um hætti og skaut það aldrei aft­ur upp koll­in­um það best ég veit.“

Riðutilraun­in hélt áfram og er löngu orðin lands­fræg, þökk sé m.a. aðkomu Davíðs Odds­son­ar borg­ar­stjóra að mál­efn­um reyk­vískra fjár­eig­enda skömmu fyr­ir rétt­ir 1986, og enn eru kind­ur í Fjár­borg“ (115).

Bók Ólafs verður von­andi til að ýta und­ir áhuga á sauðfjár­rækt í Reykja­vík. Þar er ómet­an­leg­ur fróðleik­ur um hvernig staðið skuli að verki og engri spurn­ingu er ósvarað.

Því var hafnað að leggja göng und­ir Suður­lands­veg fyr­ir sauðfé á leið í Fossvalla­rétt sunn­an við veg­inn ofan Lækj­ar­botna. Þess í stað hef­ur verið fundið nýtt rétt­ar­stæði norðan veg­ar­ins.

Sé sauðfjár­bú­skap­ur lífs­stíll margra er hann ekki síður snar þátt­ur í ís­lenskri menn­ingu. Göng­ur og rétt­ir eru meðal þess fáa sem minn­ir á aldagaml­ar land­búnaðar- og menn­ing­ar­hefðir á höfuðborg­ar­svæðinu seg­ir Ólaf­ur og að Reykja­vík sé „vafa­laust eina höfuðborg­in í heim­in­um sem á aðild að af­rétti og skila­rétt fyr­ir sauðfé“ (192).

Þetta er minn­ing­ar­bók um sauðfjár­bú­skap í Reykja­vík. Hún ætti jafn­framt að verða þeim til hvatn­ing­ar sem dreym­ir um að eiga sauðfé og búa í borg.