8.1.2011

ESB-undirróður innan Framsóknarflokksins

Evrópuvaktin 8. janúar 2011


Samfylkingin vill hafa ESB-varadekk til taks fari loftið úr einhverjum þingmanni vinstri-grænna, þótt hann segist hafa næga burði til að verja ríkisstjórnina vantrausti.

Eftir því sem rifrildið verður meira meðal vinstri-grænna þeim mun hærra verður eggjahljóðið í ESB-sinnuðum framsóknarmönnum. Hallur Magnússon, sem er gjörkunnugur innviðum Framsóknarflokksins, sagði á vefsíðu sinni 7. janúar að aðildarviðræður að Evrópusambandinu ættu ekki að trufla Framsóknarflokkinn sæti hann í ríkisstjórn, þótt þær trufluðu vinstri græna. Hallur telur, að framsóknarmenn geti gengið til samstarfs í ríkisstjórn með ESB-aðild á dagskrá hennar, því að „gildandi stefna flokksins hvað það varðar er skýr,“ eins og hann orðar það.

Hugleiðingar Halls eru gulls ígildi fyrir Samfylkinguna. Þær sýna að með ESB-stefnu sinni og ríkisstjórnarinnar tekst Samfylkingunni ekki aðeins að færa Íslendinga í átt til ESB-aðildar heldur nær hún einnig því markmiði að stuðla að klofningi í öðrum stjórnmálaflokkum.

Framsóknarmenn eru ekki á einu máli um ESB-stefnuna. Þeir sameinuðust hins vegar um eina stefnu fyrir tveimur árum þar sem sett voru ströng skilyrði fyrir því að gengið yrði til aðildarviðræðna við ESB. Má þar nefna þetta:

„Ísland verði sjálfstæður aðili að samningum um flökkustofna.“

Í þessu skilyrði felst í raun að Ísland verði áfram strandríki samkvæmt hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna þrátt fyrir aðild að ESB. Skyldu framsóknarmenn setja sem skilyrði fyrir setu í ríkisstjórn að ESB samþykki strax stöðu Íslands sem strandríkis?

Þá segir í ESB-skilyrðum framsóknarmanna:

„Í upphafi viðræðna verði gerður stöðugleikasamningur við Evrópska seðlabankann sem tryggi stöðugt gengi íslensku krónunnar þar til Íslendingar taka upp evru.“

Viðræður fulltrúa Íslands og ESB hófust í lok júlí 2010. Skyldu framsóknarmenn setja sem skilyrði fyrir setu í ríkisstjórn að Seðlabanki Evrópu gerði tafarlaust stöðugleikasamning við Seðlabanka Íslands?

Siv Friðleifsdóttir, Guðmundur Steingrímsson og Birkir Jón Jónsson, ESB-þingmenn Framsóknarflokksins, skulda umbjóðendum sínum og öllum landsmönnum svör við fyrrnefndum spurningum.

Furðulegt er að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, skuli ekki marka víglínu í ESB-málum gagnvart innrás Samfylkingarinnar inn í þingflokk framsóknarmanna. Eða er um tvo þingflokka framsóknarmanna að ræða? Er jafnilla komið fyrir Framsóknarflokknum og vinstri-grænum vegna ESB-undirróðursmanna Samfylkingarinnar?