13.12.2025

Öryggisstefnan, ESB-aðild og Trump

Morgunblaðið, 13. desember 2025.

Þjóðaröryggisstefna Trumps er hugmyndafræðilegt leiðarljós fyrir alla sem koma fram fyrir hönd stjórnar hans gagnvart öðrum ríkjum og ber nú flokkspólitískt yfirbragð.

Gagnrýni á tillögu utanríkisráðherra um stefnuna í varnar- og öryggismálum snýst eðlilega um að þar sé ekki tekið neitt mið af áformum ríkisstjórnarinnar um aðild að Evrópusambandinu.

Það liggur í hlutarins eðli að engin ríkisstjórn efnir til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við ESB án þess að hafa aðild á stefnuskrá sinni. Þá var flokkur utanríkisráðherra, Viðreisn, stofnaður árið 2016 til að koma Íslandi inn í ESB. Það er því með ólíkindum að ráðherrann leggi fram tillögu á alþingi um varnar- og öryggismálastefnu án þess að útlistað sé hvernig hún samræmist ESB-stefnu flokks hennar.

Ríkisstjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta kynnti þjóðaröryggisstefnu sína fimmtudaginn 4. desember. Höfuðáhersla er lögð á gæslu bandarískra hagsmuna á vesturhveli jarðar (e. Western Hemisphere), það er á heimaslóð Bandaríkjanna. Þar hefur Trump hervætt baráttuna gegn smyglurum og fíkniefnabarónum sem hann telur ógna heilsu og lífi bandarískra ungmenna auk þess sem hann vill takmarka straum ólöglegra innflytjenda til Bandaríkjanna.

Næstmest áhersla er lögð á hagsmuni Bandaríkjanna í Evrópu. Þar kemur fram ótti um að Evrópuríki megi sín ekki nægilega mikils hernaðarlega eða efnahagslega til að reynast verðugir bandamenn. Þá er þar að finna lýsingar eins og þessar:

„Hlutdeild meginlandsríkja Evrópu í vergri landsframleiðslu á heimsvísu hefur lækkað úr 25% 1990 í 14% núna, að hluta til vegna innlendra og alþjóðlegra reglugerða sem grafa undan sköpunarmætti og framtaki.

Þessi efnahagslegi samdráttur fellur þó í skuggann af raunverulegri og alvarlegri hættu á menningarlegri hnignun. Meðal stærri vandamála sem steðja að Evrópu eru aðgerðir Evrópusambandsins og annarra alþjóðlegra stofnana sem þrengja að pólitísku frelsi og fullveldi, stefna í innflytjendamálum sem umbreytir álfunni og skapar ósætti, takmörkun á tjáningarfrelsi og aðför að pólitískri andstöðu, fækkun fæðinga og minni þjóðerniskennd samhliða minnkandi sjálfstrausti.“

Þarna birtist ekki mikil trú á framtíð ESB. Um forgangsmál í heildarstefnunni gagnvart Evrópu segir meðal annars: „Að ýta undir andstöðu innan Evrópuþjóða gegn núverandi stefnuferli Evrópu.“ Það er í átt að yfirþjóðlegu valdi.

Þjóðaröryggisstefna Trumps er hugmyndafræðilegt leiðarljós fyrir alla sem koma fram fyrir hönd stjórnar hans gagnvart öðrum ríkjum. Að þessu sinni ber hún meira flokkspólitískt yfirbragð en fyrri stefnur hafa gert og fellur meira að einkaskoðunum forsetans en almennt hefur verið. Trump vill örugglega hafa hönd í bagga með framkvæmd hennar.

Hann fylgir stefnunni auk þess fast eftir í viðtölum og vefritið POLITICO telur að Trump verði mesti pólitíski áhrifavaldurinn í Evrópu á árinu 2026.

Ef samþykkt verður að íslensk stjórnvöld stigi skref til ESB-aðildar nú yrði það ekki aðeins stórt skref í fullveldis- og utanríkismálum þjóðarinnar heldur einnig pólitískt viðkvæmt spor í samskiptum Íslands og Bandaríkjanna þar sem öryggis- og varnarmál eru þungamiðja. Stjórnin í Washington lítur á Evrópusambandið sem regluveldi sem bindur hendur einstakra sambandsríkja í tvíhliða viðræðum og samningum við þriðju ríki. Trump hefur ítrekað sagt ESB vinna gegn hagsmunum Bandaríkjanna í viðskiptum og með reglum um stafræna þróun svo dæmi séu nefnd. Umsókn Íslands um ESB-aðild yrði túlkuð sem pólitískt fráhvarf frá nánum, beinum tvíhliða samskiptum við Bandaríkin. Embættismenn í Brussel yrðu að fara höndum um þau.

GIUKGapGIUK-hliðið.

Í augum þeirra sem gæta hernaðarlegra hagsmuna Bandaríkjanna gegnir Ísland lykilhlutverki fyrir varnir Norður-Atlantshafs og þar með vesturhvels jarðar. Landið er mikilvægur hlekkur í varnarkeðju NATO við GIUK-hliðið. Varnarstöðin á Keflavíkurflugvelli er ómissandi hluti eftirlits-, viðvörunar- og varnarkerfis NATO í norðurhöfum.

Í Washington yrði ef til vill ekki litið á ESB-aðildarumsókn Íslands sem öryggisógn, sú áhætta yrði þó tekin. Óhjákvæmilega yrði hún skoðuð með bandaríska öryggishagsmuni í huga. Því er þögn utanríkisráðherra um þennan þátt öryggisstefnunnar óskiljanleg.

Í Bandaríkjunum myndi örugglega verða spurt hvort samskiptin við Ísland yrðu flóknari þegar kæmi að gagnkvæmum samningum um tæknimál, gagnavernd, viðskipti eða innviðafjárfestingar.

Nú þegar liggja fyrir athugasemdir bandarískra stjórnvalda vegna geimnjósna Kínverja frá Kárhóli í Þingeyjarsýslu. Það er kannski aðeins forsmekkur að því sem koma skal. Bandarískum stjórnvöldum finnst ESB sýna Kínverjum óþarfa auðsveipni. Hér vill utanríkisráðuneytið að tekið sé á málefnum Kína með silkihönskum.

Charlie Edwards, yfirmaður greininga hjá Alþjóðahermálastofnunni í London (IISS), rýndi skýrsluna að baki tillögu utanríkisráðherra um varnar- og öryggismálastefnu. Hann segir að í öryggisumhverfi Íslands, sem nú sé fjandsamlegra en það hafi verið frá lokum kalda stríðsins, skipti ekki mestu máli að móta stefnu. Megindrættir varnarstefnu Íslands séu og hafi verið skýrir.

Hitt sé aðalatriði að forgangsraða og hrinda verkefnum í framkvæmd. „Stjórnvöld ættu á næstu tólf mánuðum að setja sér fimm eða færri skýrar megináherslur og fela þjóðaröryggisráði ábyrgð á eftirfylgni,“ segir hann í grein hér í blaðinu 10. desember.

Stjórnir Bandaríkjanna og annarra ríkja við N-Atlantshaf bíða eftir að markvisst skref af þessu tagi sé stigið hér. Með því yrði stuðlað að „strategískum stöðugleika gagnvart Rússlandi“ í anda stefnu Trumps