13.3.2003

Að fara að eigin leikreglum.

Morgunblaðsgrein, 13. mars, 2003.

 


 


 


Í umræðum um ræðu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í Borgarnesi 10. febrúar síðastliðinn segir hún og málsvarar hennar, að gagnrýnendur hafi ekki áttað sig á meginboðskapnum. Hann hefði ekki verið að ýta undir gróusögur eða dylgja um ámælisverða stjórnarhætti Davíðs Oddssonar heldur árétta mikilvægi leikreglna. Ekkert sé mikilvægara fyrir íslenska þjóðfélagið um þessar mundir en skýrar leikreglur og að stjórnmálamenn fari eftir þeim.


 


Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi, sem fullyrti á miðopnu Morgunblaðsins í september, að Ingibjörg Sólrún yrði áfram borgarstjóri og færi ekki í þingframboð, kvaddi sér líka hljóðs um leikreglurnar á sama stað í Morgunblaðinu síðastliðinn laugardag og sagði:


„Heiðarlegir stjórnmálamenn vilja heldur ekki liggja undir dylgjum og ámæli um ómálefnalegar afgreiðslur eða fyrirgreiðslu. …Það er þetta sem knýr á um að setja stjórnmálastarfi landsins almennar leikreglur, gagnsæjar og skýrar. “


 


Gildi leikreglna um starf stjórnmálamanna er mikið, enda hef ég staðið að því undanfarin ár að samþykkja fjölmörg lagafrumvörp um þær. Hefur Davíð Oddsson verið flutningsmaður hinna merkustu þeirra sem forsætisráðherra, það er stjórnsýslulaganna og upplýsingalaganna. Undir hans forystu var rekið smiðshöggið á þessa merku lagabálka, sem höfðu verið ár og jafnvel áratugi að velkjast milli ráðherra.


 


Við mótun R-listans á sínum tíma, var valdakerfi hans sniðið í kringum Ingibjörgu Sólrúnu og ráðskast um það í bakherberbergjum þriggja eða fjögurra stjórnmálaflokka, áður en hið pólitíska meistarastykki var kynnt. Setti hún skilyrði eftir eigin hagsmunum. Hefðu leikreglurnar ekki verið samdar að kröfum hennar, hefði Ingibjörg Sólrún ekki farið í framboð.


 


Fyrir ári valdi Ingibjörg Sólrún síðan Dag B. Eggertsson á grundvelli eigin leikreglna og án samráðs við aðra til að skipa 7. sætið fyrir framan sig á R-listanum.


 


Ingibjörg Sólrún lét ekki spá Dags um, að hún sæti sem borgarstjóri, rætast. Hún hafði leikreglur R-listans að engu og bauð sig fram til þings. Þá var samherjum hennar í R-listanum loks nóg boðið eins og frægt varð.


 


Ingibjörg Sólrún varð talsmaður og forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar eftir baktjaldamakk og án þess að haft væri fyrir því að taka um það ákvarðanir á vettvangi framkvæmdastjórnar fylkingarinnar eða í þingflokknum. Össur Skarphéðinsson lét sig hafa það að kynna svilkonu sína sem hæstráðanda til sjós og lands í Samfylkingunni  í síðdegiskaffi á Hótel Borg sunnudag einn í janúar.


 


Eftir að Ingibjörg Sólrún fékk því framgengt, að hún yrði kynnt sem forsætisráðherraefni, var ljóst, að hún vildi ekki heldur viðurkenna leikreglur stjórnarskrárinnar. Þær gera ekki ráð fyrir því, að neinn sé í kjöri sem forsætisráherraefni, hvorki í alþingiskosningum né endranær.


 


Undrar nokkurn, að leikreglur fyrir stjórnmálamenn séu Ingibjörgu Sólrúnu efst í huga, þegar hún flytur jómfrúræðu sína sem talsmaður Samfylkingarinnar og forsætisráðherraefni?