Minningarorð um Eið Guðnason
Morgunblaðið 9. febrúar 2017
Eiður Svanberg Guðnason gekk til liðs við okkur sem stóðum að sameiningu Samtaka um vestræna samvinnu og Varðbergs undir lok árs 2010 og stofnuðum Varðberg, samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál. Hann sat í stjórn Varðbergs í fjögur ár og sýndi mikinn og einlægan áhuga á að öryggis lands og þjóðar yrði jafnan gætt í samvinnu við vinveittar nágrannaþjóðir og á þann hátt sem nauðsynlegt væri í samræmi við þróun öryggismála.
Það var ómetanlegt að njóta liðsinnis Eiðs vegna mikillar reynslu hans og þekkingar eftir farsæl störf hans sem fréttamanns, alþingismanns, ráðherra og sendiherra. Hann var hreinskiptinn í öllu samstarfi og aldrei ríkti neinn vafi um afstöðu hans.
Varðberg var ekki eini vettvangurinn þar sem við Eiður áttum samleið síðari ár. Hann var virkur félagi í Aflinum, félagi qi gong iðkenda, og hittumst við þar oft snemma morguns við Gunnarsæfingar, kerfi kínversku lífsorkuæfinganna sem kennt er við Gunnar heitinn Eyjólfsson leikara. Söknum við félagar Eiðs þar vinar í stað.
Loks minnist ég samskipta okkar í netheimum. Þau voru mikil og góð. Þótt við værum ekki alltaf sammála skiptumst við jafnan á skoðunum af gagnkvæmri vinsemd og virðingu. Haldi einhverjir að ekki sé unnt að gera athugasemdir við orð manna á Facebook af kurteisi, málefnalega eða með gamansemi er það misskilningur. Vona ég að orðaskipti okkar Eiðs á þeim vettvangi sýni það.
Eiður skrifaði alls 2103 pistla á vefsíðu sína undir heitinu Molar um málfar og miðla þar sem hann vakti máls á því sem hann taldi mega betur fara í málnotkun fjölmiðlamanna. Sýndi þetta elju hans og þolgæði í þágu íslenskrar tungu og góðs valds blaða- og fréttamanna á henni. Hann vék einnig að misheppnuðum efnistökum og gaf góð ráð til höfunda. Átaldi hann oft skort á yfirlestri og minntist þá hve nostrað var við texta á hans tíð sem blaða- og fréttamanns. Eiður fékk verðlaun úr Móðurmálssjóði Björns Jónssonar ritstjóra 1974 en þau voru veitt blaðamönnum fyrir gott vald á íslenskri tungu.
Ég votta ástvinum Eiðs Svanbergs Guðnasonar innilega samúð.
Blessuð sé minning Eiðs Svanbergs.