14.12.2002

Landsvirkjunaruppnám í Ráðhúsinu

Vettvangur í Morgunblaðinu, 14. desember, 2002.

 

Vegna áforma um virkjun við Kárahnjúka er jafnvel meira uppnám í Ráðhúsinu í Reykjavík en endranær, þar sem R-listinn getur ekki mótað sér einhuga stefnu í málinu. Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi F-listans og óháðra, sem klauf sig út úr Sjálfstæðisflokknum á liðnum vetri og bauð sig fram á eigin lista til að koma í veg fyrir Kárahnjúkavirkjun ýtir undir óróann innan R-listans vegna virkjunarinnar með vísan til 45% eignarhluta Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun.

Var þetta greinilegt í borgarráði þriðjudaginn 9. desember, þegar Ólafur F. Magnússon bókaði, að upplýst hefði verið, að  nú í lok vikunnar væri fyrirhugað að skrifa undir samninga milli Landsvirkjunar og Alcoa um Kárahnjúkavirkjun en borgin hefði gert kröfu um að arðsemismat lægi fyrir áður en hún samþykkti þátttöku í framkvæmdunum. ?Þar sem slíkt mat liggur ekki fyrir geri ég þá kröfu til borgarstjóra að hún lýsi því yfir opinberlega að skilyrði Reykjavíkurborgar vegna þátttöku í Kárahnjúkavirkjun hafi ekki verið uppfyllt," sagði Ólafur F. og Árni Þór Sigurðsson (vinstri/grænn) og Stefán Jón Hafstein (Samfylkingunni), tveir af fjórum fulltrúum R-lista í borgarráði, bókuðu, að þeir væru efnislega sammála Ólafi.

Morgunblaðið hafði það eftir Árna Þór Sigurðssyni, að Reykjavíkurborg mundi ekki ljá máls á þátttöku í Kárahnjúkavirkjun, nema ítarlegt arðsemismat á framkvæmdinni lægi fyrir.  Jafnframt sagði Árni Þór við blaðið, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri hefði upplýst, að hún hefði ekki undir höndum nein gögn varðandi undirskriftina við Alcoa en hefði upplýsingar frá forstjóra Landsvirkjunar um að það fælust engar skuldbindingar í undirskriftinni. Í útvarpsfréttum gaf Árni Þór til kynna, að Reykjavíkurborg kynni að hlaupa undan eigandaábyrgð sinni í Landsvirkjun.

***

Árni Þór Sigurðsson hefur aðra áherslu í þessu máli en flokksbræður hans á alþingi. Þar leggja vinstri/grænir höfuðáherslu á aðförina að íslenskri náttúru og vilja verjast henni. Í bogarstjórn er það hins vegar fjárhagslega ábyrgðin og arðsemismatið, sem á að ráða ferðinni og afstöðu manna, hvort sem um Árna Þór, Stefán Jón eða Ólaf F. er að ræða.

Stefán Jón Hafstein er formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar auk þess að vera borgarfulltrúi. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri er einnig í forystusveit Samfylkingarinnar og kyndir undir umræðum um væntanlegt forystuhlutverk sitt fyrir Samfylkinguna á alþingi.

Eftir nokkrar hremmingar og innri átök datt þingflokkur Samfylkingarinnar niður á þá skoðun, að ekki ættii að leggjast gegn Kárahnjúkavirkjun á alþingi. Á sömu stundu þriðjudaginn 9. desember og Stefán Jón lýsti samstöðu með Ólafi F. gegn virkjuninni í borgarráði, sagði Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, í ræðustól á alþingi: ?Ég kem hingað, herra forseti, sem stjórnmálamaður sem styður Kárahnjúkavirkjun eindregið. Ég og minn flokkur erum þeirrar skoðunar að það eigi að ráðast í þá virkjun og það eigi að byggja álver við Reyðarfjörð.? Bókun Stefáns Jóns í borgarráði lýsir klofningi um málið í forystusveit Samfylkingarinnar. Hver skyldi afstaða Ingibjargar Sólrúnar vera?

Framsóknarmenn eru þriðja hjólið undir vagni R-listans. Innan hans hafa þeir verið settir nokkuð út í horn síðustu daga og vikur, eins og kom til dæmis í ljós, þegar borgarstjóri skipaði sparnaðarnefnd vegna þess hve fjárhagsáætlun R-listans fyrir Reykjavíkurborg fyrir árið 2003 stendur á veikum grunni. Í þeirri nefnd eru Ingibjörg Sólrún og Stefán Jón auk Árna Þórs en Alfreð Þorsteinsson, leiðtogi framsóknarmanna, var skilinn eftir úti í kuldanum ? maðurinn , sem á síðasta orðið í R-listanum um fjármuni Orkuveitu Reykjavíkur, gullkistuvörðurinn sjálfur.

***

Innan R-listans togast á ólík sjónarmið varðandi Kárahnjúkavirkjun. Þegar svo er undir stjórn leiðtoga, sem forðast að taka óskoraða ábyrgð, er auðveldast að setja málið í nefnd. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir beitti sér einmitt fyrir því, að það yrði gert, meira að segja í tvær nýlegar nefndir.

