16.3.2001

Gallerí i8 opnað á nýjum stað

3Gallerí i8,
16. mars, 2001.Ég færi Eddu Jónsdóttur innilegar hamingjuóskir með þá nýju og góðu aðstöðu, sem hún hefur skapað myndlistinni hér á þessum stað undir merkjum Gallerí i8. Við sem þekkjum Eddu vitum, að þessi húsakynni eru ekki aðeins umgjörð heldur er hér að finna hluta af henni sjálfri, án alúðar hennar og takmarkalauss áhuga værum við ekki hér í dag og þess vegna finnst okkur sérstaklega vænt um að fá að taka þátt í þessari athöfn með henni og fjölskyldu hennar.

Hnattvæðingin birtist okkur í ýmsum myndum og ég er alls ekki þeirrar skoðunar, að hún sé hættuleg okkur, sem búum í litlum menningarsamfélögum, af því að hin stærri eigi eftir að kúga okkur eða kæfa. Þvert á móti vil ég líta á björtu hliðina, það er þau tækifæri, sem gefast nú á öllum sviðum fyrir íslenska listamenn til að koma verkum sínum á framfæri.

Til að þessi tækifæri nýtist er ekki aðeins nauðsynlegt að eiga góða listamenn heldur þurfum við einnig að eiga frumkvöðla, sem fara nýjar leiðir og hika ekki við að opna nýjar dyr. Edda Jónsdóttir hefur ekki aðeins tekið að sér það hlutverk hér heima fyrir heldur einnig á alþjóðavettvangi.

Fyrir nokkru skrifaði Einar Guðmundsson í menningarblað Morgunblaðsins um þátt Íslands á 34. alþjóðlegu listakaupstefnunni í Köln síðastliðið haust. Þar segir hann, að Gallerí i8 í Reykjavík hafi greinilega uppfyllt öll þátttökuskilyrði og sýnt með prógrammi sínu, að það væri fyllilega gjaldgengt á þessum alþjóðlega vettvangi. Með þessu framtaki sínu væri Edda búin að rjúfa áratuga einangrun landsins á vissu sviði og þessi tilraun hennar mætti alls ekki misheppnast.

Menntamálaráðuneytið hefur fylgst með þessu brautryðjendastarfi Eddu og er ljóst, að henni hefur tekist það, sem hún ætlaði sér að ná fótfestu í þessum alþjóðlega heimi listmarkaðarins og aflað sýningartilboða fyrir það listafólk, sem hún kynnir.

Í þessu efni hefur Gallerí i8 ekki einskorðað sig við íslenska listamenn heldur sýnir einnig verk fólks af öðru þjóðerni eins og Karin Sander, sem á verkin á fyrstu sýningunni hér á þessum nýja glæsilega stað.

Ég veit, að Edda Jónsdóttir á með dugnaði sínum eftir að ná enn lengra á þeirri braut, sem hún hefur helgað sér með því að reka Gallerí i8. Um leið og ég ítreka heillaóskir mínar til Eddu, óska ég þeim myndlistarmönnum, sem eru í samstarfi við hana, til hamingju með að eiga svo öflugan málsvara.