25.1.2011

Össur lagar norðurslóðastefnu að hagsmunum ESB

Evrópuvaktin 25. janúar 2011


Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, fór fyrstu ferð sína til Tromsö í Norður-Noregi og flutti þann boðskap 24. janúar að Íslendingar ætluðu að standa á rétti sínum sem strandríki á norðurslóðum. Þeir sættu sig til dæmis ekki við að utanríkisráðherra Íslands hefði ekki verið boðið að sitja fund í Kanada í mars 2010 með utanríkisráðherrum ríkjanna fimm sem eiga land að Norður-Íshafi.

Í ræðu sinni vék hann einnig að aðildarviðræðum Íslands við ESB og gekk að því sem vísu í orðum sínum að Íslendingar samþykktu að ganga í ESB. Össur sagði að aðild að ESB mundi ekki breyta stöðu Íslands þegar litið væri til stjórnmála og landafræði (geópólitíkur) á Norðurskautinu. Þvert á móti mundi hún styrkja framlag Íslendinga til norðurskautssamstarfs. Þeir mundu leggja sinn skerf af mörkum til stefnumörkunar ESB á Norðurskautinu og til að þróa trausta og skynsamlega afstöðu ESB til málefna norðurskautsins. Hann sagði: „Aðild Íslands mun auka nauðsyn þess fyrir ESB að taka tillit til norðurskautssvæðisins og Norður-Atlantshafs við mörkun og framkvæmd stefnu sinnar.“

Athyglisvert er að í þessum kafla ræðu sinnar hamrar Össur ekki á því að Ísland sé strandríki heldur lætur sér nægja að tala um hlut Íslendinga í stefnumótun innan ESB.

Hvers vegna þessi tvískinnungur í ræðu utanríkisráðherra Íslands? Annars vegar kröfugerð á hendur ríkjunum sem eru í Norðurskautsráðinu með Íslendingum um að Íslandi sé skipað í hóp þeirra sem eiga land að Norður-Íshafi, þótt landafræðin segi annað, hins vegar undirgefni gagnvart Evrópusambandinu.

Skýringin kann að vera sú að Össur telji stöðu Íslands í aðildarviðræðum við ESB styrkjast við að fyrir liggi viðurkenning norðurskautsríkja á stöðu Íslands sem strandríkis í Norður-Íshafi með vísan til stjórnmálalegra og landfræðilegra raka. Við þá viðurkenningu verði Ísland álitlegri biti fyrir Evrópusambandið.

Allt frá því að alþingi samþykkti aðildarumsókn Íslands og Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, tók við henni í júlí 2009 hefur boðskapur forystumanna ESB verið sá að Ísland sé álitlegt aðildarríki, af því að aðildin tryggi aðgang Evrópusambandsins að norðurskautssvæðinu og þátttöku í umræðum um nýtingu auðlinda þar og umhverfisvernd. Er þetta rauður þráður í ályktunum allra ESB-stofnana og ráða sem rökstyðja aðildarviðræðurnar við Ísland.

Af þessum ályktunum má ráða að ESB taki við hlutverki Íslands og verði strandríki í þessu samhengi eins og við ákvörðun um makrílkvóta í íslenskri lögsögu og nýtingu hans. ESB kemst ekki inn í strandríkjahópinn við Norður-Íshaf í gegnum Danmörku af því að Grænlendingar ákváðu 1985 að segja skilið við Evrópusambandið. Með aðild Íslands eygja forystumenn ESB von um að setjast að borði með fulltrúum ríkjanna fimm sem koma að því að skipta með sér yfirráðum á Norður-Íshafi. Pundið í Íslendingum léttist hins vegar ef þeim er haldið utan við hóp fimm ríkjanna.

Ræða Össurar Skarphéðinssonar í Tromsö er enn ein staðfestingin á því að utanríkisstefna Íslands tekur nú aðeins mið af því sem fellur að ESB-aðildarmarkmiðinu.