30.9.2016

ESB-aðildarslóð svika og blekkinga

Morgunblaðsgrein föstudag 30. september 2016


Þegar lesin er nýja bókin Villikettirnir og vegferð VG eftir Jón Torfason og lýsing hans á aðild VG að ríkisstjórn með Samfylkingunni snemma árs og um vorið 2009 vaknar spurning um pólitískt siðferði þeirra sem telja þjóðinni fyrir bestu að halda áfram á ESB-brautinni sem þá var lögð með „flóknu baktjaldasamkomulagi“ að sögn Árna Páls Árnasonar „í stað þess að fá skýrt umboð frá þjóðinni til að fara í aðildarviðræður“. 

Jón Torfason afhjúpar dæmalaus svik forystumanna VG undir stjórn Steingríms J. Sigfússonar. Þeir sviku meðal annars skilyrðislausa stefnu VG um „tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu“. Tillaga Sjálfstæðisflokksins um hana var felld á alþingi áður en VG veitti aðildarumsókninni brautargengi. Jóhönnu Sigurðardóttur tókst þá að halda hópi villikattanna saman með hótunum um skjótan dauða langþráðu vinstri stjórnarinnar. 

Það eru haldlaus svikabrigsl að veitast að Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki fyrir að vinna ekki að framhaldi ESB-aðildarviðræðna að loknum kosningum vorið 2013. Flokkarnir gengu þá til kosninga með þá meginstefnu að hætta ESB-viðræðunum. ESB-flokkarnir töpuðu illilega í kosningunum. Að gera kröfu um að sigurvegarar með umboð gegn ESB-aðild spyrji þjóðina hvort hún vilji halda áfram misheppnuðum aðildarviðræðum ber vott um skert veruleikaskyn.

Rekja má upphaf nýja flokksins Viðreisnar til þráhyggju vegna þess að með kosningunum 2013 urðu þáttaskil í ESB-málinu. Aðildarbröltinu var hafnað. 

Raunir Junckers

Skammt er síðan Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, talaði um tilvistarkreppu Evrópusambandsins í stefnuræðu á ESB-þinginu. 

Hann hefði aldrei fyrr heyrt jafnmarga ríkjaleiðtoga ræða aðeins um heima-viðfangsefni sín og nefna Evrópu einungis í framhjáhlaupi, létu þeir hennar yfirleitt getið. 

Aldrei fyrr hefði hann séð fulltrúa stofnana ESB berjast fyrir allt öðrum málum en ríkisstjórnir aðildarríkjanna, væri  ESB-tillögunum ekki beinlínis beint gegn vilja ríkisstjórna og þjóðþinga aðildarlandanna. Ætla mætti að ekki væru nein skoðanaskipti milli ráðamanna hjá ESB annars vegar og í höfuðborgunum hins vegar.

Aldrei fyrr hefði hann séð ríkisstjórnir einstakra landa standa svo höllum fæti andspænis lýðskrumurum og lamaðar af ótta við að taka áhættu vegna næstu kosninga.

Aldrei fyrr hefði hann kynnst jafnmiklu sundurlyndi og svo lítilli samheldni innan sambandsins.

Kostirnir væru skýrir: Ætti að gefast upp vegna vonbrigðanna, ætti að leggast í sameiginlegt þunglyndi, ætti að horfa á sambandið leysast upp fyrir framan nefið á sér? Eða ætti að snúa vörn í sókn, taka sig saman í andlitinu, bretta upp ermar og leggja harðar að sér? „Er ekki runninn upp sá tími þegar Evrópa þarfnast ákveðnari forystu en nokkru sinni í stað þess að stjórnmálamenn stökkvi frá borði?“ spurði Juncker.

Evrópudraugur í Bratislava

Tveimur dögum eftir að Juncker rakti þessar raunir sínar hittust leiðtogar 27 ESB-ríkja (allra nema Bretlands) á fundi í Bratislava. Þar átti að berja í brestina eftir ákvörðun Breta um að segja sig úr ESB.

Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu, sem býr sig nú undir þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnskipunarmál, lýsti Bratislava-fundinum á þann veg að þar hefði hæst borið „skemmtilega bátsferð á Dóná“. Hann hefði þó frekar vænst svara við vandanum vegna brottfarar Breta en bátsferðar. Honum leist ekkert á lokayfirlýsingu fundarins og fékk ekki að vera þriðji maðurinn á blaðamannafundi með Angelu Merkel Þýskalandskanslara og François Hollande Frakklandsforseta.

