19.10.2018

Rússar og Kínverjar í heiðurssæti við hringborðið

Morgunblaðið 19. október 2018

Sjötta Hringborð norðursins (Arctic Circle) hefst formlega í dag í Hörpu. Eins og jafnan frá árinu 2013 setur dr. Ólafur Ragnar Grímsson þessa miklu ráðstefnu sem hefur í áranna rás verið sótt af þúsundum manna frá meira en 60 þjóðlöndum. Á netinu má sjá að dagskráin í ár er 69 bls. Án Hörpu hefði ekki verið unnt að stofna til þessa stórvirkis en húsið rúmar þó ekki alla fundina. Einn verður um borð í skólaskipinu Sæbjörgu og annar í Safnahúsinu við Hverfisgötu svo að dæmi séu tekin.

Til fyrsta hringborðsins var boðað árið 2013, ári áður en Rússar lögðu undir sig Krímskaga í trássi við alþjóðalög. Á árunum fjórum sem liðin eru frá innlimuninni hefur spenna magnast jafnt og þétt milli ríkjanna sem láta sig norðurslóðir mest varða. Nýleg lögbrot GRU, leyniþjónustu Rússahers, gera illt verra.


ArcticResourceBasinÞarna sést heimskautsbaugurinn. Gráu svæðin sýna þar sem líkur eru taldar á að vinna megi olíu og gas innan hans.
Vegna alls þessa beinist nú hernaðarleg athygli meira að norðurslóðum en áður. Öflugustu herveldi Vesturlanda, Bandaríkin, Bretland og Frakkland, auka viðbúnað sinn í norðri til að bregðast við hervæðingu Rússa þar.

Í næstu viku hefst NATO-varnaræfingin Trident Juncture 2018 fyrir norðan Ísland í og við Noreg með þátttöku um 50.000 hermanna.

Á níunda áratugnum vakti miklar umræður þegar boðað var að bandarísk flugmóðurskip yrðu send norður með strönd Noregs. Sovétmenn töldu það mikla ögrun.

 Nú heldur bandarískt flugmóðurskip, Harry S. Truman, norður með strönd Noregs til þátttöku í viðamikilli NATO-æfingu í fyrsta skipti í 30 ár. Í fyrirlestri á vegum Varðbergs þriðjudaginn 16. október sagði bandaríski aðmírállinn James G. Foggo, stjórnandi Trident-æfingarinnar, þetta enn staðfesta að samstaða NATO-þjóðanna með virkri og öflugri þátttöku Bandaríkjamanna í bandalaginu væri besta öryggistryggingin á norðurslóðum.

Samtöl án stefnumörkunar


Á dagskrá fyrsta fundar Hringborðs norðursins er liður sem ber enska heitið Dialogues, Samtöl. Þeir sem taka þátt í þeim eru

Lisa Murkowski, öldungadeildarþingmaður frá Bandaríkjunum, Sergeji Kisljak, öldungadeildarþingmaður og fyrrv. sendiherra Rússa í Bandaríkjunum, Karmenu Vella, umhverfis-, sjávarútvegs- og fiskimálastjóri ESB, Fu Chengyu, fyrrv. stjórnarformaður SINOPEC, olíu- og efnavinnslu risafyrirtækis í Kína og Ségolène Royal, heimskautasendiherra Frakklands.

Án þess að draga á nokkurn hátt í efa að þetta ágæta fólk stofni til fróðlegs samtals í Silfurbergi Hörpu er vert að hafa í huga að ekki er endilega víst að það hafi mikil eða afgerandi áhrif á stefnumörkun vegna norðurslóða.

Lisa Murkowski frá Alaska skapaði sér óvild Donalds Trumps og fleiri áhrifamanna meðal repúblíkana með því að styðja ekki Brett Kavanaugh í embætti hæstaréttardómara.

 Sergeji Kisljak var sendiherra í Bandaríkjunum þegar Rússar gerðu atlögu að lýðræðislegum stjórnarháttum Bandaríkjanna með afskiptum af forsetakosningabaráttunni árið 2016. Að hann sé áhrifamaður í norðurslóðamálum er ólíklegt enda situr hann í efri deild rússneska þingsins fyrir Mordoviu sem er fjarri heimskautsbaugnum.


Karmenu Vella er gamalreyndur stjórnmálamaður frá Möltu. Kjörtímabili hans í framkvæmdastjórn ESB lýkur á næsta ári svo að ekki er mikillar stefnumörkunar að vænta af hans hendi.

