22.1.2011

Jóhanna leggur blessun yfir valdníðslu Össurar á Jóni Bjarna

Evrópuvaktin 22. janúar 2011


Í skýrslu rannsóknarnefndar alþingis um bankahrunið er nokkuð rætt um ábyrgð ráðherra. Augum er sérstaklega beint að stöðu Björgvins G. Sigurðssonar, viðskiptaráðherra, það er ráðherra bankamála. Af hálfu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, var Björgvini G. markvisst haldið frá fundum um vanda bankanna.

Björgvin G. fjallar um þetta í bók sinni Stormurinn sem kom út fyrir jólin. Hann nefnir til dæmis þá staðreynd að Ingibjörg Sólrún valdi Össur Skarphéðinsson og Jón Þór Sturluson, aðstoðarmann Björgvins G., til að fara í seðlabankann helgina örlagaríku þegar ákveðið var að ríkið eignaðist Glitni-banka. Jafnframt bað hún um að engum, þar á meðal Björgvin G., yrði sagt frá fundunum í seðlabankanum.

Að kvöldi þess dags sem þessi ráð voru ráðin hringdi Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi félagsmálaráðherra, í Björgvin G., sem segir í bók sinni „Hún [Jóhanna] átti engin orð yfir að forsætisráðherra skyldi ekki hafa kallað mig til eða upplýst um málið. Hann væri verkstjóri ríkisstjórnarinnar og bæri skylda til að halda utan um ráðuneyti sitt sem slíkt, óháð því úr hvaða flokki menn kæmu.

Jóhanna bókstaflega trúði því ekki að gengið væri fram með þessum hætti í jafnalvarlegu máli. Á öllum sínum langa og litríka ferli hafði hún ekki áður reynt slíkt og var þó ýmsu vön.“

Hvað sem vakti fyrir Jóhönnu með símtali hennar við Björgvin G. lýsir það ákveðinni afstöðu hennar til hlutverks forsætisráðherra. Hann eigi sem verkstjóri ríkisstjórnar að „halda utan um ráðuneyti sitt sem slíkt“ án tillits til þess hvort viðkomandi ráðherra sé í sama flokki og forsætisráðherrann.

Jóhanna Sigurðardóttir er nú forsætisráðherra. Í ríkisstjórn hennar gerist hið sama og lýst er hér að ofan. Jóni Bjarnasyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, er markvisst haldið frá ákvörðunum sem eru stjórnskipulega á hans ábyrgð.

Eins og fram kemur hér á Evrópuvaktinni hefur Össur Skarphéðinsson lagt svör Jóns við ákveðnum spurningum ESB til hliðar vegna ágreinings ráðherranna um efni þeirra. Össur ætlar sjálfur að semja svör við spurningum ESB um landbúnaðarmál, af því að hann óttast að skoðanir Jóns falli ekki í kramið í Brussel.

Þess verður hvergi vart að Jóhanna Sigurðardóttir haldi utan um ráðuneyti sitt á þann veg að hún leggi Jóni Bjarnasyni lið gegn valdníðslu Össurar Skarphéðinssonar. Viðbrögð Jóhönnu eru þvert á móti þau að ræsa embættismenn út að morgni sunnudags 16. janúar til að leggja á ráðinn um hvernig hraðast verði staðið að því að bola Jóni úr ráðherraembætti með sameiningu ráðuneyta.

Eftir kynni af dómgreindarskorti Jóhönnu Sigurðardóttur sem forsætisráðherra kemur þetta offors hennar ekki á óvart. Hitt er í raun enn sérkennilegra að aðförin að Jóni Bjarnasyni er gerð með vilja og vitund Steingríms J. Sigfússonar, formanns flokks Jóns.

Hafi oddvitar ríkisstjórnarinnar ekki þingflokka sína á bakvið sig þegar þeir grípa til þessara bolabragða má segja að litríkum stjórmálaferli Jóhönnu Sigurðardóttur ljúki á sögulegan ofríkishátt. Styðji þingflokkarnir hins vegar þessa framgöngu staðfestir það aðeins að stjórnarhættir versna stig af stigi og sífellt hraðar.