27.5.2000

Flakk - sýning í Norræna húsinu

Flakk
Norræna húsinu
27. maí, 2000.

Þegar ég var beðinn að segja nokkur orð við upphaf þessarar sýningar, datt mér í hug um 150 ára gömul vísa eftir Jónas Hallgrímsson:
Eg er kominn upp á það - allra þakka verðast - að sitja kyrr í sama stað, en samt að vera'að ferðast.

Listamennirnir, sem kalla okkur hingað í Norræna húsið á þessum fagra degi eru að bjóða okkur í ferðalag undir heitinu Flakk, og þeir gera það með því fyrirheiti, að hér getum við fyllst þeirri tilfinningu að vera bæði heima og að heiman.

Skemmtilegt er að nota orðið flakk yfir þessa gerð sýninga, þar sem við erum í senn að ferðast og kynnast ólíkum lisformum, málverkum, skúlptúrum, ljósmyndum, innsetningum og gjörningum.

Okkur er sagt, að áhorfandinn breytist í flakkara við að fara á sýninguna. Það orð hefur fremur neikvæða merkingu í íslensku, því að mönnum var löngum lítt um að sitja uppi með flakkara og í sögunum er þeirri mynd einnig brugðið upp af þeim, en þó einkum förukonum, að þær hafi komið illu af stað með söguburði og rógi.

Ég held, að við komum ekki hingað með hugarfari flakkarans við erum miklu frekar í sporum leitandans, komum í þeim tilgangi að kynnast því, sem er nýtt, opið og síbreytilegt. Veröld okkar er brotakennd, áreitið er úr mörgum áttum og þess er krafist, að við mótum okkur umgjörð úr þessum brotum til að njóta lífsins sem best.

Markmið sýningarinnar Flakk er einmitt að gefa okkur ákveðnar vísbendingar um mannlegt líf eða tilvist, sem við eigum að geta notað til að spinna sögu að okkar eigin vild.

Ég óska NIFCA, Norrænu samtímalistastofnuninni, til hamingju með að standa að þessari sýningu með Norræna húsinu. Stofnunin gegnir mikilvægu hlutverki innan Norðurlandanna og út á við ekki síður en Norræna húsið hér á landi, sem eitt og sér gefur okkur þá tilfinningu að vera bæði heima og að heiman.

Ég lýsi sýninguna Flakk opna.