11.12.2001

Halldór Hansen gefur LHÍ

Halldór Hansen
gefur Listaháskóla Íslands,
11. desember, 2001.


Listaháskóli Íslands hefur verið að færa út kvíarnar stig af stigi, frá því að hann var settur í fyrsta sinn hinn 10. september árið 1999. Þá um haustið bauð hann myndlistar- og hönnunarnám, haustið 2000 hófst kennsla í leiklist innan skólans og á þessu hausti kom tónlistarnámið til sögunnar. Þar með var þeim markmiðum náð, sem við settum skólanum á fyrstu þremur starfsárum hans, og nýlega var ritað undir samning um fjárstuðning ríkisins við skólann næstu þrjú árin.

Listaháskólinn hefur ekki enn slitið barnsskónum, en hann hefur engu að síður skapað sér öruggan sess í mennta- og menningarlífi þjóðarinnar. Og nú í dag er honum veittur heiður, sem styrkir grundvöll skólans enn frekar. Halldór Hansen barnalæknir telur greinilega, að hin unga menntastofnun eigi góða framtíð fyrir sér, að öðrum kosti hefði hann ekki trúað skólanum fyrir ómetanlegu tónlistarsafni sínu og ánafnað honum fasteign sína að Laufásvegi 24.

Gildi þessarar miklu viðurkenningar vex vegna hinnar einstæðu alúðar, sem gefandinn hefur í marga áratugi sýnt tónlistinni, drottningu listanna. Á síðasta ári var efnt til mikillar sönghátíðar til heiðurs Halldóri Hansen og þá kom vel fram, að þeir eru fáir, sem falla betur að setningunni „þú átt aðeins það sem þú gefur“ en hann. Við fáum enn staðfestingu á því hér í dag.

Halldór Hansen segir, að það hafi verið vegna veikinda sinna sem barns, að hann kynntist tónlistinni í fyrsta sinn og lærði að njóta hennar, síðan urðu veikindin einnig til þess, að hann var langdvölum í Austurríki og kynntist óperulistinni. Hann hreifst af mannsröddinni og hefur lagt sig fram um það með glæsilegum árangri að efla sönglist hér á landi og víða um heim. „Ég held, að það sé þessi beina og milliliðalausa tjáning, sem dró mig að söngnum,“ hefur hann sagt, og vegna næms eyra fyrir tónfegurð hafi hann laðast að fagurri söngrödd, sem gat sungið fagrar melódíur og svaraði bæði fljótt og vel því sem fagurt hljómaði.

Á sönghátíðinni í fyrra blasti við öllum, að Halldór Hansen hefur einnig
lagt mikið af mörkum til að tengja Íslendinga við alþjóðlegt tónlistarlíf, því að hingað komu frægir vinir hans frá mörgum löndum og hylltu hann með list sinni og þökkuðu honum þannig hvatningu og stuðning. Hann er hlustandi, sem hefur gegnt einstæðu, skapandi hlutverki. Hér heima hefur hann átt þátt í því að gera kröfur, sem opna íslenskum söngvurum svið heimsfrægra óperuhúsa.

Við viljum, að þannig sé búið um hnúta í Listaháskóla Íslands, að nemendur skólans geti hlotið menntun, sem stenst samanburð við hið besta og geri þeim kleift að njóta sín í hinu opna alþjóðlega samfélagi lista og menningar. Sá árangur næst ekki nema gerðar séu kröfur, sýnd umhyggja og hvatning. Starfað sé af sömu hógværð í krafti mikillar þekkingar og einkennt hefur hlut Halldórs Hansens í íslensku tónlistarlífi.

Ég ítreka, að þetta er mikill heiðurs- og viðurkenningardagur fyrir Listaháskóla Íslands, þegar hér er lagður ómetanlegur grunnur að
öflugu tónlistarsafni skólans og stofnaður styrktarsjóður,sem ber nafn Halldórs Hansens.

Ég flyt Halldóri Hansen einlægar þakkir fyrir þessa góðu gjöf og þennan höfðinglega gjörning. Ég óska Listaháskóla Íslands til hamingju og megi nemendur hans og kennarar vel og lengi njóta.