16.5.2002

Skýrir kostir í flugvallarmálinuMorgunblaðið.
Fimmtudaginn 16. maí, 2002 -
Skýrir kostir í flugvallarmálinu


Í KOSNINGUNUM 25. maí verður ekki skorið úr um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Um það hefur verið samið milli ríkis og borgar, að völlurinn verði fram til 2016 með þeim meginsvip, sem hann hefur núna. R-listinn samþykkti aðalskipulag, sem miðast að því, að milli 2016 og 2024 verði einni braut - austur/vesturbraut - haldið úti og standi hún undir öllu flugi á vellinum. Flugráð og sérfræðingar þess hafa bent á, að þessi leið dugi ekki frá öryggissjónarmiði.

Þótt ekki verði skorið úr um framtíð Reykjavíkurflugvallar í kosningunum, geta Reykvíkingar ákveðið í þeim hvort þeir vilja áfram hafa við stjórn meirihluta, sem lítur á flugvallarmálið sem pólitískt vandamál innan sinna vébanda, eða þeir velja samhentan hóp fólks, sem vill leysa flugvallarmálið með skipulegum hætti.

Innan R-listans er ágreiningur um það hvort flugvöllurinn eigi að fara eða vera eftir 2016 eins og kom skýrt fram í hinni sérkennilegu atkvæðagreiðslu um Vatnsmýrina eftir að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafði ritað undir samning um, að flugvöllurinn yrði hér til 2016. Framsóknarmenn innan R-listans vilja hafa Reykjavíkurflugvöll. Málamiðlunin á vettvangi R-listans felst í tillögunni um einu brautina. Þessi málamiðlun byggist ekki á sérfræðilegu mati heldur tilraun til að halda R-listanum saman um um þetta mikilvæga mál.


Stefna D-listans
Í stefnu okkar á D-listanum segir um flugvallarmálið: "Við ætlum að beita okkur fyrir varanlegri niðurstöðu um flugvallarmálið með viðræðum við ríkisvaldið og aðra hagsmunaaðila um skipulag í Vatnsmýrinni og fá þar aukið landrými undir blandaða byggð, án þess að vegið verði að flugöryggi eða gengið gegn hagsmunum Reykjavíkur og landsbyggðarinnar í samgöngumálum."
Í þessum orðum felst að á næsta kjörtímabili ætlum við sjálfstæðismenn að koma flugvallarmálinu og skipulagsmálum Vatnsmýrarinnar út úr pólitískri sjálfheldu R-listans. Annaðhvort verður hér flugvöllur, sem stenst öryggiskröfur, eða flugvöllurinn hverfur úr Vatnsmýrinni.

Þegar gengið er til viðræðna um mál eins og þetta er nauðsynlegt að setja sér skýr efnisleg markmið, en á hinn bóginn er ekki unnt að krefjast þess að fyrirfram segi einn samningsaðilinn hver niðurstaðan verður. Til hvers þá að stofna til viðræðna? Þær eru forsenda skynsamlegrar sáttar og enginn einn aðili segir fyrir um hana.

Ég tel mun skynsamlegra að Reykjavíkurborg stofni til viðræðna um flugvöllinn og framtíð Vatnsmýrarinnar með þau efnisatriði að leiðarljósi sem við sjálfstæðismenn nefnum í stefnu okkar en tillögu R-listans í aðalskipulaginu um eina flugbraut. Ef menn setja sér óraunhæf markmið er einskis virði að reyna að ná þeim og allir telja tíma sínum til þess illa varið.

Þótt framtíð Reykjavíkurflugvallar ráðist ekki í kosningunum 25. maí, gefst þar tækifæri til að velja á milli samhents hóps á D-listanum, sem vill leiða flugvallarmálið til lykta á málefnalegum forsendum, og sundurlynds R-lista, sem tekur á málinu með pólitíska eiginhagsmuni í huga og hefur faglega ráðgjöf að engu.