9.9.1998

Nýjar áherslur í framhaldsskólum

Framhaldsskólaþing
26. september 1998
Nýjar áherslur í framhaldsskólum.

Almennt hlutverk framhaldsskólans er skilgreint í lögum. Skólinn á að stuðla að alhliða þroska allra nemenda svo að þeir verði sem best búnir undir að taka virkan þátt í lýðræðisþjóðfélagi. Framhaldsskólinn býr nemendur undir störf í atvinnulífinu og frekara nám.

Í þeirri setningu, að skólinn búi nemendur undir störf í atvinnulífinu og frekara nám, felst tvískiptingin innan skólans, sem við kennum við starfsnám eða verknám annars vegar og bóknám hins vegar. Unnið er að miklum breytingum á báðum þessum sviðum.

Í erindi mínu hér í dag ætla ég að víkja að þessum breytingum með því í fyrsta lagi að ræða um stöðu námskrárgerðar fyrir bóknámið og í öðru lagi um nýskipan á starfsnámi, í þriðja lagi ræði ég tengsl við atvinnulíf og háskóla og í fjórða lagi um áhrif nýju upplýsingatækninnar.

Almennt hefur endurskoðun aðalnámskránna fyrir grunn- og framhaldsskóla gengið einstaklega vel. Raunar held ég, að raddir efasemdarmanna, sem töldu ekki unnt að semja nýja námskrá fyrir bæði skólastigin á 27 mánuðum séu að þagna, þótt verkið kunni allt að taka aðeins lengri tíma.

Til upprifjunar vil ég minna á, að kjarni hinnar nýju skólastefnu, sem er að baki námskránum, felst í viðleitni til að koma á öflugu og sveigjanlegu skólakerfi, skipan, sem hlúir að einstaklingnum, eykur valfrelsi nemenda en ræktar um leið með þeim námsaga og góð vinnubrögð, heilbrigðan metnað og ábyrgð á eigin námi.

Margar ástæður eru fyrir því, að námskrárgerðinni hefur miðað vel áfram.

Í fyrsta lagi var öllum ljós nauðsyn þess að endurskoða námskrárnar á sem skemmstum tíma.

Í öðru lagi var strax í upphafi gengið til verksins á grundvelli ýtarlegrar starfsáætlunar, ábyrgðin var skýr hjá verkefnisstjóra og verkefnisstjórn en þátttaka hinna ýmsu aðila tryggð.

Í þriðja lagi var leitað samráðs við fulltrúa allra stjórnmálaflokka á Alþingi og farið að tillögum þeirra.

Í fjórða lagi var nýja skólastefnan kynnt öllum almenningi og síðan hefur hún verið send um 30 umsagnaraðilum til formlegrar athugunar.

Síðast en ekki síst tókst mjög gott samstarf við kennara um endurskoðun námskránna. Án þeirrar samvinnu stæði verkið ekki jafnvel og raun ber vitni. Sýnist mér, að nálægt 200 kennarar hafi með einum eða öðrum hætti komið að þessu starfi. Þá hafa samtök kennara einnig lagt verkinu mikið lið og hefur verið ómetanlegt, hve fús þau hafa verið til að taka á málum með þeim hætti, að ávallt hefur fundist skynsamleg leið að markmiðinu.

Í grundvallaratriðum lýsa hinir formlegu umsagnaraðilar yfir stuðningi við skólastefnuna en leggja jafnframt fram ábendingar um einstök atriði hennar eða gera tillögur að nánari útfærslu. Má meðal annars nefna ábendingar um viðmiðunarskrá og valfrelsi nemenda í grunnskóla, aðlögun náms að lokatakmarki, skipulag á kjörsviðum bóknámsbrauta, einkum vegna fjölda eininga í stærðfræði, inntökuskilyrði í framhaldsskóla og skipulag starfsnáms. Verkefnisstjórn endurskoðunarinnar hefur farið yfir þær umsagnir sem bárust og haft athugasemdir til hliðsjónar við samantekt þeirra álitamála sem íhuga þarf áður en endanleg skipan náms verður ákveðin.

