14.10.2000

Yfirlitssýning Þórarins B. Þorlákssonar

Þórarinn B. Þorláksson
yfirlitssýning
Listasafn Íslands,
14. október 2000.Enn komum við saman á aldamótaári í því skyni að minnast tímamóta, að þessu sinni, að nú eru brátt 100 ár liðin frá því, að Þórarinn B. Þorláksson hélt fyrstu einkasýningu sína í Reykjavík og gerðist með henni brautryðjandi íslenskra listamanna, því að aldrei fyrr hafði verið efnt til slíkrar sýningar.

Hljómar þessi staðreynd einkennilega í eyrum okkar nútímamanna, sem komumst alls ekki yfir að sjá allar listsýningar í Reykjavík eða annars staðar á landinu, þótt við fegnir vildum kynnast hinni miklu grósku í íslenskri myndlist um þessar mundir, og okkur myndi ekki duga í því skyni að einskorða áhugann við Ísland, því að íslenskir myndlistarmenn gera nú garðinn frægan víða um heim. Er raunar ógjörningur að hafa yfirsýn yfir það allt en þó veit ég, að í þessum mánuði einum er opnuð sýning á verkum Errós í Hong Kong og á vatnslitamyndum Karólínu Lárusdóttur í London, og í Morgunblaðinu í morgun er greint frá því, að í vikunni hafi Hreini Friðfinnssyni myndlistarmanni verið afhent önnur alþjóðlegu verðlaunin á þessu ári við hátíðlega athöfn í Helsinki en þar í borg sýna þau Ragna Róbertsdóttir og Kristján Guðmundsson um þessar mundir.

Hvern hefði grunað fyrir 100 árum, að Þórarinn B. Þorláksson væri að stíga fyrstu skref á braut, sem svo margir íslenskir listamenn hafa fetað með góðum árangri síðan? Í samtíð sinni var hann ekki þekktastur sem listamaður heldur var hann kaupmaður, kennari og síðan skólastjóri.

Hið sama á við um Þórarin og marga samtímalistamenn okkar, að hann þykir ekki aðeins athyglisverður fyrir list sína á Íslandi, heldur höfðar til sýningargesta og listfróðra manna í öðrum löndum.

Vil ég sérstaklega þakka þeim, sem hafa stuðlað að því á undanförnum árum, að málverk Þórarins B. Þorlákssonar hafa verið með á norrænum samsýningum í ýmsum bestu sýningarsölum austan hafs og vestan. Hefur sérstakt gildi að fá mat á hinum íslenska brautryðjanda í því alþjóðlega ljósi, því að það auðveldar okkur að sjá upphaf íslenskrar myndlistar frá öðrum sjónarhóli en ella væri.

Í glæsilegri bók, sem gefin er út með stuðningi Íslenskra aðalverktaka hf. í tilefni af sýningunni, sem nú er að hefjast, segir Júlíana Gottskálksdóttir, forstöðumaður Listasafns Einars Jónssonar, að það sé ekki fyrr en í okkar samtíð með kynningu á verkum Þórarins á norrænum samsýningum víða um lönd, sem hann hlýtur óumdeilda listræna viðurkenningu, eða eins og Júlíana segir: „hefur það einkum verið á hinum stóru sýningum á norrænni aldamótalist víðs vegar um heim undanfarin tæp tuttugu ár sem verk hans hafa hlotið almenna athygli og verið sett í alþjóðlegt samhengi." Hefur athyglin meðal annars beinst að þeim einkennum norrænnar myndlistar, sem felst í huglægri túlkun á dulmagni náttúrunnar.

Síðasta yfirlitssýning á verkum Þórarins B. Þorlákssonar var haldin árið 1967 og við lítum verk hans öðrum augum núna en menn gerðu þá og skynjum þau með viðhorfi okkar til samtímans frekar en með hugarfari brautryðjandans, sem var í senn að skapa list sér til hugar hægðar frá öðrum störfum og til að árétta fyrir þjóð sinni ágæti eigin lands með fegurð náttúru þess.

Hundrað árum eftir að Íslendingar kynntust verkum Þórarins B. Þorlákssonar í fyrsta sinn á opinberri sýningu, er mikils virði að fá tækifæri til að sjá þau í heild enn á ný. Sönn list dofnar ekki með tímanum heldur endurnýjast með hverri nýrri kynslóð.

Ég óska Listasafni Íslands til hamingju með þessa merku aldamótasýningu og lýsi hana opna.