Ólík sýn forseta og forsætisráðherra
Morgunblaðið, laugardaginn 3. janúar 2026.
Áramótin skerptu skilning á ólíkri sýn æðstu handhafa ríkisvaldsins á stöðu þjóðarinnar og leið hennar inn í nýtt ár.
Forsætisráðherra lagði í áramótaávarpi sínu og greinum áherslu á að ríkisstjórnin mætti ekki „bogna og bakka“, varaði við úrtöluröddum og lýsti stjórnmálunum sem stöðugri prófraun á þor og seiglu í mótvindi.
Forseti Íslands nálgaðist hins vegar tímamótin með allt öðrum hætti og lagði í nýársávarpi sínu áherslu á að breytingar væru óhjákvæmilegur hluti samtímans og að í þeim fælust ný tækifæri til að læra, laga sig að breyttum aðstæðum og vaxa.
Ýmislegt bendir til að innan Samfylkingarinnar og stjórnarsamstarfsins sé ekki allt sem sýnist og að þar ríki ekki sú samstaða sem leiðtogar samstarfsins hafa viljað birta almenningi. Þessa ályktun má draga af sameiginlegum þræði í ávarpi og greinum forsætisráðherra nú um áramótin.
Í ávarpi Kristrúnar Frostadóttur á gamlárskvöld, grein á Vísi 21. desember og í Morgunblaðinu 31. desember er meginstefið endurtekin viðvörun gegn því að „bogna og bakka“, gagnrýni á „úrtöluraddir“ og áhersla á að ríkisstjórnin hafi verið kosin til að taka „erfiðar ákvarðanir“.
Orðalagið, myndlíkingarnar og röksemdafærslan eru nánast samhljóða í öllum textunum, sem bendir til þess að hér sé um markviss og samræmd skilaboð að ræða. Þetta er ekki tilviljun heldur gefur til kynna að höfundurinn telji nauðsynlegt að herða tök sín og skýra stöðu sína í ljósi vaxandi gagnrýni.
Einnig vekur athygli að orðunum er ekki beinlínis beint til almennings heldur inn á við, til stuðningsmanna og stjórnarmeirihlutans sjálfs. Í stað þess að færa fram ný rök eða skýra efnislega þær „erfiðu ákvarðanir“ sem vísað er til er lögð áhersla á seiglu, kjark og ábyrgðarfulla sjálfsmynd þeirra sem standa að baki stjórninni, andspænis þeim sem sagðir eru vilja gefast upp eða hverfa af leið.
Þegar stjórnmálaforingi kýs með þessum hætti að færa umræðuna frá stefnu og árangri yfir í prófraun á staðfestu og þor er það jafnan merki um varnarstöðu og tilraun til að þétta eigin raðir frekar en að ná til óráðins almennings. Í áramótaávarpi sínu sagði forsætisráðherra meðal annars:
„Nokkuð hefur borið á úrtöluröddum sem nýta tækifærið við hverja þraut og hvetja ríkisstjórnina til að hverfa af leið. Mjög hefur verið þrýst á stjórnarmeirihlutann að falla frá öllum þeim aðgerðum og erfiðu ákvörðunum sem eru til þess fallnar að laga afkomu ríkisins.
En hver sagði að þetta ætti að vera auðvelt? Við vorum kosin til að leysa mál og taka erfiðar ákvarðanir. Auðvitað mætir það mótspyrnu. En ekki hvað? Það er bara eðlilegt. […] Við leysum ekki málin með því að bogna og bakka. Þannig náum við ekki árangri. Þetta vitum við – og þetta vissu fyrri kynslóðir, sem lögðu grunn að fullveldi Íslands og framförum í þágu þjóðar á síðustu öld.“
Hér skal því haldið fram að sigling þjóðarskútunnar á líðandi stundu kalli ekki á svo dramatíska lýsingu af hálfu þess sem heldur um stjórnvölinn. Annað og líklega einhver djúpstæðari vandi býr að baki orðunum. Söguleg upphafning af þessu tagi og tilvísun til fullveldisins er sjaldnast notuð nema rök úr samtímanum séu ekki talin duga ein og sér og metin sé þörf á að hefja stefnu yfir gagnrýni líðandi stundar. Upphafningin er ekki til marks um sjálfsöryggi; í henni felst þörf fyrir pólitíska og sögulega réttlætingu. Þessi málflutningur er jafnframt í ætt við þá svartsýni sem lengi hefur einkennt orðræðu Vinstri-grænna og Pírata og virðist beinlínis höfða til þess baklands.
Myndin er tekin 11,46 laugardaginn 3. janúar 2026.
Það kvað við annan tón í áramótaræðu Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands. Hún vék á jákvæðan og yfirvegaðan hátt að líðandi stundu og nýjum tækifærum. „Mannkynið hefur ávallt staðið frammi fyrir breytingum og jafnan fundið leiðir til að aðlagast, læra og vaxa,“ sagði hún hiklaust í upphafi máls síns.
Þessi sýn birtist best í áherslunni sem hún lagði á gervigreindina, sem sumir kysu að kalla spunagreind. Hún væri orðin órjúfanlegur hluti umræðunnar um framtíð mannkyns og í henni fælust áður óþekkt tækifæri, meðal annars yfirsýn yfir gríðarlegt magn gagna sem gæti stytt leið okkar að lausnum. Hún væri á hinn bóginn vélræn, ekki skapandi með sama hætti og mannshugurinn, og hana skorti siðferðisvitund. Því bæri að nýta hana af varfærni og með gagnrýnni hugsun, ekki í blindri trú.
„Ef vel er á málum haldið getur þessi ‚viðbótar-greind‘ orðið öflugt verkfæri sem styður við ábyrga nýsköpun og framþróun. Með skynsemi má nýta hana til að byggja betri framtíð fyrir okkur öll,“ sagði forseti Íslands og dró með þessum orðum skýrar en aðrir æðstu menn þjóðarinnar athygli að byltingarkenndum breytingum sem blasa við öllu mannkyni.
Í þessum málflutningi forseta og forsætisráðherra er ekki um blæbrigðamun að ræða heldur tvö ólík grundvallarviðhorf. Forsætisráðherrann dregur upp mynd af stjórnmálum sem varnarbaráttu gegn þrýstingi og mótvindi, þar sem lykilverkefnið sé að bogna ekki heldur halda stöðu sinni. Forseti Íslands horfir hins vegar á samtímann sem vettvang breytinga og tækifæra sem kalla fremur á yfirsýn, sjálfstraust og ábyrgð en á varnarviðbrögð.
Þarna kristallast tvær ólíkar leiðir: annars vegar að skilgreina verkefni samtímans sem íþyngjandi prófraun, hins vegar sem tækifæri sem beri að nýta. Framtíð þjóðarinnar ræðst af því hvort ný tækifæri eru nýtt af yfirvegun og sjálfstrausti – en ekki af innhverfri bölsýni og varnarviðbrögðum.