15.11.2025

Róttækni færist af jaðrinum

Moegunblaðið, laugardagur 15. nóvember 2025.

Skýrsla OECD, Efnahags- og framfarastofnunarinnar, um innflytjendamál árið 2025 kom út fyrr í mánuðinum. Þar segir að til að bregðast við mjög miklum straumi innflytjenda hafi nokkur OECD-ríki sett sér skýr markmið um að draga úr fólksflutningum, annaðhvort í heild sinni eða fyrir tiltekna hópa. Stefna varðandi komu vinnuafls sé í auknum mæli sniðin að því að laða að hæfileikafólk og mæta sérstökum þörfum vinnumarkaðarins. Þá séu brottvísanir fólks markvissari en áður.

Nýjustu tölur Hagstofu Íslands segja að um 21,5% íbúa landsins séu erlendir ríkisborgarar (69.670 erl. en 323.490 ísl.). Í löndum OECD er þetta hlutfall að meðaltali um 11% en í nokkrum ríkjum er hlutfallið hærra en hér: Lúxemborg (51,2%), Ástralíu, Sviss, Nýja-Sjálandi, Írlandi, Austurríki og Kanada.

OECD tekur enga afstöðu til þess hvort í því felist lýðfræðileg eða menningarleg ógn að um og yfir 20% íbúa lands séu erlendir ríkisborgarar. Þessi tala skýtur þó hvað eftir annað upp kollinum á evrópskum stjórnmálavettvangi hjá þeim sem krefjast strangari útlendingalaga.

Screenshot-2025-11-15-at-20.40.09

Vegna nýs tóns í umræðu um innflytjendamál víða í Evrópu hafa hugtök sem áður heyrðust einungis á jaðrinum ratað inn í meginstraum stjórnmálanna. Þar má nefna orð sem hljómar sakleysislega en felur í sér róttækar hugmyndir: remigration – endurflutningur.

Þar búa að baki áform um víðtækar brottvísanir útlendinga og afkomenda þeirra, einkum múslíma, sem sumir telja að ógni menningarlegri samheldni Evrópu. Þótt orðið líkist tæknilegu stjórnsýsluhugtaki boðar það stórfellda þjóðfélagsbreytingu, jafnvel þvingaða.

Herbert Kickl, leiðtogi FPÖ, stærsta flokks Austurríkis, var fyrsti flokksleiðtogi innan Evrópusambandsins sem gerði remigration að opinberu stefnumáli áhrifamikils stjórnmálaflokks. Hann sameinar þjóðernishyggju, harða andstöðu við fjölmenningu, tortryggni gagnvart ESB og popúlísk viðhorf sem höfða til óánægju og ótta almennings.

Kickl vill að allir nýir innflytjendur til Austurríkis gangist undir „menningarlegt aðlögunarpróf“ og riti undir naturaliseringskontrakt (aðlögunarsamning) sem hægt sé að ógilda. Hann talar fyrir því að innan ESB verði stofnað embætti remigration-kommissars til að samræma brottflutninga. Þá verði hætt að veita þróunaraðstoð til ríkja sem neiti að taka við þeim sem er brottvísað og erlendir afbrotamenn verði dæmdir til refsingar í fangelsum utan ESB.

Undir forystu Kickls á FPÖ samstarf við og hefur eflt tengsl við hliðstæða flokka í Evrópu: AfD í Þýskalandi, Lega á Ítalíu, Vox á Spáni og Fidesz í Ungverjalandi.

AfD (Annar valkostur fyrir Þýskaland) er næststærsti flokkurinn á þýska þinginu og stendur nú jafnfætis forystuflokki ríkisstjórnarinnar, Kristilegum demókrötum (CDU), í könnunum. Þýska fréttastofan DW sagði fyrir skömmu að eitt orð – remigration – gæti þó klofið flokkinn. Birti DW um miðjan september frásögn sem sögð var afhjúpa innri átök, tengsl við öfgahópa og stjórnarskrárbundna áhættu sem gæti ráðið úrslitum um framtíð AfD.

Öryggis- og leyniþjónusta Þýskalands hefur úrskurðað AfD sem öfgaflokk. Það skapar forystu flokksins þröngan stefnu- og starfsramma sem rímar illa við margt sem fellur undir remigration-stefnuna og vekur minningar um mannhatur í þýskri stjórnmálasögu.

Í Frakklandi hefur Éric Zemmour, leiðtogi flokksins Reconquête, gert remigration að stefnumáli sínu. Flokksnafnið vísar til Reconquista á Spáni þegar katólskir konungar börðust við múslíma um yfirráð á Spáni frá áttundu öld þar til að þeir lögðu Granada undir sig árið 1492.

Í Danmörku verður kosið til sveitarstjórna og héraðsráða þriðjudaginn 18. nóvember. Í kosningabaráttunni hefur Morten Messerschmidt, formaður Danska þjóðarflokksins (DF), vakið athygli fyrir harðorða stefnu í anda remigration. Hann segir að þúsundum útlendinga skuli vísað á brott.

Stefnan er sögð sú róttækasta í dönskum stjórnmálum í áratugi og hún marki viðsnúning frá hefðbundinni innflytjendaumræðu þar. Með nýju orðalagi séu róttækar skoðanir færðar af jaðrinum. Messerschmidt svarar gagnrýni með málssókn.

Mið-hægrimaðurinn Bertel Haarder, fyrrverandi útlendingamálaráðherra Dana, segir Messerschmidt boða stefnu án þess að gera sér nokkra grein fyrir hvað í henni felist eða hve óframkvæmanleg hún sé í reynd. Hefðbundinn brottflutningur þeirra sem fengið hafi synjun um hæli sé afar erfiður í framkvæmd. Upprunaríki hafni oft að taka við fólki vegna gjaldeyrissendinga sem þau fái frá ríkisborgurum sínum erlendis. Þess vegna hafi stjórnvöld neyðst til að þrengja að því fólki sem bíði brottvísunar, svo það yfirgefi landið sjálft. Að tala um remigration, það er senda burt fólk sem hafi búið árum saman í Danmörku, starfi þar, eigi börn og rætur, sé algjörlega óraunhæft.

Alþingismenn ræða nú löngu tímabært stjórnarfrumvarp um brottfararstöð þeirra sem hafa fengið synjun um dvalarleyfi. Í greinargerð frumvarpsins segir að „þvingaðir flutningar einstaklinga úr landi“ séu flóknir, taki talsverðan tíma í undirbúningi, séu kostnaðarsamir og krefjist mikils mannafla. Brottfararstöðinni er ætlað að einfalda þetta ferli og er í eðli sínu mild og lögbundin leið ólík hugmyndinni um remigration sem er pólitísk stefna um kerfisbundnar fjöldabrottvísanir.

Hvort einhver íslenskra flokka taki að boða endurflutning í stað brottvísana leiðir tíminn í ljós. Hér eins og annars staðar örlar á nýjum róttækum hugmyndum á þessu sviði.