Ségolène Royal reyndi á sínum tíma að verða Frakklandsforseti fyrir sósíalista en misheppnaðist. Emmanuel Macron forseti hefur öðrum málum að sinna um þessar mundir og á næstunni en heimskautamálunum.


Pólitískt svipmót hringborðsins um þessar mundir tengist einkum vestnorrænu löndunum og Skotlandi. Stjórnir allra þessara landa eru háðar stuðningi annarra í varnar- og öryggismálum. Þess vegna má segja að þær hafi lítil áhrif á framvinduna sem einkennir mest samskipti ríkja á norðurslóðum um þessar mundir. Athygli hefur beinst að viðleitni stjórna Danmerkur og Bandaríkjanna undanfarið til að hindra aðild Kínverja að grænlenskri flugvallargerð.

Fyrir stjórnir Skotlands, Færeyja og Grænlands skiptir miklu að fá þennan alþjóðlega vettvang til að kynna sjónarmið sín.

Kína og Rússland í forgrunni


Hringborð norðursins skiptist í allsherjarfundi og minni fundi um sérgreind efni. Fámennir fundir gefa sérfræðingum eða áhugamönnum um ákveðin norðurslóðasvið tækifæri til að bera saman bækur sínar. Vegna þess hve margir sækja hringborðið hafa þessir fundir verulegt gildi fyrir þá sem sinna sérgreindum verkefnum þótt þeir dragi ekki að sér athygli annarra.

Skipuleggjendur hringborðsins velja efni sem tekin eru fyrir á allsherjarfundum. Þar vekur athygli hve mikið er gert með rannsóknir Rússa norðan heimskautsbaugs. Kynning á þeim er veittur tími á allsherjarfundi að morgni laugardags 20. október.

Að kvöldi sama laugardags er þátttakendum boðið á Kínakvöld í Norðurljósum Hörpu þar sem Ólafur Ragnar er meðal ræðumanna en jafnframt verða sýnd kínversk töfrabrögð og kung fu.
 

Sé litið yfir dagskrána má segja að Rússum og Kínverjum sé nú skipað í heiðurssæti við hringborðið. Er það vegna þess að ekki var annarra kosta völ eða til að sýna þessum þjóðum sérstaka virðingu? Því skal ekki svarað.

Kínverjar verða ekki aðeins með menningarkvöld. Dagskrá Hringborðs norðursins teygir sig að þessu sinni yfir á mánudaginn 22. október og norður að Kárhóli í Þingeyjarsýslu. Þar verður klippt á borða til að opna kínverska norðurljósastöð með þátttöku Ólafs Ragnars og Lilju Daggar Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra og annarra fyrirmenna.

Forysta Íslands


Á næsta ári taka Íslendingar við formennsku í tveimur ráðum sem skipta miklu fyrir samstarf norðurslóðaþjóða: Norðurskautsráðinu og Efnahagsráði norðurslóða. Gegna þeir formennskunni í tvö ár eða fram til ársins 2021.

Heiðar Guðjónsson hagfræðingur verður formaður efnahagsráðsins og segist ætla að leggja höfuðáherslu á samstarf um flugumferðarstjórn og gagnaflutninga.

Efnahagsráð norðurslóða var stofnað að frumkvæði Kanadamanna árið 2014. Ráðið er sjálfstæður vettvangur með það meginmarkmið að stuðla að sjálfbærri og ábyrgri þróun, efnahagsvexti og samfélagsþróun á norðurslóðum og stuðla að stöðugu, fyrirsjáanlegu og gagnsæu viðskiptaumhverfi.

Norðurskautsráðið er samstarfsvettvangur átta ríkisstjórna og líklega sá mikilvægasti sem fellur undir stjórn Íslendinga. Nú gerist það á tímum þegar verulega kann að reyna á innviði ráðsins vegna aukinnar spennu í samskiptum aðildarríkjanna.


Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er vikið að norðurslóðamálum með þessum orðum:

„Ísland mun gegna formennsku í Norðurskautsráðinu 2019– 2021. Málefni norðurslóða snerta nær allar hliðar íslensks samfélags og eru forgangsmál í íslenskri utanríkisstefnu. Ísland mun á vettvangi Norðurskautsráðsins einkum leggja áherslu á heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, loftslagsmál og málefni hafsins. Í samræmi við samþykkta norðurslóðastefnu Íslands verður sérstök áhersla lögð á réttindi frumbyggja og jafnrétti kynjanna.“


Þetta eru ágæt markmið en ólíklegt er að þau séu í takt við það sem hæst ber í umræðum um norðurslóðir á næstu misserum.