Þá skipaði ég sérstakan samráðshóp í tengslum við endurskoðun aðalnámskráa. Í samráðshópnum sitja alls ellefu fulltrúar, þ.e. frá Kennarasambandi Íslands, Hinu íslenska kennarafélagi, Skólastjórafélagi Íslands, Skólameistarafélagi Íslands, samtökunum Heimili og skóli, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Félagi framhaldsskólanema auk fjögurra aðila frá menntamálaráðuneyti. Hlutverk samráðshópsins er að fara yfir skóla- og námskrárstefnuna, veita umsögn um almenn stefnumið og gera tillögur um breytingar á útfærslu stefnunnar ef þurfa þykir. Samráðshópurinn fylgir endurskoðun aðalnámskráa til verkloka endurskoðunarinnar. Hópurinn hélt fundi í vor og verður brátt kallaður saman til að fara yfir samantekt verkefnisstjórnar á álitamálum skólastefnunnar.

Það hyllir nú undir verklok við endurskoðun á aðalnámskránum. Vinnan er nú á næstsíðasta verkþrepi, þ.e. ritun námskráa fyrir einstakar greina. Hátt á fjórða tug vinnuhópa starfa nú að námskrárrituninni. Sameiginleg lokadagsetning vinnunnar er 30. nóvember næstkomandi.

Hópunum hefur miðað vel áfram, nær allir eru komnir vel á veg og nokkrar námskrár næstum fullbúnar. Verkefnisstjóri metur það svo að um 45% af heildarverkefnum vinnuhópa sé lokið þegar tæpur helmingur verktíma er liðinn. Þegar haft er í huga að hingað til hefur vinna farið fram á sumarleyfistíma eru góðar horfur á að tímamörk standist.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um endanlegt útlit eða útgáfuform nýrra námskráa en áhugi er á því, að gefa þær út í heftum eða í möppuformi til hægðarauka fyrir kennara.

Í tillögum sínum vegna fjárlaga 1999 lagði menntamálaráðuneytið áherslu á auknar fjárveitingar til endurmenntunar kennara og til að gera námsefni í samræmi við kröfur nýju námskránna. Kemur í ljós eftir fáeina daga, hve mikið fé verður til ráðstöfunar.

Þá ætla ég að víkja að starfsnáminu. Þar er nauðsynlegt að hafa nokkurn inngang til að rifja upp, hvernig að skipulagi þess er staðið samkvæmt nýjum framhaldsskólalögum.

Lögin tóku gildi 1. ágúst 1996. Í byrjun desember það ár var samstarfsnefnd um starfsnám á framhaldsskólastigi fullskipuð, en samkvæmt lögunum gegnir hún lykilhlutverki við framkvæmd ákvæða laganna um starfsnám. Nefndin gerir tillögu um flokkun starfsgreina á íslenskum vinnumarkaði, þar sem nám fellur undir framhaldsskóla. Staðfesti ráðuneytið þá flokkun haustið 1997. Starfsgreinum er skipt í 14 flokka og á grundvelli þess var leitað eftir tilnefningum um aðal- og varamenn í jafnmörg starfsgreinaráð. Þau hafa nú öll verið skipuð en ráðuneytið efndi til fundar með fyrri helmingi ráðanna í mars á þessu ári og seinni helmingnum í maí. Síðan tók við sumarleyfistíminn, þannig að almennt má segja, að ráðin séu í raun að taka til starfa í þessum mánuði eftir eðlilegan aðdraganda.

Ég rifja þetta svona nákvæmlega upp hér, því að þær raddir hafa heyrst, að með því að fara af stað með nýju skólastefnuna og endurskoðun námskrár fyrir bóknámið á undan starfsgreinunum, hafi enn einu sinni sannast dálætið á bóknámi á kostnað starfsnámsins. Málinu er alls ekki þannig farið. Það var eðlilegt, að allir aðilar þyrftu að gefa sér góðan tíma til að ná utan um skipulagið, áður en hin efnislega vinna hæfist, en starfsgreinaráðin eiga að gera tillögur til ráðuneytisins um námskrár á sínu sviði og þau eiga einnig að segja álit sitt á hugmyndum um kjarnaskóla, en samkvæmt lögunum, er unnt að fela framhaldsskólum slíkt hlutverk vegna starfsnáms.

