15.9.2014

Hörð pólitísk átök um sjálfstæði

Skotar kjósa um það á fimmtudaginn hvort þeir vilji verða sjálfstæðir • Hiti hljóp í kosningabaráttuna þegar birt var niðurstaða í skoðanakönnun sem sýndi í fyrsta sinn meirihluta sjálfstæðissinnaLeiðtogar stóru bresku stjórnmálaflokkanna, David Cameron, Íhaldsflokknum, Ed Miliband, Verkamannaflokknum og Nick Clegg, Frjálslynda lýðræðisflokknum, slepptu spurningatíma forsætisráðherrans í neðri deild breska þingsins miðvikudaginn 10. september og héldu norður fyrir England til Skotlands í von um að þeir gætu komið í veg fyrir að Skotar kysu að verða sjálfstæðir í atkvæðagreiðslu fimmtudaginn 18. september.

Aðdragandi atkvæðagreiðslunnar hefur verið langur. Hún blasti þó við sem pólitísk staðreynd í Skotlandi í maí 2011 þegar Skoski þjóðernisflokkurinn hlaut hreinan meirihluta (69 af 129 þingmönnum) á skoska þinginu í Edinborg.

Flokkurinn rekur sögu sína 80 ár til baka eða til ársins 1934 en sérstakt þing fyrir Skotland árið 1999 skapaði vexti hans hæfilega umgjörð. Flokkurinn myndaði minnihlutastjórn undir forsæti Alex Salmonds, formanns síns, árið 2007 og síðan hlaut hann hreinan meirihluta árið 2011.

Að þjóðernissinnar fengu meirihluta í skoska þinginu kom mörgum í opna skjöldu. Þegar forystumenn Verkamannaflokksins samþykktu stofnun þingsins á sínum tíma töldu þeir sig hanna kosningalöggjöfina á þann veg að enginn einn flokkur gæti fengið hreinan meirihluta. Kosningakerfið er sambland af einmenningskjördæmum og hlutfallskosningum. Kerfið dugði ekki til að halda þjóðernissinnum frá að ná meirihluta.

Þótt aðdragandi þjóðaratkvæðagreiðslunnar hafi verið langur og í nóvember 2013 hafi legið fyrir 630 blaðsíðna löng hvítbók, Scotland´s Future, þar sem skoska ríkisstjórnin lýsti því hvað fælist í sjálfstæði Skotlands hljóp ekki hiti í baráttuna fyrr en eftir sunnudaginn 7. september þegar birt var niðurstaða í skoðanakönnun sem sýndi í fyrsta sinn meirihluta sjálfstæðissinna (51% gegn 49%).

Skotar kjósa 59 þingmenn til setu á þinginu í London, Westminster, 40 þeirra eru úr Verkamannaflokknum en aðeins einn úr Íhaldsflokknum. Miðað við skipan í Westminster á þessu kjörtímabili þar sem íhaldsmenn mynduðu samsteypustjórn með frjálslyndum vegna þess að þá skorti 21 þingmann til að hafa meirihluta hefðu íhaldsmenn 20 sæta meirihluta væru þar engir þingmenn frá Skotlandi.

Miklir hagsmunir í húfi

Flokkshagsmunir knýja leiðtoga Verkamannaflokksins til dáða samhliða viljanum til að halda Sameinaða konungdæminu (United Kingdom, UK) við lýði sem einni heild. Alistair Darling, fyrrverandi fjármálaráðherra Verkamannaflokksins, er í forystu samtaka sambandssinna, Better Together. Gordon Brown, fyrrverandi forsætisráðherra Verkamannaflokksins, þingmaður fyrir sveitakjördæmið Kirkcaldy and Cowdenbeath í Skotlandi, greip opinberlega til vopna gegn sjálfstæðissinnum mánudaginn 8. september.

Fyrir David Cameron forsætisráðherra er ekki eins mikið flokkspólitískt í húfi og leiðtoga Verkamannaflokksins. Hann hefur hins vegar heiður hins sameinaða ríkis að verja. Splundrist það á hans vakt sem forsætisráðherra verður það eilífur blettur á stjórnmálaferli hans. Cameron segist ætla að sitja áfram þótt meirihluti Skota segi já. Aðrir líkja atburðum í Skotlandi við það sem gerðist árið 1782 þegar nýlendur Breta í Bandaríkjunum slitu sambandi við herraþjóðina og North lávarður, þáv. forsætisráðherra, sagði af sér.

Alex Salmond sagði það sanna styrk sjálfstæðissinna og ótta valdamanna í London að þeir skyldu fjölmenna norður yfir landamærin til þátttöku í kosningabaráttunni. Þeir riðu ekki feitu hrossi aftur til London. Skotar létu þessa menn ekki segja sér fyrir verkum.

Andúð á Westminster

Hinn virti blaðamaður Charles Moore sagði í helgardálki í sínum í The Sunday Telegraph hinn 7. september að Salmond hefði náð beint til áheyrenda í öðru sjónvarpseinvígi sínu og Alistairs Darlings þegar hann minntist á Westminster og hóf að gagnrýna þingið og ríkisstjórnina í London. Eftir þann sigur, 79% gegn 21%, sóttu sjálfstæðissinnar mjög í sig veðrið.

Þriðjudaginn 9. september birti Ríkisútvarpið fréttaviðtal við Alex Salmond og sagði hann þá:

„Hroki stjórnarinnar í Lundúnum er alræmdur. Þetta eru sömu mennirnir og lýstu Íslendinga hryðjuverkamenn, Gordon Brown og Alistair Darling og þeirra líkar gerðu það til að réttlæta gerðir sínar. Það er sama hvaða mistök voru gerð á Íslandi, í Lundúnum, Edinborg og New York þá voru þetta ekki hryðjuverk.“

Forsætisráðherra Skota gat ekki valið betri leið en þessa til að sannfæra Íslendinga um að ekki væri unnt að eiga hag sinn undir stjórnmálamönnum af þeirri gerð sem ráða í Westminster.