28.7.2017

Ný blá kínversk viðskiptaleið nær til Íslands

Morgunblaðið föstudag 28. júlí 2017

Kínverska ríkisskipafélagið COSCO keypti fyrr í mánuðinum annað stórt skipafélag í Asíu og varð þar með þriðja stærsta skipafélag heims en danska félagið Maersk skipar fyrsta sætið. Aukin umsvif COSCO eru skoðuð í samhengi við stefnu kínversku ríkisstjórnarinnar sem kennd er við „belti og braut“ og Xi Jiping forseti Kína kynnti árið 2013.

Zhang Weidong, sendiherra Kína á Íslandi, skýrði nafn stefnunnar á þann veg í Morgunblaðinu 1. júní að ætlunin væri að tengja „efnahagsbelti silkileiðarinnar“ og „silkileið hafsins á 21. öldinni“ (stytt í „belti og braut“). Með þessu vildu Kínverjar „efla friðsamlega samvinnu um allan heim“. Taldi sendiherrann að innan þessa ramma væri „mikið svigrúm til að efla samvinnu Kína og Íslands“. 

Kínversk stjórnvöld kynntu 20. júní áform sín um að tengja siglingar á norðurslóðum stefnunni um belti og braut. Þau sjá fyrir sér „bláa viðskiptaleið … til Evrópu um Norður-Íshaf“.

Þessi bláa viðskiptaleið yrði í íshafinu fyrir norðan Rússland, Norðurleiðin svonefnda. Í skýrslu um siglingaleiðir innan stefnunnar um belti og braut er auk þess talað um bláu viðskiptaleiðina Kína-Indlandshaf-Afríka-Miðjarðarhaf og bláu viðskiptaleiðina Kína-Eyjaálfa-Suður-Kyrrahaf.

Í kínversku skýrslunni er einkum fjallað um hvað áunnist hefur við að skapa aðstöðu á leiðinni frá Kína til Miðjarðarhafs. Kínverjar hafi komið að gerð hafna og iðngarða í löndum eins og Burma (Myanmar), Malasíu, Pakistan og Grikklandi.

Kínverjar um norðurskautið


Í skýrslunni um hafið og belti og braut er sagt um norðurslóðir:

„Þátttaka í norðurskautsmálum. Kínverjar eru fúsir til að starfa með öllum aðilum að vísindalegum rannsóknum á siglingaleiðum, að því að reisa landstöðvar til rannsókna- og mælinga, að því að rannsaka loftslags- og umhverfisbreytingar á norðurskautinu og jafnframt að því að koma á fót spáþjónustu í þágu siglinga. Kínverjar styðja framtak þjóða við norðurskaut sem miðar að því að skapa betri aðstöðu í þágu skipaferða og hvetja kínversk fyrirtæki til að eiga aðild að kaupskipasiglingum á Norður-Íshafi. Kínverjar eru fúsir til að taka þátt í rannsókn á hugsanlegum auðlindum á norðurskautssvæðinu í samvinnu við viðkomandi ríki og efla samvinnu um hreina orku við norðurskautsþjóðir. Kínversk fyrirtæki eru hvött til þátttöku í sjálfbærum rannsóknum á auðlindum norðurskautsins sem framkvæmdar eru á ábyrgan hátt. Kínverjar verða virkir þátttakendur í viðburðum sem skipulagðir eru af stofnunum með tengsl við norðurskautið.“

Í grein sem Mia Bennett, landfræðingur við Kaliforníuháskóla í Los Angeles, skrifaði um þessi mál og birtist á vefsíðu hennar Cryopolitics 27. júní 2017 segir hún að athyglisvert sé að í skýrslu Kínverja um siglingar í anda stefnunnar um belti og braut sé ekki getið um það sem Kínverjar hafi þegar gert í tengslum við Norðurleiðina. 

Árum saman hafi kínversk stjórnvöld, tengd fyrirtæki og stofnanir þó fylgst með þróuninni. COSCO hafi árið 2013 verið fyrst allra skipafélaga til að senda gámaskip eftir Norðurleiðinni. Í fyrra hafi fimm COSCO-skip farið leiðina. Kínverskir bankar hafi árið 2015 lánað 12 milljarða dollara til að breyta jarðgasi í Jamal á þann veg að flytja megi það sem skipum (LNG-væða gasið). Kínverski Silkileiðarsjóðurinn sem kínverska ríkisstjórnin kom á fót til að fjármagna verkefnið belti og braut á 9,9% hlut í Jamal-verkefninu.

