5.10.2002

Heiður Sameinuðu þjóðanna í húfi - vettvangur í Morgunblaðinu.

Heiður Sameinuðu þjóðanna í húfi

EFTIR að Sviss og Austur-Tímor urðu aðilar að Sameinuðu þjóðunum á allsherjarþinginu, sem nú situr, er 191 ríki í samtökunum. Aðeins einu ríki, Taívan, er enn haldið utan Sameinuðu þjóðanna (SÞ) vegna mótmæla stjórnvalda í Peking. Ríki SÞ og stofnunin sjálf standa nú frammi fyrir mikilli áskorun, þegar öflugasta aðildarríkið, Bandaríkin, sækir fast, að snúist sé af markvissri hörku og jafnvel með vopnavaldi gegn Saddam Hussein, einræðisherra í Írak.
Þegar brugðist var við innrás Íraka í Kúveit undir forystu Bandaríkjanna árið 1991, höfðu Sameinuðu þjóðirnar frumkvæði. Öryggisráð SÞ veitti umboð til hernaðaraðgerða og síðan samþykkti Bandaríkjaþing heimild fyrir forsetann, George Bush eldri, til að beita bandarískum herafla. Nú er ákvörðunarferlið öfugt. Fyrst samþykkir Bandaríkjaþing heimild fyrir forsetann, George W. Bush yngri, til að beita hervaldi gegn Saddam Hussein. Í krafti þeirrar samþykktar er krafist umboðs frá öryggisráðinu í nafni Sameinuðu þjóðanna.

George W. Bush forseti saumaði fast að Saddam Hussein í tæplega 30 mínútna sjónvarpsræðu á mánudagskvöld. Tilgangur forsetans var að árétta einarða skoðun sína, áður en þingmenn greiddu atkvæði um heimildina til að beita Bandaríkjaher. Ræðan var mikilvægt framlag til umræðna innan Bandaríkjanna og á Bandaríkjaþingi. Hver þingmaðurinn eftir annan hefur tekið til máls í þinginu og fylgir mikil alvara orðum manna. Colin Powell utanríkisráðherra heimsótti þingið daginn eftir ræðu forsetans. Að loknum fundum þar ávarpaði hann blaðamenn með Joe Lieberman, varaforsetaefni demókrata gegn Bush í kosningunum 2000, sér á hægri hönd. Lieberman er eindreginn talsmaður þess, að þingið veiti forsetanum umboð til að "vernda þjóðaröryggi Bandaríkjanna gegn stöðugri ógn frá Írak" og til að "fylgja eftir öllum ályktunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um Írak." Edward Kennedy, öldungadeildarþingmaður demókrata, er í minnihluta þingmanna á móti stefnu forsetans, hann segir að hún ýti undir einangrunarhyggju og að Bandaríkjaher skuli ekki beitt til forvarna. Forsetinn vitnaði í ræðu Johns F. Kennedys, forseta og bróður Edwards, frá því í Kúbudeilunni fyrir 40 árum. Þá sagði Kennedy forseti, að hvorki Bandaríkjamenn né þjóðasamfélagið gætu liðið vísvitandi blekkingar eða hótanir um valdbeitingu frá nokkru ríki, stóru eða smáu. Við lifðum ekki lengur í heimi, þar sem aðeins skotárás á ríki fæli í sér nægilega ógn við öryggi þjóðar til að skapa hina mestu hættu.
Síðan 1991 hafa Sameinuðu þjóðirnar haldið úti eftirliti til að koma í veg fyrir, að Saddam Hussein eignist sýkla-, eiturefna- og kjarnorkuvopn - gjöreyðingarvopn á íslensku, "weapons of mass destruction" á ensku. Eftirlit SÞ hefur reynst gagnlaust vegna blekkingariðju Íraksstjórnar og hindrana í götu eftirlitsmannanna. Hótelherbergi þeirra og skrifstofur voru hleraðar til að fylgjast með ferðum þeirra. Átta svonefndar forsetahallir með stórum görðum og neðanjarðarmannvirkjum voru lokaðar fyrir eftirlitsmönnunum.
Efnahagsþvinganir á Írak hafa reynst haldlitlar vegna þess, að írösk stjórnvöld hafa notað milljarða tekjur af ólögmætri olíusölu til að kaupa vopn. Takmörkuðu hervaldi hefur verið beitt án árangurs til að eyðileggja gereyðingarvopn Íraka. Samþykkt var alþjóðabann við flugumferð yfir hluta Íraks til að hindra Saddam í ógnaraðgerðum gegn íbúum eigin lands. Á síðasta ári skaut íraski herinn oftar en 750 sinnum á breskar og bandarískar flugvélar, sem voru að framfylgja þessu banni.

George W. Bush sagði í ræðu sinni: "Eftir að hafa reynt að halda honum í skefjum í 11 ár, beitt þvingunum, eftirliti, jafnvel takmörkuðu hervaldi, er niðurstaðan sú, að Saddam Hussein á enn efnavopn og lífræn vopn, og hann er að búa sig undir að eignast meira af þeim. Og hann færist sífellt nær því að geta framleitt kjarnorkuvopn."