Allt öðru vísi er staðið að því að setja námskrár fyrir einstakar starfsgreinar en aðalnámskrá. Til að árétta þessa sérstöðu má geta þess, að 1996, sama árið og endurskoðun aðalnámskránna hófst, voru staðfestar 4 nýjar námskrár í starfsnámi auk heildarnámskrár fyrir iðnsveina til iðnmeistararéttinda. Árið 1995 voru staðfestar 3 nýjar námskrár og sami fjöldi 1997. Á þessu ári hefur verið gengið frá námskrá fyrir fyrrihlutanám í málmiðngreinum og er nú kennt eftir henni í verknámsskólum um land allt.

Við erum síður en svo á byrjunarreit, þegar litið er á þessa hlið starfsnámsins. Starfsgreinaráðin taka við málum á því stigi, sem þau eru, og halda vinnu við þau áfram. Allvíða koma þau að óplægðum akri. Þeim er falið að fjalla um starfsgreinasvið þar sem formlegt nám er ekki í boði á framhaldsskólastigi og þurfa að byrja á að skilgreina sviðið. Ljóst er að þessi ráð nálgast viðfangefni sitt með öðrum hætti en hin sem fjalla um hefðbundið nám. Hins vegar er starfsgreinaráðum í grónum námsgreinum einnig falið að skoða, hvort ekki megi bjóða styttra starfsnám á þeirra sviði.

Starfsmenn ráðuneytisins eiga þessa dagana fundi með starfsgreinaráðum þar sem farið er yfir áætlanir um verkefni og kostnað vegna þeirra og er stefnt að því að í lok árs liggi fyrir sérstakir rammasamningar um starfsemi ráðanna á komandi ári. Þá munu tengiliðir ráðuneytisins við starfsgreinaráð vera þeim innan handar um faglega þróun námskráa og um næstu skref í vinnu ráðanna.

Í þeirri vinnu leggur ráðuneytið almenna áherslu á stuttar starfsmenntabrautir, sem miða að fjölbreyttara námsframboði og koma til móts við þarfir þeirra, sem ekki hyggjast stunda lengra starfsnám eða skortir til þess forsendur. Þannig ætti að vera unnt að koma til móts við þarfir atvinnulífsins fyrir menntað starfsfólk og stemma stigu við brottfalli úr framhaldsskólum. Þá leggur ráðuneytið einnig áherslu á námskrá fyrir vinnustaðanám, það er að starfsgreinaráð skoði sérstaklega starfsþjálfunarþáttinn úti í atvinnulífinu.

Þegar rætt er um starfsnámið og nýjar áherslur á framhaldsskólastiginu er einnig nauðsynlegt að huga að samstarfi skóla og atvinnulífs. Ég hef oft haft á orði, að það komi mér mjög á óvart, hve erfitt er að sameina þessa tvo heima.

Í næstu viku verður kynnt merk nýjung í þessu efni. Íslenska álfélagið hafði frumkvæði að því að skilgreina endurmenntunarþörf starfsmanna sinna og á þriðjudag verður formlega skýrt frá því, hvernig að framkvæmd þess verkefnis verður staðið. Leitaði félagið til nokkurra framhaldsskóla og óskaði eftir tilboði frá þeim í verkefnið og tók síðan einu þeirra.

Ég vona, að fleiri fyrirtæki fari þessa leið. Hún ýtir mjög undir tengsl skóla og atvinnulífs. Bæði hér á landi og erlendis sjást þess merki, að öflug fyrirtæki telji menntun starfsmanna sinna og annarra betur komna í eigin höndum en hefðbundinna skóla. Eru til dæmis miklar umræður um þetta á háskólastiginu, þar sem skólar eru komnir í harða samkeppni um kennara og nemendur við háskóladeildir innan stórfyrirtækja.

Slíkt gæti hæglega gerst á framhaldsskólastigi, þegar litið er til starfsnáms. Vilji menn, að skólarnir séu þungamiðja í menntakerfinu, verða stjórnendur þeirra og starfsmenn að sýna þann sveigjanleika, sem atvinnulífið krefst, annars leitar það úrræða utan skólanna og nemendur fara einfaldlega þangað, sem þeir telja menntunina besta. Skólar án nemenda eru lítils virði.

Segja verður eins og er, að reynslan af þeirri tilraun, sem gerð var í Borgarholtsskóla undir merkjum Fræðslumiðstöðvar bílgreina, hefur ekki tekist sem skildi. Er ekki enn fengin niðurstaða um framtíðarskipan námsins, en bæði skólinn og bílgreinamenn eru óánægðir með óbreytt ástand. Skólahúsnæðið var hins vegar hannað og innréttað til að sinna þessu námi, væri því mikil sóun á fjármunum, ef námið þyrfti að fara fram annars staðar.

