Örlagafundur í Washington
Morgunblaðið, laugardagur 17. janúar 2026.
Örlagaríkasti fundur danska konungsríkisins frá lokum annarrar heimsstyrjaldarinnar stóð í 75 mínútur miðvikudaginn 14. janúar í Washington. Í húfi var hvort Bandaríkjastjórn ætlaði að hrifsa til sín Grænland, 98% af konungsríkinu.
Deilan um Grænland er ekki um varnir heldur völd. Lausnin felst ekki í innlimun heldur sátt við Grænlendinga og bandamenn um nauðsynlegar öryggistryggingar.
Á meðan utanríkisráðherrar Danmerkur og Grænlands, Lars Løkke Rasmussen og Vivian Motzfeldt, ræddu við J.D. Vance varaforseta Bandaríkjanna og Marco Rubio utanríkisráðherra efndi Troels Lund Poulsen varnarmálaráðherra Danmerkur til blaðamannafundar í Kaupmannahöfn með yfirmanni danska hersins.
Á fundinum kynntu þeir að frá og með 14. janúar myndi danski herinn auka viðveru sína á Grænlandi og Norður-Atlantshafi í nánu samráði við grænlensk stjórnvöld og bandamenn innan NATO. Öryggisumhverfi á norðurslóðum krefðist þess.
Enginn vissi á þeirri stundu niðurstöðu fundarmanna í Washington, Danski varnarmálaráðherrann var spurður hvort danskir hermenn gætu „við algjörlega fræðilegar aðstæður“ lent í vopnuðum átökum við bandaríska hermenn. Ráðherrann sagði sviðsmyndina „mjög langsótta“, óhugsandi væri að eitt NATO-ríki réðist á annað. Yrði danska konungsríkið fyrir árás, bæri hermönnum hins vegar að verja ríkið.
Blaðamannafundurinn í varnarmálaráðuneytinu endurspeglaði mikla spennu. Í danska sjónvarpinu voru í sömu andrá sýnd myndskeið þar sem Emmanuel Macron Frakklandsforseti, Sir Keir Starmer forsætisráðherra Bretlands (leiðtogar tveggja evrópskra kjarnorkuvelda), Ursula von der Leyen forseti framkvæmdastjórnar ESB, Mark Rutte framkvæmdastjóri NATO og Ulf Kristersson forsætisráðherra Svíþjóðar lýstu stuðningi við danska konungdæmið og sjálfsákvörðunarrétt Grænlendinga.
Um það leyti sem fundurinn í Washington hófst birtist frétt á vefsíðu danska blaðsins Berlingske um að Landhelgisgæsla Íslands hefði svarað fyrirspurn blaðsins um ferðir rússneskra og kínverskra skipa við Ísland.
Sagði blaðið að í miðri stórpólitískri krísu sýndu nýjar upplýsingar frá gæslunni aðra mynd af umsvifum rússneska og kínverska flotans við Grænland en þá sem Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefði lýst. Engin hernaðarleg umsvif Rússa eða Kínverja væru á hafinu milli Íslands og Grænlands. „Þar með véfengir íslenska stofnunin staðhæfingu Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, um að við Grænland sé nú „urmull af rússneskum og kínverskum skipum,“ sagði í frétt danska blaðsins.
Lars Løkke Rasmussen hljóp við fót í átt að danska sendiherrabílnum þegar hann kom út af fundinum með Vance og Rubio. Það var ekki af ótta heldur til að geta náð sér í sígarettu. Hann gaf Vivian Motzfeldt úr pakkanum sínum. Þau stóðu og reyktu á bílastæðinu en blaðamenn sendu frá sér boð um að fundurinn hefði gengið vel. Til marks um það var bent á að danski utanríkisráðherrann og sendiherrann, Jesper Møller Sørensen, hefðu slegið saman hnefum við skottið á bílnum, væntanlega til að fagna þeim árangri sem náðst hefði.
Veggur sjónvarpsmyndavéla á blaðamannafundi á hlaði danska sendiráðsins í Washington.
Veggur sjónvarpsmyndavéla var á hlaðinu við danska sendiráðið í Washington þegar ráðherrarnir frá Danmörku og Grænlandi efndu þar til blaðamannafundar. Lökke Rasmussen las upp yfirlýsingu á ensku og Motzfeldt sagði nokkur orð á grænlensku, að sögn til að róa heimafólk sitt á Grænlandi sem beið milli vonar og ótta. Løkke Rasmussen hafði á orði að allt væri þetta tilfinningaþrungið en yfirlýsing hans var skýr.
Það væri grundvallarágreiningur milli ríkisstjórna Danmerkur og Bandaríkjanna. Það yrði aldrei fallist á neitt sem væri í andstöðu við friðhelgi danska konungsríkisins og sjálfsákvörðunarrétt Grænlendinga. Þá sagði hann:
„Við erum sammála um að vera ósammála. Við höfum ákveðið að setja á fót vinnuhóp háttsettra fulltrúa (e. high level working group) til að kanna hvort við getum fundið sameiginlega leið til framtíðar. Hópurinn á – að okkar mati – að einbeita sér að því að bregðast við áhyggjum Bandaríkjamanna vegna öryggismála enda verði rauðar línur konungsríkisins Danmerkur virtar.“
Sameiginlegt með öllum yfirlýsingum Trumps um Grænland er að tryggja verði öryggi Grænlands til að öryggishagsmunum Bandaríkjanna sé ekki ógnað. Danir geti ekki veitt þessa tryggingu. Undir réttmæti þessara orða er tekið með því að fela vinnuhópnum að sefa ótta Trumps.
Evrópuríkin í NATO hafa þegar fallist á að leggja sitt af mörkum til varnar Grænlandi. Markmið Evrópuríkjanna er tvíþætt. Annars vegar að styrkja raunverulegar varnir á norðurslóðum og hins vegar að draga úr þrýstingi Trumps á Dani. Með meiri öryggistryggingu fyrir Grænland innan ramma NATO gæti Trump lýst yfir pólitískum sigri í ræðum yfir bandarískum skattgreiðendum án þess að krefjast innlimunar Grænlands.
Hvað eftir annað er bent á að rússnesk eða kínversk skip séu ekki á stöðugum siglingum við Grænland. Þá er einnig minnt á að eitt sinn hafi um 10.000 bandarískir hermenn verið í allt að 17 herstöðvum á Grænlandi en nú séu þeir aðeins 150 til 200 í einni herstöð. Bandaríkjaher hafi í raun allt svigrúm sem hann vilji á Grænlandi.
Of lengi hefur dregist innan NATO að gera nauðsynlegar varnaráætlanir fyrir varnir norðurslóða og Grænlands. Það er hins vegar næsta óraunverulegt að gerð slíkra áætlana og aðgerða í þeirra þágu krefjist alls þessa uppnáms. Vonandi fannst leiðin á örlagafundinum í Washington 14. janúar 2026.