Með þessum rökum og vísan til stuðnings Saddams við hryðjuverkamenn vilja ríkisstjórn og þing Bandaríkjanna, að öryggisráð SÞ samþykki nýtt og strangara umboð fyrir eftirlitsmenn sína og einnig heimild til að beita hervaldi gegn Saddan Hussein, til að fylgja ákvörðunum SÞ eftir. "Bandaríkin vilja, að Sameinuðu þjóðirnar séu virk stofnun, sem stuðli að friði," sagði Bush á mánudagskvöld, þess vegna þyrfti að skerpa umboð eftirlitsmanna þeirra.

Írakar ættu að segja frá öllum gjöreyðingarvopnum sínum og eyðileggja þau undir stjórn SÞ. Í því skyni að tryggja sannsögli ætti Íraksstjórn að leyfa vitnum að ólögmætum aðgerðum hennar að svara spurningum utan Íraks. Vitnin ættu að hafa heimild til að taka fjölskyldur sínar með sér úr landi, svo að þær væru lausar undan grimmd og drápshug Saddams. Eftirlitsmenn ættu að fá aðgang að öllum stöðum, alltaf, fyrirvaralaust, tafarlaust og undantekningarlaust.

"Tími höfnunar, blekkinga og tafa er liðinn. Saddam Hussein verður að afvopnast, geri hann það ekki sjálfviljugur munum við verða í forystu fyrir þeim, sem sameinast um að gera það í þágu friðar," sagði Bush.


Á vettvangi öryggisráðsins ræðst, hvort Bandaríkin og bandamenn þeirra einir eða þjóðasamfélagið allt beitir Saddam meiri hörku. Samþykkt Bandaríkjaþings þýðir hvorki tafarlausa né óhjákvæmilega beitingu hervalds. Hún er á hinn bóginn þung áskorun á Sameinuðu þjóðirnar. Þar skiptir mestu, að samstaða myndist milli ríkjanna fimm, sem fara með neitunarvald í öryggisráðinu: Bandaríkjanna, Bretlands, Frakklands, Kína og Rússlands. Stjórnir Bandaríkjanna og Bretlands eru einhuga. Rússar eru að færast á þeirra band. Tony Blair, forsætisráðherra Breta, fór í vikunni til fundar við Vladimir Pútín Rússlandsforseta til að reka smiðshöggið. Í öryggisráðinu haga Kínverjar gjarnan seglum eftir vindi. Frakkar þola ekki einangun í ráðinu til lengdar og munu leitast við að komast úr henni með breytingum á orðalagi eða formsatriðum. Þeir vilja, að ályktun öryggisráðsins verði tvískipt. Fyrst verði umboð eftirlitsmannanna hert með strangari kröfum í garð Íraka. Síðar verði ályktað um eftirfylgni með valdbeitingu, verði Íraksstjórn ekki við kröfunum. Fyrir virðingu SÞ og til aðhalds við Saddam er höfuðnauðsyn, að ekki verði um undanskotsleiðir fyrir hann að ræða. Tvíþætt ályktun öryggisráðsins, sem veitti honum slíka leið, yrði aldrei samþykkt.
Það yrði mikið áfall fyrir Sameinuðu þjóðirnar, ef þær hikuðu nú gagnvart blekkingum og lygum Saddams Husseins. Hann hefur haft samþykktir og kröfur öryggisráðsins að engu. Öflugasta aðildarríki SÞ vill beita sér í nafni samtakanna til að knýja einræðisherrann til hlýðni við ákvarðanir alþjóðasamfélagsins. Ef ekki skapast forsendur til þess, mun mörgum enn þykja, að fordómar þeirra í garð SÞ hafi ræst - þar berji menn sér á brjóst en hopi, þegar á hólminn er komið.
Saddam Hussein er best lýst sem sönnum lærisveini Stalíns. Hann beitir ógnarvaldi sínu jafnt innan landamæra Íraks sem utan. Hann hikar ekki við að drepa nána samstarfsmenn eða fólk úr eigin fjölskyldu til að þjóna valdafíkn sinni. Engri þjóð er brýnna að losna við einræðisherrann en Írökum sjálfum. Þegar sagt er, að áhugi og áhyggjur Bandaríkjamanna byggist á þörf fyrir lægra olíuverð, er athygli aðeins beint að einum aukavinningi við brotthvarf Saddams. Þeir eru margir fleiri fyrir mannkyn allt.

Raunar er það prófsteinn á fleiri en Sameinuðu þjóðirnar, að takist að sameina þjóðir heims til að brjóta Saddam Hussein á bak aftur. Það reynir á trúverðugleika allra málsvara mannréttinda og mannúðar, hvort þeir leggi þessum málstað lið. Friðkaup við einræðisherrann skila engu. Að læra ekki af sögunni, getur verið dýrkeypt.