Jamal-verkefnið í Hörpu


Á upphafsdegi Arctic Circle í Hörpu í fyrra kynnti Dmitríj Kolbíjkin, landstjóri í sjálfstjórnarhéraðinu Jamal, efnahagsmál þessa rússneska heimskautahéraðs við Karahaf. Tölurnar sem hann nefndi um gas- og olíuframleiðslu í héraðinu gera það að gullkistu Rússlands. 

Rússneskir og kínverskir bankar fjármagna verkefni sem kallað er Jamal LNG og snýst um vinnslu á jarðgasi, kælingu á því í fljótandi form og flutningi í tankskipum til Asíu. Telur landstjórinn að vinna megi 16,5 milljón tonn af LNG-gasi á ári úr lindum sem talið er að geymi 926 milljarða rúmmetra af gasi. Vegna vinnslunnar verður gerð ný höfn fyrir risaskip og lagður nýr flugvöllur.

Eftir að gripið var til efnahagsþvingana gegn Rússum á Vesturlöndum á árinu 2014 hafa þeir sótt meira fjármagn til Kína en áður. Vladimir Pútin Rússlandsforseti styður framtakið belti og braut og segir Xi Jingping forseta hafa sýnt skapandi framsýni með því að hvetja til samhæfs átaks í orkumálum, mannvirkjagerð, samgöngum, framleiðslu og í þágu mannúðarmála.

Tortryggni Rússa


Mia Bennett segir þó að ekki líti allir Rússar áform Kínverja sömu augum og Pútin geri. Hún vitnar í forstöðumann björgunarmiðstöðvar Rússa í borginni Petropavlovsk-Kamstjatskíj á Kamstjaka-skaga sem segir að Kínverjar dragi í efa rétt Rússa til að stjórna umferð um Norðurleiðina. 

Forstöðumaðurinn, Anatolíj Korvovin, segir í grein í blaðinu Rússneskar sjávarfréttir, að mesta ógn við öryggishagsmuni Rússa sé tilraun nokkurra ríkja (einkum Danmerkur, Bandaríkjanna, Japans og Kína) að fá Norðurleiðina viðurkennda sem alþjóðlega flutningaleið með siglingafrelsi. Hann telur einnig að Kínverjar kunni að hafa áhuga á aðild að sameiginlegu verkefni um stjórn á Norðurleiðinni og leggja í því skyni fram fé til nauðsynlegra innviða í þágu siglinga. Mia Bennett segir að ekkert sé minnst á slíkt í nýju kínversku skýrslunni.

Áhugi á Íslandi


Að kínverski sendiherrann skrifi grein um belti og braut-áætlunina í Morgunblaðið sýnir að ráðamenn í Kína líta á Ísland sem hluta af bláu viðskiptaleiðinni á norðurslóðum. 

Nú í ágúst eru fimm ár frá því kínverski ísbrjóturinn Snædrekinn kom Norðurleiðina til Reykjavíkur og hélt héðan yfir Norður-Íshaf í leit að siglingaleiðum fyrir norðan stjórnsvæði Rússa. 

Tveir Íslendingar tóku þátt í leiðangri Snædrekans, Egill Þór Nielsen, gistifræðimaður hjá Heimskautastofnun Kína, og Ingibjörg Jónsdóttir, dósent við Háskóla Íslands. 

Kínverjar hafa undanfarin ár staðið að því að reisa norðursljósarannsóknarstöð á Kárhóli í Reykjadal í Þingeyjarsveit. Upphaflega var ætlunin að rannsóknir hæfust þar haustið 2016. Þær vonir hafa ekki ræst, fjárskortur tefur fyrir verkefninu meðal annars vegna hækkunar á gengi krónunnar.

Áður en ráðist var í þetta verkefni lét kínverski auðmaðurinn Huang Nupo verulega að sér kveða gagnvart Íslendingum og síðar Norðmönnum með áformum um landakaup sem runnu öll út í sandinn. Var hann undanfari á vegum Kínastjórnar? 

Íslensk stjórnvöld verða nú að móta skýra stefnu gagnvart bláu viðskiptaleiðinni sem er hluti af kínversku belti og braut-stefnunni.