17.4.2015

Eystrasaltsríkin brjóstvörn Norðurlanda

Grein í Morgunblaðinu 17. 04. 15


Hefði einhver spáð í apríl 1990, fáeinum vikum eftir að Litháen var lýst sjálfstætt fyrst Sovétlýðvelda, að 25 árum síðar mundu Norðurlöndin fimm sameinast um yfirlýsingu til að mótmæla hernaðarlegum ögrunum Rússa í sinn garð og Eystrasaltsríkjanna hefðu menn talið spámanninn ofurseldan Rússagrýlunni.

Hinn 10. apríl 2015 birtu varnarmálaráðherrar Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar auk utanríkisráðherra Íslands yfirlýsingu þar sem segir í þýðingu utanríkisráðuneytisins:

„Yfirgangur Rússa gagnvart Úkraínu og hin ólöglega innlimun Krímskaga er brot á þjóðarrétti og öðrum alþjóðlegum samningum. Framferði Rússlands er mesta áskorun sem steðjar að öryggismálum Evrópu. Þessi þróun hefur í för með sér að staða öryggismála á grannsvæðum Norðurlandanna hefur versnað umtalsvert á síðastliðnu ári. […]

Við verðum vör við auknar heræfingar og leyniþjónustustarfsemi á Eystrasalts- og norðursvæðunum. Rússneski herinn hegðar sér á ögrandi hátt við landamæri okkar (og margoft hefur verið brotið á fullveldi landamæra ríkjanna við Eystrasalt). Það er sérstakt áhyggjuefni að flug rússneskra herflugvéla hefur valdið beinni hættu fyrir almenna flugumferð.“

Ráðherrarnir segja, að æfingar og leyniþjónustustarfsemi Rússa hafi aukist á nágrannasvæðum landa þeirra. Þessa verði greinilega vart á Eystrasaltssvæðinu. Það hvíli mikil ábyrgð á herðum Rússa að snúa við þessari óheillaþróun. Ráðherrarnir segjast hins vegar axla sína ábyrgð á grannsvæðum Norðurlandanna á óróatímum. 

Viðbrögð Rússa

Á árum kalda stríðsins var óhugsandi að Norðurlöndin fimm stæðu sameiginlega að yfirlýsingu sem þessari. Svíar hlutlausir og Finnar með vináttusamning við Sovétmenn hefðu aldrei skrifað undir slíkan texta. Þá hefði ekki heldur verið talað á sama hátt og nú um stöðu og öryggi Eystrasaltsríkjanna og ábyrgð Norðurlandanna í þeim efnum.

Sunnudaginn 12. apríl 2015 sendi rússneska utanríkisráðuneytið frá sér tilkynningu og lýsti „sérstökum áhyggjum“ vegna þess að Finnar og Svíar vildu nánara samstarf við NATO. Ríki hefðu vissulega rétt til að leysa öryggismál sín á eigin forsendum en þessi yfirlýsing væri ógn við Rússland. „Andstætt því sem var á árum áður er nú stofnað til hernaðarsamvinnu í Norður-Evrópu gegn Rússlandi. Þetta getur grafið undan jákvæðri, uppbyggilegri samvinnu,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.

Í stað þess að stuðla að viðræðum til að bæta öryggi í Norður-Evrópu og í Evrópu allri sem gætu þar með náð til lausnar á krísunni í Úkraínu sé „átakastefnu þröngvað upp á þjóðir Norður-Evrópu,“ segir ráðuneytið að lokum.

Viðbrögð NATO

Leiðtogar NATO-ríkjanna ákváðu í september 2014 að bregðast við nýrri stöðu í öryggismálum Evrópu með því að koma á fót 5000 manna liði undir heitinu Spjótsoddurinn. Nafnið á að gefa til kynna að liðið megi senda hratt af stað. Viðbragðstíminn er sagður 48 stundir. Jafnframt verða starfræktar stjórn- og birgðastöðvar í þágu liðsins á völdum stöðum, þar á meðal í Póllandi og Eystrasaltsríkjunum. Fyrsta æfing þessa liðsafla fór fram dagana 7. til 9. apríl 2015 með þátttöku 1.500 hermanna.

