14.6.2011

Rógurinn um EES-samninginn – blekkingar ESB-aðildarsinna

Evrópuvaktin leiðari 14. júní 2011

Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og Jean Monnet-prófessor, settist á alþingi sem varamaður Marðar Árnasonar samfylkingarmanns í nokkra daga undir þinglok. Hann notaði tækifærið til að ófrægja EES-samninginn sem dugað hefur okkur Íslendingum vel í samskiptum við Evrópusambandið síðan 1994.

Baldur talaði eins og Íslendingar hefðu engin tök á að ráða neinu um efni þeirra laga sem af EES-samningnum spretta. Býsnaðist hann yfir því hve samningurinn væri ólýðræðislegur.

Þessi málflutningur er með ólíkindum. Flestir hugsandi menn svo að ekki sé talað um fræðimenn vita betur en fram kemur í málflutningi Baldurs Þórhallssonar.

Hér starfaði nefnd allra stjórnmálaflokka, Evrópunefnd, á árunum 2004 til 2007 og samdi skýrslu um tengsl Íslands og Evrópusambandið sem birtist í mars 2007. Í skýrslunni eru tekin af öll tvímæli um gildi EES-samningsins fyrir Ísland og fullyrt að hann hafi staðist tímans tönn. Þar er einnig bent á fjölmarga þætti í samskiptum Íslands og ESB undir hatti EES-samstarfsins sem íslensk stjórnvöld hafa ekki nýtt sér.

Utanríkisráðuneytið og alþingi létu hjá líða að hrinda í framkvæmd tillögum Evrópunefndarinnar sem hefðu stuðlað að aukinni virkni af hálfu Íslendinga og styrkt hagsmunagæslu þeirra undir merkjum EES.

Eftir kosningar í maí 2007 varð Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra með þá stefnu í farteskinu að Ísland ætti að ganga í Evrópusambandið. Hluti þeirrar stefnu er því miður að vanrækja tækifæri Íslands samkvæmt EES-samningnum og ráðast síðan á hann með rógi á borð við þann sem Baldur Þórhallsson flutti á alþingi. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra staðfesti í umræðum á þingi í síðustu viku að utanríkisráðuneytið sniðgengi EES-samninginn í samskiptum sínum við ESB.

Þessi ESB-stefna Samfylkingarinnar frá 2007 gengur gegn hagsmunum Íslands þegar hugað er að EES-aðildinni. Hún mótast af því að gera ekkert gagnvart ESB sem að mati Samfylkingarinnar er til þess fallið að styggja forráðamenn sambandsins í Brussel. Einmitt þess vegna er látið undir höfuð leggjast að gæta hagsmuna Íslands samkvæmt EES-samningnum.

Fréttir berast af því að Evrópusamtökin – svo nefnd já-hreyfing – í Noregi glími við mikinn vanda. Illdeilur eru innan dyra, fé skortir og félagsmenn. Paal Frisvold, formaður samtakanna, segir að ekkert fé fáist frá norskum ríkisfyrirtækjum til samtakanna af því að ríkisstjórn Noregs hafi ESB-aðild ekki á dagskrá. Sé þessu snúið upp á Ísland má segja: íslenskir embættismenn eru hættir að gæta hagsmuna Íslands samkvæmt EES af því að ríkisstjórnin hefur ESB-aðild á dagskrá.

Með því að hallmæla EES-samningnum á þingi leitaðist Baldur Þórhallsson við að blekkja þingheim og þjóðina í krafti þekkingar sem Jean Monnet-prófessor. Jean Monnet náði miklum árangri á árunum eftir stríð til að leiða Þjóðverja og Frakka til samstarfs. Honum hefði aldrei tekist ætlunarverk sitt með því að beita blekkingum. Rógurinn um EES-samninginn er liður í blekkingarleik ESB-aðildarsinna. Hann sýnir enn hve málstaður þeirra stendur á veikum grunni.