28.4.2003

Á flótta frá málefnum

DV-grein, 28. 04. 03.

Í kosningabaráttunni hefur skattamál borið hæst. Stjórnarflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, höfðu forystu um að gera lækkun skatta á einstaklinga að höfuðmáli kosninganna. Forystumönnum stjórnarflokkanna var ljóst, að þeir gætu með góðum rökum lagt til lækkun skatta, þar sem ríkisstjórnin hefur með stefnu sinni í atvinnumálum og árangri í efnahagsmálum lagt traustan grunn að enn frekari hagvexti á næstu árum.

Stjórnarandstaðan var einfaldlega tekin í bólinu í skattamálum. Hún greip til þess ráðs að klastra saman einhverri skattastefnu. Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslyndra flokksins, hefur síðan viðurkennt, að hann hefði stórlega misreiknað sig við að skýra stefnu flokks síns. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, talsmaður Samfylkingarinnar, hefur kastað fleiri boltum á loft í skattamálunum en hún getur gripið. Er hún að eltast við þá um víðan völl og hefur síðast kallað ríkisskattsjóra sér til hjálpar og spurt hann, hvað hún eigi að gera, ef hún ætlaði lækka skatta jafnmikið og Sjálfstæðisflokkurinn ? sem Samfylkingin ætli þó EKKI að gera!

Lélegur undirbúningur

Stjórnarandstaðan hefur einflaldega tapað umræðunum um skattamálin í kosningabaráttunni. Hún hefur ekki aðeins gert það vegna þess hve illa hún hafði unnið að mótun stefnu sinnar. Umræðurnar hafa tapast vegna þess að málsvararnir, Guðjón Arnar og Ingibjörg Sólrún, höfðu ekki vald á málinu, þegar þau hittu talsmenn annarra flokka. Davíð Oddsson sagði Ingibjörgu Sólrúnu frá því í sjónvarpsþætti forystumanna flokkanna á Stöð 2, hvað felst í skattastefnu Samfylkingarinnar. Halldór Ásgrímsson sagði Guðjóni Arnari frá því í Kastljósi, hvað felst í skattastefnu frjálslyndra. Vinstri/grænum er svo þvert um geð að tala um skattalækkanir, að tillögur þeirra í því efni ná ekki máli.

Náð í gamla þráðinn

Samfylkingin hefur í verki viðurkennt ósigur sinn í umræðunum um skattamálin, annars vegar með því að snúa þeim í deilu við fjármálaráðherra um upplýsingar og útreikninga ríkisskattstjóra og hins vegar með því að Ingibjörg Sólrún og spunameistarar hennar eru teknir að nýju til við neikvæða umtalið um Davíð Oddsson og aðra sjálfstæðismenn.

Síðari ræða Ingibjargar Sólrúnar í Borgarnesi, þar sem hún enn á ný lýsti sjálfri sér sem hinni óhræddu hetju andspænis ofurvaldinu; tilraun Þorvaldar Gylfasonar prófessors í Fréttablaðinu til að vekja á ný umræðu um ferð Hreins Loftssonar til viðræðna við Davíð Oddsson í London og grein Marðar Árnasonar, frambjóðanda Samfylkingarinnar, í Morgunblaðinu um að enn ríki hér einvaldstímar; allt er þetta markviss viðleitni til að ná aftur í gamla ómálefnalega þráðinn.

Málefnaleg uppgjöf af þessu tagi rúmum tveimur vikum fyrir kosningar er mjög sérstök, ef ekki einsdæmi.

Hvað segja fræðingarnir?

Gunnar Helgi Kristinsson prófessor taldi okkur stadda á tímum Jónasar frá Hriflu, án þess að skýra nánar, hver væri í hlutverki Jónasar með ómálefnalegum árásum á andstæðinga sína. Spurning er, hvort hann taldi sig mundu ganga of nærri Samfylkingunni með því að segja nafnið.

Svanur Kristjánsson prófessor í stjórnmálafræði komst meðal annars að þessari niðurstöðu á forsíðu Fréttablaðsins: ?Það er skýrari munur milli stjórnar og stjórnarandstöðu en oft áður. Ég man ekki eftir skýrari mun síðan 1971, þegar stjórnarandstaðan vildi færa úr landhelgina og stjórnarflokkarnir ekki.?

Viðreisnarstjórnin vildi færa út landhelgina 1971 en ekki fara sömu leið og stjórnarandstaðan. Stjórnin valdi flókna leið og reyndist erfitt að skýra hana. Hún vildi, að kosningabaráttan snerist um annað. Hinn sögulegi samanburður prófessors Svans ætti við, ef hann vísaði til þess, að nú hefðu stjórnarflokkarnir sett fram skýra og afdráttarlausa stefnu í skattamálum en stjórnarandstaðan lent í ógöngum með stefnu sína. Þess vegna eru Samfylkingin og talsmenn hennar á harða hlaupum frá málefnunum.