20.9.2014

Úrslitin í Skotlandi breyta stjórnskipun Bretlands

Skotland VI

:

Úrslitin í skosku þjóðaratkvæðagreiðslunni hinn 18. september eru skýr: 55% vilja áfram vera innan Sameinaða konungdæmisins en 45% kusu aðskilnað við það. Kosningaþátttakan var meiri en áður hefur þekkst í Bretlandi, 84,5%. Fyrra metið er frá árinu 1950 þegar 83,9% tóku þátt í þingkosningum í Bretlandi. Síðast þegar kosið var til skoska þingsins í Holyrood í Edinborg, árið 2011, komu aðeins 50% á kjörstað.

Má því réttilega kalla þetta sigur fyrir lýðræðið.  Vegna kosninganna tókst að virkja stærri hluta borgaranna en áður til að nýta hinn lýðræðislega rétt og ákveða eigin framtíð. Að munurinn sé 10 stig ber með sér afdráttalausan vilja til að Skotland verði áfram innan þeirrar umgjarðar sem Sameinaða konungdæmið (United Kingdom, UK) myndar og nær til Skotlands, Englands, Wales og Norður-Írlands: Stóra Bretlands.

Ef úrslitin hefðu orðið á hinn veginn, Skotar hefðu kosið sjálfstæði, stæðu ekki aðeins ráðamenn á Bretlandi frammi fyrir miklu og flóknu úrlausnarefni heldur einnig stjórnvöld í nágrannalöndunum við Norður-Atlantshaf, samstarfsþjóðir innan Evrópusambandsins og Atlantshafsbandalagsins. Viðfangsefnið eftir kosningarnar er ekki fjölþjóðlegt heldur snýr inn á við í Sameinaða konungdæminu sem breytir óhjákvæmilega um svip. Fyrirheit hafa verið gefin um breytingar á því.

Hjarta já-baráttunnar

Á kjördag sat ég á George-torgi í hjarta Glasgow og fylgdist með mannlífinu. Torginu hefur verið lýst sem hjarta já-baráttunnar og fram eftir kvöldi bjó fólkið sig undir sigur. Það hlaut hann í Glasgow, fjölmennasta kjördæmi Skotlands þar sem kjörsókn var þó ekki „nema“ 75%: 53,5% sögðu já og 46,5% nei. Næst minnst var kosningaþátttakan í Dundee 78,8% en þar fengu já-menn bestu útkomuna: 57,3% en nei-menn fengu 42,7%. Já-menn hlutu meirihluta í aðeins fjórum af 32 kjördæmum Skotlands. Alls staðar utan Glasgow og Dundee var kjörsókn yfir 80%.

Eftir að hafa heimsótt George-torg nokkrum sinnum fáa daga mína í Glasgow minnkaði áhugi minn á málstað já-manna. Þarna voru hópar sem kynntu öfgafull sjónarmið af ýmsu tagi en höfðu safnast saman undir merki já-baráttunnar. Þeir fengu tækifæri sem ekki hefði annars gefist til að nálgast almenning undir jákvæðu merki en boðskapur þeirra var í eðli sínu of neikvæður fyrir mig.

Einu sinni á mannsaldri

Alex Salmond, forsætisráðherra Skotlands og leiðtogi skoskra þjóðernissinna, sagði í ræðum fyrir kjördag að atkvæðagreiðslan væri tækifæri sem íbúar Skotlands fengju aðeins einu sinni á ævi sinni. Þeir yrðu að nýta rétt sinn því að enginn vissi hvort slíkt tækifæri gæfist að nýju. Það væri undir ráðamönnum í Westminster, breska þinginu komið, og allir vissu um hug þeirra í garð Skota.

