23.8.2025

Óvirðingin í garð menntamála

Morgunblaðið, laugardagur 23. ágúst 2025,


Þeir sem hvetja til um­bóta í skóla­kerf­inu hafa of lengi talað fyr­ir dauf­um eyr­um. Rík­is­stjórn­in sýn­ir al­gjört metnaðar- og and­vara­leysi í mála­flokkn­um. Mennta­málaráðherr­ar hafa ein­fald­lega sagt sig frá verk­efn­um sem krefjast mark­vissr­ar póli­tískr­ar for­ystu. Reykja­vík­ur­borg ber ábyrgð á rekstri flestra grunn­skóla lands­ins og læt­ur reka á reiðanum. Nú rof­ar von­andi til að frum­kvæði Kópa­vogs­bæj­ar.

Í Dag­mál­um Morg­un­blaðsins birt­ist 5. ág­úst viðtal við Arn­ar Ævars­son, einn ör­fárra sér­fræðinga lands­ins í ytra mati á skól­um. Hann fer þung­um orðum um stöðu grunn­skól­anna og eft­ir­lit með starfi þeirra. Hug­mynd­ir sem nú séu á kreiki um leiðir til mats á skóla­starfi eyðileggi í raun all­ar vænt­ing­ar um að matið leiði til um­bóta.

Fyrsta lög­bundna þriggja ára skýrsla mennta­málaráðherra um fram­kvæmd skóla­starfs í grunn­skól­um var lögð fyr­ir alþingi í mars 1999. Öll ábyrgð á grunn­skóla­haldi hafði að fullu flust frá ríki til sveit­ar­fé­laga 1. ág­úst 1996. Þá kom til sög­unn­ar sér­stök mats- og eft­ir­lits­deild inn­an mennta­málaráðuneyt­is­ins. Vann hún svo­nefnd­ar ytri mat­skýrsl­ur um skóla utan Reykja­vík­ur en ytra matið á skól­um höfuðborg­ar­inn­ar var lagt í hend­ur stjórn­enda borg­ar­inn­ar. Það er í mol­um.

Innra mat í skól­un­um sjálf­um og eft­ir­fylgni við það meðal ann­ars með ytra mati er í raun lyk­ill­inn að um­bót­um í skóla­starfi. Af orðum Arn­ars Ævars­son­ar má ráða að bæði innra og ytra mat á skóla­starfi liggi að stærst­um hluta niðri um þess­ar mund­ir. Laga­ákvæði um þenn­an lyk­ilþátt til að tryggja metnaðarfullt skólastarf séu ekki virt.

Í stað þess að lýsa ár­angri í skóla­starfi og vinna að úr­bót­um birt­ir mennta­málaráðuneytið aðgerðaáætlan­ir til að breiða yfir eigið aðgerðarleysi.

Cld051129_029_0

Skólastarf og mennta­mál hafa löng­um þótt jaðar­mál­efni í stjórn­mál­um og á und­an­förn­um árum hef­ur virðing­ar­leysið fyr­ir mála­flokkn­um auk­ist á þeim vett­vangi. Keyr­ir þó um þver­bak í rík­is­stjórn Kristrún­ar Frosta­dótt­ur og und­ir for­ystu Sam­fylk­ing­ar­inn­ar í borg­ar­stjórn. Sorg­legt er að heyra frá­sagn­ir af op­in­beru metnaðar- og um­sýslu­leysi vegna skóla­starfs­ins.

Í ár eru 30 ár liðin frá því að lög­in um flutn­ing grunn­skól­ans til sveit­ar­fé­lag­anna voru samþykkt. Marg­vís­leg­ar ytri um­bæt­ur hafa síðan verið gerðar til að efla innra starf grunn­skól­anna og má þar til dæm­is nefna flutn­ing allr­ar kenn­ara­mennt­un­ar á há­skóla­stig og inn­leiðingu meist­ara­náms á menntavís­inda­sviði.

Með auk­inni fræðilegri áherslu í menntavís­ind­un­um hef­ur kenn­ara­námið hins veg­ar fjar­lægst skól­ana sjálfa og al­menn­ing. Umræður um innra starf skóla eru litl­ar á op­in­ber­um vett­vangi. For­eldr­um er sagt að fræðileg­ar út­tekt­ir og niður­stöður skipti meira máli en op­in­ber miðlun upp­lýs­inga um ár­ang­ur í skóla­starfi. Frá­sagn­ir af lít­illi raun­hæfri fræðslu kenn­ara­nema og skorti á starfs­námi benda til aka­demískr­ar ein­angr­un­ar.

