30.12.2016

Grænlendingar ögra Dönum – biðla til Trumps

Morgunblaðið 30. desember 2016

Grænlenskir og færeyskir ráðamenn gagnrýna dönsku ríkisstjórnina fyrir að nýta sér stjórnarskrá danska konungdæmisins sem rök gegn því að minnka afskipti sín af málum sem eigi að falla undir stjórnvöld í Nuuk og Þórshöfn. Hér er í sjálfu sér ekki um nýtt ágreiningsmál að ræða en segja má að það hafi magnast um miðjan desember þegar Vittus Qujaukitsoq, utanríkisráðherra Grænlands, gerðist óvenjulega harðorður í garð dönsku ríkisstjórnarinnar í Kaupmannahafnarblaðinu Politiken. Hann sagði hroka Dana í garð Grænlendinga svo mikinn að þeir ættu aðeins einn kost, að segja sig úr lögum við danska konungsríkið.

Þessi harðorðu ummæli Vittus Qujaukitsoq sættu gagnrýni Kims Kielsens, forsætisráðherra grænlensku landsstjórnarinnar, naalakkersuisut. Utanríkisráðherrann svaraði fyrir sig í grænlenska þinginu, Inatsisartut, og sagði stefnu sína falla að ákvæðum stjórnarsáttmálans frá 2014 um að stefnt skuli að sjálfstæði Grænlands.

Gagnrýni sína reisti utanríkisráðherrann meðal annars á hvernig Danir héldu á málum gagnvart Bandaríkjamönnum vegna hernaðarlegrar aðstöðu á Grænlandi. Grænlendingar hefðu verið sviptir heimild til að innheimta leigutekjur vegna herstöðva Bandaríkjanna og sviptir réttinum til bóta vegna mengunar og óþæginda. Í krafti herstöðvanna og samningsins við Bandaríkjamenn hefði danska stjórnin fengið of mikil áhrif innan NATO og afslátt á framlagi sínu til bandalagsins. Síðari fullyrðingin um afslátt Dana innan NATO vegna Grænlands stenst ekki við nánari skoðun að sögn grænlensku landstjórnarinnar.

Grønnedal-stöðin

Um 75 ár eru síðan fyrsti varnarsamningurinn um Grænland var gerður milli fulltrúa dönsku ríkisstjórnarinnar og Bandaríkjastjórnar: þá höfðu Þjóðverjar hernumið Danmörku. Í síðari heimsstyrjöldinni lögðu Bandaríkjamenn flugvelli á Grænlandi sem enn nýtast eins og í Syðri-Straumfirði, Kangerlussuaq, og í Narsarsuaq, skammt frá Brattahlíð þar sem Eirírkur rauði og hans fólk bjó á sínum tíma.

Bandaríkjamenn reistu árið 1941 herstöð í Grønnedal, Kangilinnguit, í Arsukfirði á Grænlandi til að verja kryolít-námuna í Ivittuut. Kryolit var notað við framleiðslu á áli. Vinnsla efnisins hófst 1854 í Ivittuut og var unnið úr námunni til ársins 1962 en síðasti farmurinn var fluttur þaðan árið 1987. Má sjá mikið jarðrask vegna vinnslunnar á staðnum og í fjallshlíðum inn fjörðinn eru fallbyssustæði sem Bandaríkjamenn reistu til að geta lokað siglingaleiðinni inn hann fyrir þýskum skipum.

Herstjórn Dana á Grænlandi var í Grønnedal þar til í september 2014 þegar hún var flutt til Nuuk. Auglýsti danska varnarmálaráðuneytið mannvirki í herstöðinni til sölu. Fyrir nokkrum vikum var hins vegar tilkynnt að hætt hefði verið við söluna. Þess í stað náðist samkomulag allra flokka sem standa að samstarfi um varnarmál á danska þinginu um 120 milljón d.kr. (um 2 milljarðar ísl.kr.) aukafjárveitingu til að opna stöðina í Grønnedal að nýju og nota hana sem birgða- og þjálfunarstöð.

Lokað á Kínverja

Ákvörðunin um að enduropna herstöðina kom á óvart bæði í Danmörku og á Grænlandi. Líklegt er talið að Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Dana, hafi beitt sér sérstaklega í málinu að fenginni ábendingu frá eftirgrennslanaþjónustu danska hersins, (Forsvarets Efterrettningstjeneste, FE) um að hugsanlega kynni kínverskt fyrirtæki, General Nice Group frá Hong Kong, eignast hana. Fyrirtækið var meðal þeirra sem gerðu tilboð í stöðina.

