21.11.2002

Fíkniefnavandi í grunnskólum. 

Borgarstjórnarfundur, 21. nóvember, 2002.

Á fundi borgarráðs 12. nóvember síðastliðinn vöktum við sjálfstæðismenn máls á því, að daginn áður hefði komið fram í fræðsluráði, að Fræðslumiðstöð Reykjavíkur hefði rætt við fulltrúa lögreglu og barnaverndar um alvarleg fíkniefnavandamál og fíkniefnasölu í grunnskólum Reykjavíkur.

 

Eftir að fréttir af bókun okkar um málið bárust til fjölmiðla, hafa orðið miklar umræður um þetta alvarlega mál. Er ljóst, að það eitt, að vakið hefur verið máls á því, vekur verulegar og réttmætar áhyggjur allra, sem er annt um hag grunnskólabarna og að sjálfsögðu ekki síst foreldra og forráðamanna barnanna.

 

Ég er viss um, að áhyggjur fólks hafa ekki minnkað við þau orð, sem sjálfur formaður fræðsluráðs, Stefán Jón Hafstein, lét falla í sjónvarpinu að kvöldi 14. nóvember síðastliðinn, þegar hann sagði:

 

„Fólk verður bara einfaldlega að átta sig á því að það er enginn skóli óhultur fyrir þessum ófögnuði. ”

 

Við getum ekki sætt okkur við þetta ástand. Óhjákvæmilegt er að snúast strax gegn þessari óheillaþróun með skjótum, markvissum aðgerðum. Sýna verður með skýru frumkvæði borgarstjórnar Reykjavíkur, að gegn vágestinum skuli snúist.

 

Tillaga okkar felst í því, að borgarstjórn samþykki að skipa samráðshóp, sem skili tillögum um aðgerðir gegn neyslu og sölu fíkniefna í grunnskólum og um aðgerðir innan skóla, ef forvarnir duga ekki.

 

Verkefnið er skýrt og við viljum, að það verði áréttað með erindisbréfi í nafni borgarstjórnar og hún fái niðurstöður hópsins fyrir lok þessa árs.

 

Fræðsluráði verði falið að stýra starfinu.

 

 

 

Forseti!

 

Ég þarf í raun ekki að hafa fleiri orð um tillöguna. Hún skýrir sig sjálf. Án sameinaðs átaks undir forystu borgarstjórnar næst ekki sá skjóti árangur, sem að er stefnt með tillögunni.

 

Ég skora á borgarstjórn að sameinast um þessa tillögu og sýna þannig í verki, að hugur fylgir máli, þegar snúist er til varnar fyrir börnin okkar.