29.9.2001

Málverkasafn Tryggva ÓlafssonarMálverkasafn
Tryggva Ólafssonar
Neskaupstað,
29. september, 2001.Við erum sífellt minnt á það í einni eða annarri mynd, að ekkert vinnst og enginn árangur næst nema sýnt sé frumkvæði. Einstaklingar fái hugmyndir og hafi kjark til að hrinda þeim í framkvæmd, láta drauma sína rætast. Við erum vitni að því hér í dag, að draumur rætist. Skapandi frumkvæði hefur borið góðan árangur.

Starf listamannsins byggist á hinni sívirku leit eða eins og Thor Vilhjálmsson orðar það svo vel í glæsilegri skránni um Málverkasafn Tryggva Ólafssonar:

“Tryggva liggur alltaf eitthvað á hjarta. Hann veit manna bezt að ekkert verður án átaks, hið léttkeypta hverfur í ryksugu dægranna eða í sand uppblástursins. Það er hin sívirka leit sem færir eina fenginn sem endist.”

Og hér í þessu safni sameinast kraftar tveggja manna, sem hika ekki við átak. Magni Kristjánsson skipstjóri veit það úr sjómennskunni, að þeir fiska sem róa, en það var hann, sem hóf róðurinn fyrir þetta einstæða safn. Magni fékk samþykki Tryggva fyrir því, að safn um listsköpun hans og ævistarf yrði í Neskaupstað. Jafnframt varð að samkomulagi með þeim Magna, að listamaðurinn mundi styðja safnið á margvíslegan hátt, meðal annars með listaverkagjöfum og með því að láta safninu í té hvers kyns gögn um listsköpun sína fyrr og síðar.

Á þessum forsendum sneri Magni sér til bæjarstjórnar Fjarðarbyggðar og óskaði samstarfs við hana um þetta viðamikla menningarverkefni. Var erindinu vel tekið og ákvað Magni þá að láta safninu í té húsnæði eftir því sem þyrfti, að minnsta kosti á meðan það kæmist á legg.

Yfirlitssýningin, sem nú er opnuð hefur tvíþættan tilgang. Í fyrsta lagi sjáum við nú listaverk Tryggva hér þessum stað og fáum þannig áþreifanlega staðfestingu fyrir því, að safn hans er komið til sögunnar, draumurinn hefur ræst. Í öðru lagi gefst einstakt tækifæri til að kynnast listferli Tryggva nánast allt frá því hann hélt út á listamannsbrautina og þar til hann nýtur nú virðingar og viðurkenningar hér heima og erlendis.

Peter Micahel Hornung segir í skránni um málverkasafnið frá hinum einstæða þroskaferli Tryggva sem listamanns og hvernig hann fann sjálfan sig í málverkinu, eftir að hafa sagt skilið við sjómennsku og prentiðn hér heima og haldið til náms í Kunstakademiet í Kaupmannahöfn. Hornung segir:

“Hann átti enn eftir að finna sjálfan sig í málverkinu. Það gerði hann, næstum fyrir tilviljun, meðan hann var að stunda vinnu sem gluggaþvottamaður hjá dönsku ríkisjárnbrautunum. Sem starfsmaður járrnbrautanna fékk hann tækifæri til að sjá menjar hins stóra heims renna inn á brautarstöðina. Oft komu lestirnar alla leiðina frá Ítalíu og þegar erlendu farþegarnir yfirgáfu klefa sína skildu þeir eftir blöð og tímarit með ljósmyndum sem voru ekki líkar neinu sem Tryggvi hafði áður séð.”

Á einfaldari hátt verður því tæplega lýst, hvernig hinn skapandi þróttur listamannsins verður til þess, að hann notar hverja hugmynd, sem hann fær til að móta eitthvað nýtt. Tryggvi hefur á meistaralegan hátt virkjað erlenda menningarstrauma með eigin höndum og huga og gert listaverk, sem hafa svipmót þess umhverfis, sem mótaði hann í æsku og fylgir honum hvert sem hann fer.

Og sagan heldur áfram og endurtekur sig. Er ekki nokkur vafi á því, að framtak Magna að fá listaverkin hingað heim og setja þau hér á safn hvetur ungt fólk til listsköpunar og getur af sér nýja hluti. Neistinn er víða fyrir hendi og mikils virði að hlú að honum með þeirri hvatningu, sem felst í góðu fordæmi.

Hefur verið ævintýri líkast að sjá þessa hugmynd Magna Kristjánssonar um Málverkasafn Tryggva Ólafssonar verða að því, sem við okkur blasir á þessari stundu, en ekki eru nema um 10 mánúðir frá því að Magni hóf að beita sér fyrir framgangi safnsins. Er ég þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri til að veita liðsinni mitt meðal annars með því leggja fyrir ríkisstjórnina tillögu um að hún sýndi hug sinn til framtaksins í verki með því að kaupa eitt verka Tryggva og gefa það safninu á þessari hátíðarstundu. Málverkið heitir Kronos og er gert á þessu ári. Fylgja gjöfinni innilegar hamingjuóskir til Tryggva og Magna í tilefni þessa merka dags. Þá óska ég íbúum Fjarðarbyggðar til hamingju með þessa nýju, skemmtilegu og einstæðu vídd í mannlífið hér.

Austfirðingar eignast nú enn eitt menningarsetrið og er ánægjulegt að það gerist á sama ári og við höfum ritað undir samstarf um menningarmál auk þess sem menningarráð Austurlands tekur til starfa. Hér hafa menn sýnt meiri skilning en annars staðar á gildi þess að vinna saman að því að styrkja forsendur menningarstarfs. Megi það bera góðan ávöxt á öllum sviðum.

Ég lýsi Málverkasafn Tryggva Ólafssonar í Neskaupstað opnað.