23.5.2002

Auðvelt val um skýra kosti


Morgunblaðið

Fimmtudaginn 23. maí, 2002

Auðvelt val um skýra kosti
Kosningabaráttan undanfarnar vikur hefur sýnt, að á D-lista Sjálfstæðisflokksins er samhentur hópur fólks, sem tekur málefnalega afstöðu til úrlausnarefna í Reykjavík og kynnir hana með skýra kosti hætti. Auglýsingar í þessari baráttu hafa einnig leitt í ljós, að við á D-listanum höfum haft frumkvæði í umræðum um stefnumál og R-listinn hefur verið í vörn og á undanhaldi. Þetta á ekki síst við í umræðum um fjármál Reykjavíkur, hina erfiðu skuldastöðu borgarinnar, málefni Línu.nets, Orkuveitu Reykjavíkur, umhverfis- og skipulagsslysið í Geldinganesi og aðgerðaleysi R-listans í málefnum aldraðra.
Þegar við lögðum fram stefnu okkar miðvikudag fyrir páska, sagði ég jafnframt, að við myndum bjóða Reykvíkingum að gera við okkur samning um framkvæmd sérgreindra áherslumála á næstu fjórum árum. Þennan samning höfum við sent inn á öll heimili í borginni. Í fyrstu reyndu andstæðingar okkar að gera hann tortryggilegan með rangfærslum um kostnað við að framkvæma samninginn. Þeir gáfust fljótt upp á því, enda hefur öllum spurningum um það efni verið svarað með skýrum rökum.

Nú í dag birtum við auglýsingu hér í Morgunblaðinu um það, hvernig við höfum tímasett ákvarðanir okkar á næstu 48 mánuðum við framkvæmd samningsins og stefnu okkar í heild. Mér finnst mjög ólíklegt, að andstæðingar okkar á R-listanum sigli í kjölfarið og birti sambærilega aðgerðaáætlun, því að þeir hafa enga burði til að koma sér saman um að standa að málefnum Reykjavíkurborgar með þeim skipulega hætti, sem hér er kynntur.

Þegar kjósendur ganga að kjörborðinu næsta laugardag, eiga þeir ekki aðeins kost á því að velja á milli frambjóðenda og stefnumála, þeir geta einnig kosið á milli vinnubragða við stjórn borgarinnar. Þeir geta valið samhentan hóp, sem hefur á heiðarlegan og jákvæðan hátt lagt stefnu sína og tímasetta verkáætlun fyrir kjósendur. Við höfum hvorki dustað rykið af margnota kosningaloforðum né stundað þann ljóta leik að reyna að plata gamla fólkið í borginni með innantómum fyrirheitum, eftir að hafa látið reka á reiðanum í málefnum þeirra í átta ár.

Ég skora á lesendur Morgunblaðsins að kynna sér, hvernig við sjálfstæðismenn ætlum að vinna að framgangi stefnu okkar fyrstu 48 stundirnar eftir að okkur er trúað fyrir stjórn borgarinnar, 48 dagana, 48 vikurnar og 48 mánuðina. Kostirnir eru skýrir og valið auðvelt.