18.5.2002

Eyðileggjum ekki Geldinganesið




--------------------------------------------------------------------------------

Morgunblaðið.
Laugardaginn 18. maí, 2002 - Aðsendar greinar



Eyðileggjum ekki Geldinganesið




UMRÆÐUR um skipulagsmál og Geldinganesið hafa tekið einkennilega stefnu síðustu daga, þegar R-listinn hefur ákveðið að fara í auglýsingastríð við okkur sjálfstæðismenn til að réttlæta þá ákvörðun sína að eyðileggja suðurhlíðar nessins og gera þar stórskipahöfn og iðnaðarsvæði.
Við sjálfstæðismenn höfum frá fyrsta degi kosningabaráttunnar lagt á það áherslu, að við viljum koma í veg fyrir tvöfalt umhverfisslys í Reykjavík með því að forða Geldinganesinu frá eyðileggingu og jafnframt sjá til þess, að strandlengjan við Ánanaust og Eiðisgranda verði ekki eyðilögð með uppfyllingu úr nesinu. Til að árétta þessa stefnu okkar sýnum við á myndrænan hátt í auglýsingu, hvernig ætlun R-listans er að taka alla gróðurþekjuna af suðurhlíðum Geldinganess og auk þess sprengja þar milljón rúmmetra af landi til að skapa hafnaraðstöðu.

Í fyrstu svaraði R-listinn þessari stefnu okkar á þann veg, að þetta væri sérkennilegt kosningamál, því að hann hefði í kosningunum 1998 fengið umboð til að eyðileggja Geldinganesið með þessum hætti.

Næsta skrefið var, að R-listinn greip til þeirra varna að saka okkur um, að sýna ekki nægilega framsýni vegna hafnargerðar fyrir Reykjavík. Þegar þessu var svarað á þann veg, að sérfræðingar teldu núverandi hafnaraðstöðu myndu duga í 30 til 50 ár og augljóst væri af framkvæmdum Eimskip í Sundahöfn, að þar á bæ væru menn ekki að hugsa sér til neins hreyfings, var hlaupið í næsta vígi.

Í auglýsingu, sem R-listinn hefur birt, er dregið yfir gjána, sem þegar hefur verið sprengd í Geldinganesi. Ekki nóg með, að reynt sé að blekkja með þessum hætti. Í texta segir: "Það stendur ekki til að hafa í Geldinganesi iðnaðarhöfn. Í aðalskipulagi er bannað að hafa iðnaðarsvæði í Geldinganesi." Þetta er ekki rétt. Í aðalskipulaginu, sem R-listinn telur sér helst til framdráttar af afrekum sínum, segir beinlínis, að á Geldinganesi skuli vera iðnaðarsvæði og síðan er það svæði skilgreint sem svæði fyrir umfangsmikla iðnaðarstarfsemi eða starfsemi sem talin er geta haft mengun í för með sér.

Málflutningur R-listans síðustu daga ber þess merki, að hann hafi tapað fótfestunni í kosningabaráttunni. Stjórnmálamenn ná henni ekki aftur með því að bera andstæðinga sína röngum sökum. Við eigum að leggja mál fram með jákvæðum hætti og líta til framtíðar með hagsmuni allra borgarbúa að leiðarljósi. Það höfum við sjálfstæðismenn gert með skipulegum hætti í þessari kosningabaráttu og boðið kjósendum að gera við okkur samning um helstu málefni næstu fjögurra ár. Eitt þeirra mikilvægustu er að koma í veg fyrir eyðileggingu Geldinganess.


© Morgunblaðið, 2002