Renzi boðaði ekki sjálfur nein fastmótuð stefnumál fyrir Evrópu í samtali við Corriere della Sera eftir Bratislava-fundinn en sagði: „Ef við ætlum að verja síðdegi til að skrifa skjöl án minnstu andagiftar eða sýnar geta þau gert það ein. Ég veit ekki hvað Merkel á við þegar hún talar um „andann frá Bratislava“. Fari fram sem horfir ætti frekar að tala um Evrópudrauginn en andann frá Bratislava.“

Tapi Renzi þjóðaratkvæðagreiðslunni ætlar hann að segja af sér. Hann telur þó gagnrýni á hendur ESB bestu leiðina til að ávinna sér vinsældir meða Ítala. Renzi sannar þannig réttmæti kvartana Junckers um að stjórnmálamenn hugsi meira um eigin hag, lönd og þjóðir en ESB.

Sama viðhorf og hjá Renzi er meðal franskra stjórnmálamanna sem búa sig af sífellt meiri þunga undir forsetakosningarnar vorið 2017. 

Nicolas Sarkozy, fyrrv. Frakklandsforseti, sem keppir nú að því að verða forsetaframbjóðandi að nýju, lýsti í útvarpsviðtali í vikunni fyrsta embættisverki sínu næði hann kjöri og sagði: „Ég færi til Berlínar til að endurstofna ESB í einu og öllu: Ég vil nýjan sáttmála.“

Alið á blekkingunni

Uppnámið er algjört innan ESB. Það hefur snarvernsað síðan vinstri stjórn Jóhönnu og Steingríms J. kvaddi ESB-aðildarferlið í janúar 2013. Þá hafði aðeins 11 af 33 samningsköflum verið lokað frá 2009. Ferlinu lauk með ágreiningi um kaflana um sjávarútveg og landbúnað þegar rann upp fyrir íslensku stjórnarherrunum að ESB krafðist aðlögunar í ferlinu og í bókum Brusselmanna væri ekkert til sem heitir könnunarviðræður. Að kynna sem kosningaloforð í september 2016 að borið skuli undir þjóðina í atkvæðagreiðslu hvort halda eigi þessu misheppnaða ferli áfram staðfestir enn blekkingariðju og óraunsæi aðildarsinna

Sé rýnt í orð Brusselmanna eftir að Bretar samþykktu ESB-úrsögnina í þjóðaratkvæðagreiðslu sést betur en áður haldleysi kenningarinnar um að samið verði við Íslendinga um sérréttindi. 

Vegna fyrirhugðu viðræðnanna milli ESB og Breta beinist athygli einkum að sérkröfum um takmörkun á frjálsri för frá ESB-ríkjum til Bretlands. Svisslendingar samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir nokkrum misserum að setja hömlur á komu útlendinga til lands síns. Nú hefur svissneska þingið samþykkt tillögu um að hafa vilja þjóðarinnar að engu til að viðhalda samningum við ESB. Martin Schulz, forseti ESB-þingins, sagði í London fyrir skömmu að hann gæti ekki ímyndað sér þá skipan í Evrópu að flutningabílar og fé vogunarsjóða færu hindrunarlaust um álfuna en ekki fólk.


Í raun er forkastanlegt að láta eins og ekkert sé sjálfsagðara en Íslendingar fái áheyrn í Brussel til að taka upp viðræðuþráð sem ríkisstjórn Íslands sleit. Nú skuli áfram kannað hvort Íslendingar fái sérkjör. Það er þetta sem ESB-aðildarsinnar gera að kosningamáli fyrir þingkosningarnar 29. október 2016. Þetta vilja þeir að þjóðin ákveði í atkvæðagreiðslu en ekki hvort sótt skuli um að nýju.


Málatilbúnaður ESB-aðildarsinna hefur verið ótrúverðugur frá ársbyrjun 2009. Þeir ýttu staðreyndum og eigin loforðum til hliðar við upphaf ESB-leiðangursins, sundruðu flokkum til hægri og vinstri og standa nú á rústum Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar. Að leiða ESB-aðildina inn á vettvang íslenskra stjórnmála var upphaf svartasta kafla í sögu utanríkismála lýðveldisins. Vörumst það svarthol.