Óvirðingin í garð menntamála
Morgunblaðið, laugardagur 23. ágúst 2025,
Þeir sem hvetja til umbóta í skólakerfinu hafa of lengi talað fyrir daufum eyrum. Ríkisstjórnin sýnir algjört metnaðar- og andvaraleysi í málaflokknum. Menntamálaráðherrar hafa einfaldlega sagt sig frá verkefnum sem krefjast markvissrar pólitískrar forystu. Reykjavíkurborg ber ábyrgð á rekstri flestra grunnskóla landsins og lætur reka á reiðanum. Nú rofar vonandi til að frumkvæði Kópavogsbæjar.
Í Dagmálum Morgunblaðsins birtist 5. ágúst viðtal við Arnar Ævarsson, einn örfárra sérfræðinga landsins í ytra mati á skólum. Hann fer þungum orðum um stöðu grunnskólanna og eftirlit með starfi þeirra. Hugmyndir sem nú séu á kreiki um leiðir til mats á skólastarfi eyðileggi í raun allar væntingar um að matið leiði til umbóta.
Fyrsta lögbundna þriggja ára skýrsla menntamálaráðherra um framkvæmd skólastarfs í grunnskólum var lögð fyrir alþingi í mars 1999. Öll ábyrgð á grunnskólahaldi hafði að fullu flust frá ríki til sveitarfélaga 1. ágúst 1996. Þá kom til sögunnar sérstök mats- og eftirlitsdeild innan menntamálaráðuneytisins. Vann hún svonefndar ytri matskýrslur um skóla utan Reykjavíkur en ytra matið á skólum höfuðborgarinnar var lagt í hendur stjórnenda borgarinnar. Það er í molum.
Innra mat í skólunum sjálfum og eftirfylgni við það meðal annars með ytra mati er í raun lykillinn að umbótum í skólastarfi. Af orðum Arnars Ævarssonar má ráða að bæði innra og ytra mat á skólastarfi liggi að stærstum hluta niðri um þessar mundir. Lagaákvæði um þennan lykilþátt til að tryggja metnaðarfullt skólastarf séu ekki virt.
Í stað þess að lýsa árangri í skólastarfi og vinna að úrbótum birtir menntamálaráðuneytið aðgerðaáætlanir til að breiða yfir eigið aðgerðarleysi.
Skólastarf og menntamál hafa löngum þótt jaðarmálefni í stjórnmálum og á undanförnum árum hefur virðingarleysið fyrir málaflokknum aukist á þeim vettvangi. Keyrir þó um þverbak í ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur og undir forystu Samfylkingarinnar í borgarstjórn. Sorglegt er að heyra frásagnir af opinberu metnaðar- og umsýsluleysi vegna skólastarfsins.
Í ár eru 30 ár liðin frá því að lögin um flutning grunnskólans til sveitarfélaganna voru samþykkt. Margvíslegar ytri umbætur hafa síðan verið gerðar til að efla innra starf grunnskólanna og má þar til dæmis nefna flutning allrar kennaramenntunar á háskólastig og innleiðingu meistaranáms á menntavísindasviði.
Með aukinni fræðilegri áherslu í menntavísindunum hefur kennaranámið hins vegar fjarlægst skólana sjálfa og almenning. Umræður um innra starf skóla eru litlar á opinberum vettvangi. Foreldrum er sagt að fræðilegar úttektir og niðurstöður skipti meira máli en opinber miðlun upplýsinga um árangur í skólastarfi. Frásagnir af lítilli raunhæfri fræðslu kennaranema og skorti á starfsnámi benda til akademískrar einangrunar.
Menntamálaráðherrar hafa ekki sinnt þeirri lagaskyldu að leggja fram skýrslur um framkvæmd skólastarfs á þriggja ára fresti. Vegna skorts á innra mati í skólum og mælanlegum upplýsingum um árangur í skólastarfi eftir afnám samræmdra prófa eru svo allar skýrslur um framkvæmd skólastarfs í skötulíki.
Bjarki Már Baxter lögmaður lýsti í grein hér í blaðinu 6. ágúst hve erfitt væri fyrir sig sem foreldri að fylgjast með námsárangri barna sinna á grunnskólaaldri eftir að einkunnagjöf í formi tölustafa var lögð niður og bókstafir teknir upp. Einkunnagjöf með bókstöfum væri ógagnsæ og ruglandi.
Þessi ráðstöfun er aðeins ein af mörgum sem ganga í þá átt að mynda skil á milli forsjármanna barna og skóla þeirra.
Bjarki Már segir það reynslu sína að nýja einkunnakerfið vefjist ekki aðeins fyrir foreldrum heldur einnig kennurum sem eigi erfitt með að skýra kerfið og tilgang þess. Kennari, með yfir 30 ára starfsaldur, hafi skýrt fyrir barnahópi og foreldrum þegar einkunnaspjöldin voru afhent á liðnu vori að hafa skyldi í huga að „B er best“. B jafngildir einkunn á bilinu 4,5-7,5 samkvæmt gamla kerfinu.
Þessi lýsing staðfestir að andstaða er við allt sem auðveldað getur samanburð á árangri í skólastarfi. Þetta slær einnig á kappsemi nemenda.
„Megi sá vinna sem er bestur og eftir þetta mót má segja að við séum fremst meðal jafningja,“ sagði Sigurbjörn Bárðarson, landsliðseinvaldur A-landsliðsins á heimsmeistaramóti íslenska hestsins, hér í blaðinu á dögunum eftir að mótinu lauk í Sviss. Þar sýndu ungir knapar hvað í þeim býr eftir mikla þjálfun til að ná því besta fram hjá gæðingunum.
Aginn sem þarna ræður er í hróplegri andstöðu við agaleysið og meðvirknina sem setur alltof sterkan svip á það sem líðst í skólastarfi.
Stjórnendur sveitarfélaga sætta sig ekki allir við þetta metnaðarleysi. Eftir víðtækt samráð við skólasamfélagið í Kópavogi kynnti Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri miðvikudaginn 20. ágúst að staða barna í lesskilningi og stærðfræði frá 4. til 10. bekkjar í tíu grunnskólum bæjarins yrði mæld árlega í samræmdum prófum. Upplýsingum um stöðu barnanna yrði miðlað til foreldra á skiljanlegan hátt – þrátt fyrir lögboðna bókstafakerfið.
Þegar Ásdís kynnti þetta framfaraskref hér í blaðinu sagði hún að staðan sem við blasti í grunnskólakerfinu væri að öllu leyti á ábyrgð stjórnvalda. Það hefði í raun ríkt algjört áhugaleysi, stefnuleysi og „bara sinnuleysi, gagnvart þessum mikilvæga málaflokki“.
Þetta eru þung orð en réttmæt. Viðbrögð Kópavogsbæjar sýna að rökstudd efnisleg gagnrýni skilar árangri í þágu nemenda.