21.6.2011

Ísland lengra í ESB-vefinn án samningsmarkmiða

Evrópuvaktin 21. júní 2011
Fyrsta áfanga aðlögunar Íslands að Evrópusambandinu er lokið, tæknilegum samanburði sérfræðinga frá Íslandi og Evrópusambandinu á löggjöf í 33 efnisköflum aðlögunarviðræðnanna. Með EES-samstarfinu hafa Íslendingar þegar innleitt Evrópulöggjöf að öllu eða mestu leyti í 21 kafla. Á málefnasviðum utan EES, í sjávarútvegi, landbúnaði, byggða- og atvinnumálum og varðandi evrusamstarfið, hefur þessi rýnivinna leitt það í ljós sem á milli ber í löggjöfinni.

Íslenska utanríkisráðuneytið segir í tilkynningu 20. júní að rýnivinnan hafi gengið vel. Skilningur Evrópusambandsríkja á sérstöðu Íslands hafi aukist. Fulltrúar framkvæmdastjórnar ESB hafi „lokið lofsorði á fagmennsku íslenskra sérfræðinga á rýnifundunum“. Nú fari í hönd eiginlegar samningaviðræður Íslands og Evrópusambandsins. Þeim sé skipt eftir samningsköflum og verði fyrstu kaflarnir opnaðir á ríkjaráðstefnu í Brussel mánudaginn 27. júní nk. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra muni ávarpa ríkjaráðstefnuna fyrir Íslands hönd en fulltrúar ESB verði Janos Martonyi, utanríkisráðherra Ungverjalands , núverandi formaður í ráðherraráði sambandsins, og Štefan Füle, framkvæmdastjóri stækkunarmála ESB.

Herman Van Rompuy, forseti leiðtogaráðs ESB, flutti nýlega ræðu þar sem hann sagði að nú yrðu menn að taka til við að tala um Evruland, það minnti á úthverfapólitík og iðnaðarsvæði að tala um evru-svæðið. ESB og evran ættu undir högg að sækja en það mætti laga, til dæmis með því að tala um Evruland. Hann taldi síður en svo alla nótt úti fyrir þetta land því að Króatar yrðu brátt 28. þjóðin í því og síðan hefðu Serbar handtekið stríðsglæpamann sem færði þá nær aðild. Það væru huggun harmi gegn fyrir ráðamenn Evrulands í Brussel að nýjar þjóðir vildu ganga í klúbbinn.

Það vakti athygli ritstjóra vefsíðunnar EUobserver, sem hefur fingur á ESB-púlsinum í Brussel, að Van Rompuy minntist ekkert á Ísland og aðildarumsókn Íslendinga í ræðu sinni. Í frásögn á vefsíðunni er bent á að hann hafi líklega ekki viljað nefna hve mjög Íslendingar eru almennt andvígir aðild samkvæmt skoðanakönnunum.

Skiljanlegt er að ESB-menn í Brussel séu ekki mjög að hampa Íslendingum þegar þeir flytja áróðursræður um eigið ágæti og vinsældir. Í Brussel er mönnum ljóst að á Íslandi er gjá á milli þess sem gerist á rýnifundum sérfæðinga og áhuga Íslendinga á ESB-aðild.

Eftir rýniviðræður sérfræðinga hefði mátt ætla að þeir sem njóta umboðs almennings leiddu næstu lotu viðræðnanna við ESB, hinar „eiginlegu samningaviðræður“. Svo verður ekki. Embættismenn munu leiða viðræðurnar fyrir Íslands hönd. Ekki nóg með það, Stefán Haukur Jóhannesson, formaður íslensku viðræðunefndarinnar, segir mótun samningsmarkmiða í sínum höndum og níu manna nefndar sem hann stjórnar. Meirihluti hennar er skipaður embættismönnum undir stjórn tveggja samfylkingarráðherra, fjórir frá Össuri og einn frá Jóhönnu Sigurðardóttur.

Engin samningsmarkmið hafa verið mótuð vegna næstu lotu viðræðnanna við ESB. Stefán Haukur og félagar munu haga þeim á þann veg að ekki komi til opinbers ágreinings við ESB. Meginmarkmiðið er að draga Ísland sem lengst inn í ESB-vefinn áður en þjóð og þing koma frekar að málinu. Á meðan ríkisstjórn og þingmeirihluti láta sér þetta lynda heldur Samfylkingin sínu ESB-striki með liðsinni embættismanna hér og í Brussel.