Toomas Ilves, forseti Eistlands, sagði við The Daily Telegraph hinn 11. apríl 2015 að til að tryggja öryggi Eistlands yrði NATO að gera betur. Haldið hefur verið úti loftrýmiseftirliti á vegum NATO yfir Eystrasaltsríkjunum. Við flugvöll í Eistlandi eru til bráðabirgða 150 bandarískir landgönguliðar við öryggisgæslu. Forsetinn sagði þann liðsafla ekki duga við hlið 5.300 manna hers landsins. NATO yrði að reka öfluga herstöð með stórfylki í Eistlandi. Tallinn höfuðborg landsins, væri aðeins í 218 km fjarlægð frá Rússlandi (vegalengdin frá Reykjavík að Bjarkarlundi er 215 km) og við landamærin héldu Rússar úti 40.000 til 80.000 manna her. Það tæki hann aðeins fjórar klukkustundir að ná til Tallinn.

Blendingshernaður

Forseti Eistlands er ekki hinn eini sem varar við hættu af rússneska hernum. Michael Fallon, varnarmálaráðherra Breta, sagði í febrúar að Vladimír Pútín Rússlandsforseti ógnaði Eystrasaltsríkjunum, Eistlandi, Lettlandi og Litháen, á „raunverulegan og augljósan hátt“.

Hættan sem að Eystrasaltsríkjunum steðjar er þó ekki bundin við herafla. Rihards Kozlovskis, innanríkisráðherra Lettlands, sagði um miðjan mars að Rússar stunduðu „upplýsingastríð“ í gegnum þjóðræknisfélög Rússa sem eru um 25% íbúa Lettlands. Snýst áróðurinn um að gert sé að hlut Rússa sem minnihlutahóps og minnir þannig á ásakanir rússneska minnihlutans í Úkraínu.

Dalia Grybauskaite, forseti Litháens, segir að land hennar sæti þegar árás og vísar hún til „upplýsingastríðs, áróðurs- og netárása“.

Ný tegund hernaðar er komin til sögunnar. Á ensku tala menn um „hybrid warfare“ eða blendingshernað. Um er að ræða blöndu af sviðum þar sem stofna má til átaka: hernað, efnahagsmál, alþjóðastjórnmál, afbrot og upplýsingamiðlun.

Rússar beita nú sérsveitum, áróðri og laumuliðum, meðal annars til netárása, í Úkraínu.

James Sherr, breskur sérfræðingur í málefnum Rússlands og Úkraínu, segir að með blendingshernaði geti Rússar „lamað ríki jafnvel áður en stjórnendur þess átta sig á að átök séu hafin“. Á þennan hátt kunni að takast að laumast fram hjá NATO sem stæði frammi fyrir orðnum hlut.

Norrænt fyrirheit

Ríkisstjórnir Norðurlanda líta á Eystrasaltsríkin sem bræðraríki og brjóstvörn gegn ágangi Rússa. Skoða ber hina sögulegu yfirlýsingu frá 10. apríl í því ljósi. Ráðherrarnir gangast í ábyrgð fyrir öryggi Eystrasaltsþjóðanna – gegn hervaldi og laumulegu valdabrölti Rússa.

Við þessa liðveislu og til að tryggja eigið öryggi er óhjákvæmilegt fyrir Norðurlöndin að treysta á NATO-samstarfið. Þetta vita Finnar og Svíar og þess vegna færast þeir sífellt nær NATO. Til að treysta endanlega mótvægi gegn Rússum á norðurvæng NATO og styðja við bakið á Norðurlöndunum er brýnt að Bandaríkjamenn verði að nýju með herstöð innan landamæra einhvers þeirra.