Að morgni föstudagsins 19. september sagði Salmond  að meirihluti Skota hefði „at this stage“ – á þessu stigi –  ákveðið að verða ekki sjálfstætt ríki. Felst í þessum orðum að hann telji annað tækifæri í augsýn? Bent hefur verið á Quebec, fylki frönskumælandi manna í Kanada sem fordæmi. Þar hefur sjálfstæði tvisvar verið hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu, 1980 og 1995. Í seinna skiptið var munurinn rétt um 1% nei-mönnum í vil.

Salmond hefur þó um annað að hugsa en nýja þjóðaratkvæðagreiðslu á næstunni. Hann hefur eins og við var að búast boðað afsögn sína sem forsætisráðherra og leiðtogi skoskra þjóðernissinna. Úrslitin voru honum sérstaklega óhagstæð í eigin kjördæmi Aberdeenshire: 60.3% nei, 39.6% já. Lét hann hjá líða að sýna sig þegar úrslitin voru kynnt þar heldur flaug beint til Edinborgar. Hvert verður höfuðmarkmið Skoska þjóðernissinnaflokksins eftir að sjálfstæði Skotlands hefur verið hafnað?

Léttir í London

Ráðamenn stóru flokkanna í Bretlandi létu aðeins að sér kveða svo um munaði síðustu 10 daga kosningabaráttunnar. Þeir fjarlægðu flokksmúra og tóku höndum saman til að bjarga konungdæminu.

Sérstökum tíðindum sætti að flokksbræðurnir Gordon Brown og Alistair Darling stóðu hlið við hlið en vinátta þeirra rofnaði við sameiginlega setu í ríkisstjórn Verkamannaflokksins. Er talið að drottningin heiðri þá sérstaklega fyrir framlag þeirra í þágu þjóðareiningar.

David Cameron forsætisráðherra sendi Darling hjartnæma þakkarkveðju en ráðherrann sagðist hafa misst svefn af áhyggjum yfir framtíð ríkisins. Cameron mátti sín hins vegar lítils á Skotlandi vegna fylgisleysis íhaldsmanna þar. Hann gerði þó sitt til að virkja Gordon Brown til baráttunnar og voru þeir að sögn í stöðugu símasambandi.

Stjórnskipunabreytingar

Snemma morguns föstudaginn 19. september gaf David Cameron yfirlýsingu fyrir framan svörtu útidyrnar á Downing-stræti 10:

Stjórnskipun Sameinaða konungdæmisins verður breytt. Meira vald verður flutt til skoska þingsins. Sérstaklega verður hugað að leiðum til að tryggja sérréttindi Englands innan ríkisins.

Í lok október 2014 verða fyrstu tillögur um nýja stjórnskipan birtar.

Í lok nóvember 2014 verður greingerð um málið lögð fyrir neðri deild breska þingsins.

25. janúar 2015 verður frumvarp að nýjum lögum um stjórnskipunina tilbúið og lagt fyrir þing til afgreiðslu.

7. maí 2015 kosningar til breska þingsins. Ný lög um heimastjórn Skota taka gildi þegar nýtt þing kemur saman.

5. maí 2016 kosið til þings Skotlands með nýjum völdum.

Víðtæk áhrif

Skoska þjóðaratkvæðagreiðslan hefur víðtæk áhrif. Vaxandi fjarlægð milli kjósenda og stjórnmálamanna verður að brúa. Tekst að gera það með breytingu á stjórnskipun í Bretlandi? Með því að færa meira vald nær fólkinu? Ætlunin er að gera tilraun til þess á nokkrum mánuðum. Þetta er meginárangur af sjálfstæðisbaráttu Skota. Misheppnist tilraunin magnast óánægja almennings.

Utan Bretlands hafa Skotar ýtt við sjálfstæðishreyfingum víða í Evrópu og um heim allan. Skotinn Adam Smith markaði tímamót með riti sínu Auðlegð þjóðanna árið 1776 þegar hann rökstuddi gildi frjálsra viðskipta. Nú hafa Skotar skapað nýtt fordæmi um frelsi þjóða til að ákveða sjálfar eigin framtíð.