Danski blaðamaðurinn Martin Breum segir nýlega í The Arctic Journal að í lok árs 2014 hafi Gerneral Nice Group fengið rétt til vinnslu á járngrýti í Isua fyrir norðan Nuuk. London Mining, breskt fyrirtæki, hafði áætlað að hefja þar mestu námuvinnslu í sögu Grænlands. Ætlað var að um tvö þúsund námumverkamenn, meðal annars frá Kína, ættu að vinna þar járngrýti fyrir kínverskt stáliðjuver. London Mining varð hins vegar gjaldþrota og heimildin til járnvinnslunnar var framseld til General Nice Group. Fyrirtækið hefur sagt að það hafi ekki nein áform um að ráðast í námuvinnslu á Isua í bili vegna lágs verðs á járni um þessar mundir.

Í grein sinni segir Breum að ráðamenn í Danmörku og leyniþjónusta danska hersins, FE, hafi áhyggjur af því að kínversk fyrirtæki fái svo mikil ítök á Grænlandi að þau geti hlutast til um ákvarðanir landstjórnarinnar sem hafi ekki burði til að standast fjárhagslegan þrýsting þeirra. Í Nuuk hafna menn öllum slíkum vangaveltum sem marklausum.

Biðlað til Bandaríkjamanna

Arctic Circle, Hringborð norðursins, sem ýtt var úr vör að frumkvæði Ólafs Ragnars Grímssonar, kemur ekki aðeins árlega saman í Reykjavík heldur er efnt til ráðstefna víða um heim undir merkjum hringborðsins. 

Dagana 11. til 13. desember var haldið svonefnt Arctic Circle Quebec Forum, það er Quebec-fundur Hringborðs norðursins. Grænlenski utanríkisráðherrann Vittus Qujaukitsoq flutti þar ræðu og sagði að landstjórn Grænlands fagnaði sigri Donalds Trumps í bandarísku forsetakosningunum vegna stefnu hans í olíu- og gasmálum. Þá væri valið á Rex Tillerson, forstjóra Exxon, í embætti utanríkisráðherra Bandaríkjanna Grænlendingum einnig fagnaðarefni. Grænlendingar gætu ekki stofnað til sjálfstæðis frá Dönum nema þeir hefðu tekjur af olíu- og gasvinnslu.

Danskir stjórnmálamenn segja Qujaukitsoq úti að aka þegar hann láti eins og Trump stundi olíuleit og vinnslu, það geri olíufélögin og þau hafi eitt af öðru hætt leit og vinnslu við Grænland. Til dæmis sé ógjörningur að vinna olíu við norðausturströnd Grænlands nema kannski tvo mánuði á ári. Þá verði engin olíuvinnsla á norðurslóðum við Grænland sé ekki einu sinni arðbært að stunda slíka vinnslu í Norðursjó. Grænlendingar muni því ekki fjármagna sjálfstæði sitt með aðstoð Trumps. 

Í samtali við Nunatsiaq News í Quebec sagði grænlenski utanríkisráðherrann að samtök Inúita í löndunum við norðurpól, The Inuit Circumpolar Council, hefðu „gamaldags“ viðhorf til olíu- og gasvinnslu og þau hefðu ekki gagnast grænlenskum hagsmunum. Þessi ummæli féllu áður en Barack Obama Bandaríkjaforseti bannaði á dögunum alla olíuvinnslu við Atlantshafsströnd Bandaríkjanna og á norðurslóðum.

Sjálfstæðiskrafan lifir

Á lokavikum ársins sem er kveðja hefur enn sannast að sjálfstæðiskrafa Grænlendinga lifir góðu lífi. Þeir telja sig ekki þurfa að fylgja henni fram í öðru skjóli en fjárhagslegu. 

Í fyrrnefndu viðtali við Nunatsiaq News komst gænlenski utanríkisráðherrann svo að orði að Hringborð norðursins, Arctic Circle, gagnaðist Grænlendingum betur en Norðurskautsráðið. Rödd grænlensku landstjórnarinnar heyrist milliliðalaust við hringborðið en ekki í Norðurskautsráðinu, þar tala Danir fyrir danska konungsríkið. 

Hringborð norðursins er vettvangur fyrir sjálfstæða grænlenska utanríkisstefnu. Þar eiga Færeyingar einnig eigin rödd og enn ein sjálfstæðisrödd við Norður-Atlantshaf bættist við í október 2016 í Hörpu þegar Nicola Sturgeon, forsætisráðherra Skotlands, flutti ræðu sína við hringborðið.

Hér er um hræringar að ræða sem hafa áhrif á viðhorf risanna á alþjóðavettvangi: Bandaríkjanna, Kína, Rússlands og Evrópusambandsins. Sjálfstæði Breta utan ESB flækir enn myndina. Í hræringunum felst áskorun fyrir íslensk stjórnvöld vegna ríkra hagsmuna þjóðarinnar, ekki síst í öryggismálum.