Hinn 6. september 2002 átti borgarstjóri fund með stjórnarformanni og forstjóra Landsvirkjunar og ræddi við þá um ábyrgðarskyldur Reykjavíkurborgar. Varð þessi fundur, að sögn Ingibjargar Sólrúnar, kveikjan að því, að eigendur Landsvirkjunar skipuðu starfshóp til að kynna sér fjárhagslegan undirbúning Kárahnjúkavirkjunar. Í hópnum sitja Friðrik Már Baldursson, hagfræðingur fyrir hönd iðnaðarráðuneytisins, Sigurður Snævarr, hagfræðingur fyrir hönd Reykjavíkurborgar og Arnar Árnason, löggiltur endurskoðandi fyrir hönd Akureyrarbæjar.

Af hálfu Ingibjargar Sólrúnar er því haldið fram, að þessi kynning á fjárhagslegum undirbúningi Kárahnjúkavirkjunar feli í sér mat á arðsemi hennar. Telur hún, að fjárhagsleg áhætta Reykjavíkurborgar sé tvíþætt, annars vegar ef arðsemi virkjunarinnar er minni en ætlað er og hins vegar ef Landsvirkjun lendir í fjárhagslegum erfiðleikum og ábyrgðir falla af þeim sökum á eigendur.

***

Fyrir utan að setja fjárhagslega þáttinn vegna Kárahnjúkavirkjunar í nefnd, hefur Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ýtt öðrum þáttum orkumálanna út af borði borgarstjórnar og falið þá nefnd. Batt hún svo rækilega fyrir öll áhrif kjörinna fulltrúa á undirbúing heildarstefnu Reykjavíkurborgar í orkumálum, að hún bannaði borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna að tilnefna tvo úr sínum hópi, stjórnmálamenn, í nefndina.  Þegar banninu var ekki sinnt afturkallaði borgarstjóri ósk sína um tilnefningu og valdi menn í nefndina að eigin höfði. Starfar hún því sem einkanefnd borgarstjóra og án umboðs frá öðrum.

Einræðistilburðir af þessu tagi eru ekki einsdæmi, því að á sínum tíma var svipaðri aðferð beitt við val á stjórnarmönnum í Línu.neti.  Þá vildi R-listinn ekki, að sjálfstæðismenn gætu fylgst með því, sem gerðist innan þessa fyrirtækis eða hefðu áhrif á þróun þess. Spurningar vöknuðu um, hvort andstaða Ingibjargar Sólrúnar við stjórnmálamenn í orkustefnunefnd, stafaði af ótta hennar við, að Alfreð Þorsteinsson heimtaði sæti í nefndinni. Nefndin er að öðrum þræði sett til höfuðs honum, af því að hann krafðist þess að sitja áfram sem stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur og Ingibjörg Sólrún hafið ekki þrek til að standa gegn því.

Borgarstjóranefndin um heildarstefnu Reykjavíkurborgar í orkumálum á meðal annars að leggja mat á líklega þróun og breytingar í orkumálum hér á landi á næstu árum og meta stöðu Reykjavíkurborgar innan Landsvirkjunar og móta framtíðarsýn varðandi eignarhlut borgarinnar í fyrirtækinu. Á nefndin að skila áliti í júní 2003.

***

Þessi nefnd hafði ekki fyrr verið skipuð með þessari sérkennilegu aðferð en ábyrgðarmaður hennar innan borgarkerfisins, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, flutti framsöguræðu um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2003 og sagði meðal annars:

 

"Hins vegar eru framkvæmdirnar [á vegum Landsvirkjunar] iðulega mjög umdeildar og það er erfið staða fyrir borgaryfirvöld að bera sem eigandi fyrirtækisins ábyrgð á virkjanaframkvæmdum í öðrum landshlutum, framkvæmdum sem jafnvel er sterk pólitísk andstaða við í borgarstjórn Reykjavíkur.  Ég held að það sé tímabært fyrir ríki og borg að ræða það af fullri alvöru að ríkið kaupi hlut sveitarfélaganna í fyrirtækinu.  Virðist mér að betri tími geti varla gefist til slíkra samninga en nú, þegar ríkið hefur selt hlut sinn í ríkisbönkunum og hefur handbæra fjármuni."

 

Í þessum orðum Ingibjargar Sólrúnar er ekki fjallað um arðsemi virkjana heldur hina raunverulegu undirrót Landsvirkjunaruppnámsins í Ráðhúsinu, pólitískan vandræðagang innan R-listans. Flýja á frá þessum vanda með því að selja Landsvirkjun, fórna góðri eign Reykvíkinga í öflugasta fyrirtæki þjóðarinnar, sem treystir lánshæfi sífellt skuldugri Reykjavíkur, til að skapa ró innan R-listans. Landsvirkjun hefur ásamt Seðlabanka Íslands og ríkissjóði hæsta lánshæfismat í landinu og var það hækkað, eftir að alþjóðlega matsfyrirtækið Moody's kynnti sér öll gögn varðandi Kárahnjúkavirkjun.

 

Af orðum borgarstjóra má einnig draga þá ályktun, að hún geti ekki unnt ríkissjóði að hafa handbært fé, söluandvirði ríkisbankanna, seilast þurfi í þann sjóð og hrifsa til sín skerf af honum. Minnir þetta á það, þegar Ingibjörg Sólrún hækkaði skatta á Reykvíkinga, af því að ríkið lækkaði þá.

 

Þriggja flokka R-listi í Reykjavík hefur ekki innra þrek til að taka stórákvarðanir fyrir hönd Reykvíkinga vegna eignar þeirra í Landsvirkjun. Uppnámið í Ráðhúsinu á eftir að magnast, þar til yfir líkur við töku ákvarðana vegna Kárahnjúkavirkjunar.