Mennta­málaráðherr­ar hafa ekki sinnt þeirri laga­skyldu að leggja fram skýrsl­ur um fram­kvæmd skóla­starfs á þriggja ára fresti. Vegna skorts á innra mati í skól­um og mæl­an­leg­um upp­lýs­ing­um um ár­ang­ur í skóla­starfi eft­ir af­nám sam­ræmdra prófa eru svo all­ar skýrsl­ur um fram­kvæmd skóla­starfs í skötu­líki.

Bjarki Már Baxter lögmaður lýsti í grein hér í blaðinu 6. ág­úst hve erfitt væri fyr­ir sig sem for­eldri að fylgj­ast með náms­ár­angri barna sinna á grunn­skóla­aldri eft­ir að ein­kunna­gjöf í formi tölustafa var lögð niður og bók­staf­ir tekn­ir upp. Ein­kunna­gjöf með bók­stöf­um væri ógagn­sæ og ruglandi.

Þessi ráðstöf­un er aðeins ein af mörg­um sem ganga í þá átt að mynda skil á milli for­sjár­manna barna og skóla þeirra.

Bjarki Már seg­ir það reynslu sína að nýja ein­kunna­kerfið vefj­ist ekki aðeins fyr­ir for­eldr­um held­ur einnig kenn­ur­um sem eigi erfitt með að skýra kerfið og til­gang þess. Kenn­ari, með yfir 30 ára starfs­ald­ur, hafi skýrt fyr­ir barna­hópi og for­eldr­um þegar ein­kunna­spjöld­in voru af­hent á liðnu vori að hafa skyldi í huga að „B er best“. B jafn­gild­ir ein­kunn á bil­inu 4,5-7,5 sam­kvæmt gamla kerf­inu.

Þessi lýs­ing staðfest­ir að andstaða er við allt sem auðveldað get­ur sam­an­b­urð á ár­angri í skóla­starfi. Þetta slær einnig á kapp­semi nem­enda.

„Megi sá vinna sem er best­ur og eft­ir þetta mót má segja að við séum fremst meðal jafn­ingja,“ sagði Sig­ur­björn Bárðar­son, landsliðsein­vald­ur A-landsliðsins á heims­meist­ara­móti ís­lenska hests­ins, hér í blaðinu á dög­un­um eft­ir að mót­inu lauk í Sviss. Þar sýndu ung­ir knap­ar hvað í þeim býr eft­ir mikla þjálf­un til að ná því besta fram hjá gæðing­un­um.

Ag­inn sem þarna ræður er í hróp­legri and­stöðu við aga­leysið og meðvirkn­ina sem set­ur alltof sterk­an svip á það sem líðst í skóla­starfi.

Stjórn­end­ur sveit­ar­fé­laga sætta sig ekki all­ir við þetta metnaðarleysi. Eft­ir víðtækt sam­ráð við skóla­sam­fé­lagið í Kópa­vogi kynnti Ásdís Kristjáns­dótt­ir bæj­ar­stjóri miðviku­dag­inn 20. ág­úst að staða barna í lesskiln­ingi og stærðfræði frá 4. til 10. bekkj­ar í tíu grunn­skól­um bæj­ar­ins yrði mæld ár­lega í sam­ræmd­um próf­um. Upp­lýs­ing­um um stöðu barn­anna yrði miðlað til for­eldra á skilj­an­leg­an hátt – þrátt fyr­ir lög­boðna bók­stafa­kerfið.

Þegar Ásdís kynnti þetta fram­fara­skref hér í blaðinu sagði hún að staðan sem við blasti í grunn­skóla­kerf­inu væri að öllu leyti á ábyrgð stjórn­valda. Það hefði í raun ríkt al­gjört áhuga­leysi, stefnu­leysi og „bara sinnu­leysi, gagn­vart þess­um mik­il­væga mála­flokki“.

Þetta eru þung orð en rétt­mæt. Viðbrögð Kópa­vogs­bæj­ar sýna að rök­studd efn­is­leg gagn­rýni skil­ar ár­angri í þágu nem­enda.