1.2.2011

Utanríkisráðuneytið hundsar stjórnlög í ESB-bröltinu

Evrópuvaktin 1. febrúar 2011


Þriðjudaginn 25. janúar efndi fiskveiði- eða sjávarútvegsnefnd ESB-þingsins til opins fundar um íslensk sjávarútvegsmál og fiskveiðistefnu. Enn hefur ekki verið minnst á þann fund á vefsíðu utanríkisráðuneytisins sem er ætlað að upplýsa þjóðina um ESB-viðræðurnar. Þar er til dæmis hvorki unnt að nálgast ávarp Stefáns Hauks Jóhannessonar, formanns íslensku viðræðunefndarinnar, né ávarp Kolbeins Árnasonar, formanns íslenska viðræðuhópsins um sjávarútvegsmál. Síðasta efni sem birt er frá þeim hópi á vefsíðu utanríkisráðuneytisins er frá 24. september 2010.

Evrópuvaktin aflaði sér upplýsinga um þennan kynningarfund fyrir ESB-þingmenn á veigamesta viðfangsefni í viðræðum Íslands og ESB á vefsíðunni The Parliament, sem flytur fréttir af vettvangi ESB-þingsins.

Af frásögn The Parliament skýrist hvers vegna utanríkisráðuneytið hefur ákveðið að segja ekkert frá því sem gerðist á fundinum með ESB-þingmönnunum. Stefán Haukur greip það hálmstrá til að sanna ágæti sitt og íslenskra stjórnvalda í augum þingmannanna að vitna í skoðanakönnun Fréttablaðsins sem birt var mánudaginn 23. janúar og var túlkuð þannig af ESB-aðildarsinnum, að 65% Íslendinga vildu ljúka viðræðum við ESB og kjósa um niðurstöðuna.

Skoðanakönnunin var marklaus vegna aðferðafræðilegs galla. Ólíklegt er að nokkur hafi bent ESB-þingmönnunum á þá staðreynd. Það er hins vegar aukaatriði miðað við hitt að augljóst er af frásögninni í The Parliament að formaður íslensku viðræðunefndarinnar stóð ekki fast á rétti Íslendinga heldur vildi sannfæra ESB-þingmennina um markmið sitt að ná sameiginlegri niðurstöðu með ESB.

Málflutningur af þessu tagi stangast alfarið á við stefnu ráðherra þess málaflokks sem til umræðu var á kynningarfundinum. Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, er andvígur aðild Íslands að ESB. Fulltrúi íslensku ríkisstjórnarinnar hefði að sjálfsögðu átt að árétta þá skoðun. Hlutverk hans var að skýra ESB-þingmönnunum satt og rétt frá sjónarmiði íslenska sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherrans.

Spyrja má, hvort niðurstaða rannsóknarskýrslu um bankahrunið hafi algjörlega farið fram hjá þeim sem koma fram fyrir Íslands hönd gagnvart Evrópusambandinu. Líta starfsmenn utanríkisþjónustunnar ekki á sig sem hluta af þeirri stjórnsýslu þar sem einstakir ráðherrar bera ábyrgð á sínum málaflokkum? Telja þeir sig geta farið sínu fram á fundum á vettvangi ESB án tillits til stefnu þeirra ráðherra sem ábyrgðina bera?

Fjórtán þingmenn úr fjórum stjórnmálaflokkum hafa flutt tillögu um að ríkisendurskoðun fylgist náið með öllum útgjöldum vegna ESB-viðræðnanna og skýri þingheimi frá þeim. Hér með er skorað á þingmenn að kalla umboðsmann alþingis á vettvang til að leggja mat sitt á stjórnsýslu og ábyrgð vegna ESB-viðræðnanna. Ætla stjórnarflokkarnir að taka þá áhættu að allt ESB-bröltið verði dæmt ógilt vegna óvandaðra vinnubragða? Það rati þar með sömu leið og stjórnlagaþingsbröltið.