7.2.2003

Slitin plata

Morgunblaðsgrein 7. febrúar, 2003

 

 

Steinar Berg Ísleifsson ritar grein í Morgunblaðið  6. febrúar undir fyrirsögninni: Fáum við nýja plötu á fóninn? Snýst hún um nauðsyn þess að stofna opinberan sjóð til að styðja við bakið á þeirri starfsemi, sem Steinar Berg hefur sinnt um árabil, það er þróun og útgáfu dægurtónlistar. Í grein sinni setur Steinar Berg gamla og slitna plötu á fóninn, þegar hann endurtekur rangfærslur Jakobs Frímanns Magnússonar og Helga Péturssonar um afskipti mín sem menntamálaráðherra af þessu baráttumáli þeirra félaga.

Steinar Berg segir í grein sinni: „Fulltrúar menntamálaráðuneytis tóku þátt í störfum nefnda um þessi mál hérlendis. Ein helsta niðurstaðan var að stofnaður yrði sérstakur sjóður sem hefði það að markmiði að efla innviði íslensks tónlistariðnaðar til útflutnings. Engu að síður ákvað fyrrum menntamálaráðherra, Björn Bjarnason, að stöðva framgang frumvarps um Þróunarsjóð tónlistar sem iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið var tilbúið að leggja fram á vorþingi árið 1999.“

Rétt er, að ég skipaði fulltrúa í nefndir um þetta mál. Hitt er rangt, að ég hafi ákveðið að stöðva framgang frumvarps iðnaðar- og viðskiptaráðherra um málið. Með því er mér gefið meira vald en ég hafði sem menntamálaráðherra. Að sjálfsögðu var frumvarpið alfarið á valdi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, þar til forsætisráðuneytið úrskurðaði, að svo væri ekki samkvæmt verkaskiptingu á milli ráðuneyta á grundvelli reglugerðar um það efni.

Þráhyggjan við að eigna mér vandræði viðskipta- og iðnaðarráðherra vegna þessa máls er greinilega af pólitískum rótum runnin. Frá mönnum, sem halda að upphefð í stjórnmálum snúist um að segja ósatt um andstæðinga sína. Greinar þeirra sýna, að undanfarin ár hafa þeir verið á röngu róli vegna þessa baráttumáls síns. Þeir hafa enn rangt fyrir sér, þegar þeir hefja sögu- og lagaskýringar. Hvernig væri, að þeir settu nýja plötu á fóninn? Hún er orðin of slitin þessi.

Höfundur er alþingismaður og borgarfulltrúi.