Menntamálaráðuneytinu hafa með óformlegum hætti verið kynntar tillögur um ramma fyrir kjarnaskóla málm- og véltækni. Er þar gert ráð fyrir, að kjarnaskólinn verði sjálfseignarstofnun og innan hans séu höfuðstöðvar fagmenntunar og starfsþjálfunar í málm- og véltækni á Íslandi. Skólinn verði til húsa í Borgarholtsskóla, sem annist bóklegt nám á 1.-4. önn málm- og véltæknibrautar samkvæmt aðalnámskrá.

Þessar hugmyndir eru enn á umræðustigi en þær sýna í hvaða átt stefnir, þegar menn setjast niður og velta fyrir sér samstarfi atvinnulífs og skóla.

Bilið milli formlegs náms í skóla og símenntunar er að minnka. Á Suðurnesjum hefur verið stofnuð Miðstöð símenntunar og sama hugmynd er að komast í framkvæmd á Vesturlandi og hún er einnig til umræðu á Suðurlandi. Á Austurlandi hafa heimamenn komið á laggirnar fræðsluneti, sem tengir þrjá stóru framhaldsskólana þar. Einkenni á þessu þróunarstarfi öllu er ekki aðeins samstarf framhaldsskóla og atvinnulífs heldur einnig viðleitni til að skólarnir eigi aðild að framboði á námi á háskólastigi. Nýta menn hina nýju upplýsingatækni meðal annars í þessu skyni og nægir að nefna samstarf Háskólans á Akureyri og Framhaldsskóla Vestfjarða á Ísafirði fyrir tilstilli fjarfundabúnaðar.

Starfshættir framhaldsskólanna breytast vegna þessarar þróunar. Þeir komast í mun nánari tengsl við umhverfi sitt. Menntamálaráðuneytið kemur að þessari breytingu með ýmsum hætti. Hinir nýju skólasamningar ráðuneytisins við einstaka skóla auðvelda að skilgreina verkefni hvers skóla og marka honum stefnu. Ráðuneytið hefur hvatt til samstarfs framhaldsskóla, einkum á Austurlandi og Norðurlandi. Ljóst er, að áfram verða skil á milli framhaldsskóla og háskóla að því er nemandann varðar. Hann hefur hins vegar augljósan hag af því, að náin tengsl séu milli þessara skólastiga og lokamarkmið bóknámsins taki mið af kröfum háskólastigsins.

Allt fellur þetta vel að þeirri skoðun, að framhaldsskólar eigi ekki aðeins að vera góð menntasetur heldur einnig virkir þátttakendur í atvinnulífi byggðarlaga sinna og leggja sitt af mörkum til að þau blómstri og dafni.

Er ég þá kominn að fjórða meginþættinum, nýju upplýsingatækninni.

Ég var um síðustu helgi á ferð um Færeyjar og heimsótti meðal annars verslunarskóla og menntaskóla, sem starfa hlið við hlið í Kambsdal við Fuglafjörð. Þar var farin sú leið, þegar kreppan reið yfir Færeyjar, að gera samninga um að nemendur gætu keypt fistölvu á hagstæðu verði og með dálitlum opinberum stuðningi. Hefur verið haldið áfram á sömu braut, eftir að kreppunni lauk, vegna hinnar góðu reynslu af þessari nýjung. Var fróðlegt að koma inn í kennslustofur og sjá kennara nota varpa til að sýna mynd af skjá eigin tölvu á tjaldi og síðan nemendur, hvern yfir sinni tölvu eða saman að vinna verkefni. Voru þeir að læra landafræði, ensku, þýsku og stærðfræði. Nemendur höfðu aðgang að forritum, hjálpartækjum og netinu. Voru þeir þjálfaðir í alhliða notkun tölvu í öllum námsgreinum sínum.

Þannig er kennslustofa framtíðarinnar, hugsaði ég, tölvan hjálpartæki og milliliður milli nemanda og kennara. Tæki, sem nemandinn hefur við höndina í skólanum og heima hjá sér og fylgir honum síðan allt lífið. Blindur er bóklaus maður var einu sinni sagt. Sá sem ekki lærir á tölvu verður líklega enn verr staddur.

