12.12.2002

Fokið í öll skjól

Morgunblaðið, 12. desember, 2002

NÝMÆLI er að finna í fjárhagsáætlun borgarstjórnar Reykjavíkur, þegar gert er ráð fyrir því að verja 11,3 milljónum króna til sérfræðiaðstoðar við þá stjórnmálaflokka, sem eiga sæti í borgarstjórn. Þegar þessi fjárhæð var kynnt í borgarráði svaraði borgarstjóri spurningu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins á þann veg, að með þessu væri verið að feta í fótspor Alþingis.

Í Morgunblaðinu 11. desember kynnir Árni Þór Sigurðsson, forseti borgarstjórnar, tillöguna á þann veg, að ætla mætti, að hún sé gerð að frumkvæði okkar sjálfstæðismanna! Vísar hann þar til bréfs, sem ég ritaði hinn 2. október 2002 til Gunnars Eydals, skrifstofustjóra borgarstjórnar. Birti ég bréfið hér að neðan en sleppi úr því fjárhæðum:

"Borgarstjórnarflokkur sjálfstæðismanna hefur áhuga á að sækja námskeið hjá Stjórnendaskóla Háskólans í Reykjavík. Um er að ræða námskeið í greiningu ársreiknings Reykjavíkurborgar þar sem farið verður yfir fjárhag borgarinnar, túlkun á lykiltölum og hvernig nýta megi upplýsingarnar til að bæta árangur. Námsefnið tengist því starfi borgarfulltrúa og varaborgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins með beinum hætti. Lestur ársreikninga sveitarfélaga og greiningar á lykiltölum eru vandmeðfarið viðfangsefni og ætti námskeiðið að leiðbeina kjörnum fulltrúum til þess að þeir geti sinnt lýðræðislegum skyldum sínum betur. Meðfylgjandi er námslýsing og tilboð frá Háskólanum í Reykjavík...

Tilgangurinn með þessu erindi er að kanna hvort fyrir því séu fordæmi að Reykjavíkurborg taki þátt í kostnaði vegna fræðslu borgarfulltrúa og ef svo er hvernig að því er staðið."

Ég fékk það svar frá Gunnari Eydal, að R-listinn hefði fengið styrki til einhverra fundaferða, en engar reglur giltu um slíka styrki. Féll þá málið niður af minni hálfu og aldrei kom til þess, að borgarstjórnarflokkur sjálfstæðismanna óskaði eftir fjármunum úr borgarsjóði.

Að þessi fyrirspurn mín hafi getið af sér tillögu um 11,3 milljóna króna útgjöld úr borgarsjóði kom mér í opna skjöldu, þegar ég las ummæli forseta borgarstjórnar. Skýring forseta borgarstjórnar hlýtur einnig að vekja undrun þeirra fjölmörgu, sem sækja um fé úr borgarsjóði, án þess að fá nokkra áheyrn. Á borgarráðsfundi hinn 10. desember voru til dæmis lagðar fram áskoranir frá um 350 eldri borgurum í Reykjavík um að ekki verði dregið úr þjónustu við þá til að spara 12 til 18 milljónir króna árið 2003. Hvernig væri, að forseti borgarstjórnar kynnti sér þau bréf og brygðist við þeim?