Á vegum menntamálaráðuneytisins verða í haust kynntar margar nýjungar, sem miða að því að nýta upplýsingatæknina meira í almennu skólastarfi. Auknu fé verður veitt til að gera kennsluhugbúnað, til að mennta kennara, til tilrauna í skólum, til tækjakaupa og til rannsókna og þróunar.

Í febrúar 1996 kynnti menntamálaráðuneytið stefnu sína um notkun upplýsingatækninnar í ritinu Í krafti upplýsinga. Hefur mjög mikið áunnist á þeim rúmu þremur árum, sem síðan eru liðin.

Samkvæmt stefnunni er upplýsingatækni sjálfsagt hjálpartæki í öllum námsgreinum. Upplýsingalæsi, hæfnin til að safna, greina og setja fram upplýsingar, verður skyldunámsgrein frá upphafi til loka grunnskóla. Markmiðið er, að öll grunnskólabörn hafi aðgang að margmiðlunartölvum og netinu. Í því efni stöndum við þegar framar en flestar aðrar þjóðir. Stefnt er að því að stofna nýja námsbraut, upplýsinga- og tæknibraut, í framhaldsskólum. Hafa margir skólar lýst áhuga á að bjóða þessa braut. Einnig hefur verið ákveðið að velja þrjá grunnskóla og tvo framhaldsskóla til að verða einskonar þróunarskólar við nýtingu upplýsingatækninnar.

Innan alls skólakerfisins er nú vakning í þessu tilliti. Viðskiptaháskólinn í Reykjavík var að taka til starfa með miklum glæsibrag, hann á rætur sínar í tölvufræðinámi innan Verslunarskólans. Meistaranám í tölvunarfræði er að hefjast í haust við Háskóla Íslands og Háskólinn á Akureyri býður nú 3ja ára nám til BS prófs í tölvu- og upplýsingatækni.

Að tillögu minni og með samþykki ríkisstjórnarinnar er nú verið að hrinda í framkvæmd markáætlun Rannsóknarráðs Íslands um rannsóknir og þróun á sviði upplýsingatækni. Verður innan ramma hennar veitt fé til rannsókna á hagnýtu gildi þessarar tækni á ýmsum sviðum. Fé hefur verið veitt til þróunarstarfs og hagnýtra rannsókna í upplýsingatækni úr þróunarsjóðum grunn- og framhaldsskóla.

Endurmenntun kennara er mikilvægt viðfangsefni, þegar hugað er að hinni nýju tækni í skólastarfi. Er stefnt að því að efla hana. Jafnframt verður gert átak í kennsluhugbúnaðargerð. Hefur Námsgagnastofnun lagt fram framkvæmdaáætlun um þróun hugbúnaðar. Komið verður á fót kennslumiðstöð, þar sem veitt verður ráðgjöf og aðstoð við notkun upplýsingatækninnar á öllum skólastigum.

Fjarnám og fjarkennsla er ofarlega á baugi. Ætlunin er að stofna samræmdan gagnabanka fyrir hugbúnað og námsefni. Verður hann opinn öllum. Verkmenntaskólinn á Akureyri hefur haft fjarkennslu á framhaldsskólastigi sem tilraunaverkefni. Nú í haust þarf að taka ákvarðanir um framhaldið á þessu skólastigi. Hvarvetna er mikill áhugi á því innan háskóla að bjóða fjarnám. Innlend og alþjóðleg samkeppni á þessu sviði er að aukast.

Góðir áheyrendur!

Ég hef leitast við að draga saman þau atriði, sem ég tel, að hafa muni mest áhrif á þróun framhaldsskólans á næstu árum.

Síðar í dag fer ég vestur á Ísafjörð og tek þar þátt í hátíð til að heiðra minningu merks skólamanns, Ragnars H. Ragnars. Hann komst þannig að orði, að skóli væri fólk en ekki hús.

Ég vil taka undir þetta, því að skóli er fólkið, sem í honum starfar, kennarar og nemendur. Það er undir metnaði þeirra komið, hverjar áherslurnar eru og hvaða tökum er beitt við hin mörgu og spennandi viðfangsefni. Ég óska ykkur öllum velfarnaðar í mikilvægum störfum og heiti stuðningi mínum við að gera góðan framhaldsskóla enn betri.