4.6.2011

Leiðbeining til stjórnmálamanna

Viðtal í Sunnudagsmogga eftir Kolbrúnu Bergþórsdóttur

Björn Bjarnason hefur skrifað áhugaverða bók um Baugsmálið. Hann segir bókina eiga brýnt erindi í pólitíska samtíð okkar. Í viðtali ræðir Björn um Baugsmálið og áhrif þess máls. Hann víkur meðal annars að fjölmiðlamálinu og segir að þróunin hefði orðið önnur og betri hefðu aðhaldssjónarmið sigrað í því máli.

Ný bók Björns Bjarnasonar, Rosabaugur yfir Íslandi, skaust beint í efsta sæti metsölulista Eymundsson. Hið umdeilda Baugsmál sem kostaði harðvítugar deilur í mörg ár vekur því enn forvitni. Í þessari athyglisverðu bók er saga Baugsmálsins rakin, en af hverju ákvað dómsmálaráðherrann fyrrverandi að skrifa bókina?

„Strax og Baugsmálinu lauk var ég þeirrar skoðunar að það þyrfti að liggja fyrir yfirlit yfir það,“ segir Björn. „Ekki endilega yfir það sem gerðist í dómsalnum heldur það sem tengdist málinu utan hans. Ég taldi víst að ekki væri öllum ljóst hvernig málið væri í raun vaxið, að það snerist um meira en málaferlin sjálf. Ég hélt að yngri mönnum, blaðamönnum eða lögfræðingum, þætti spennandi að skoða málið og skrifa um það, en það gerðist ekki og fyrst ég hafði tíma þá ákvað ég að gera það sjálfur. Ég hafði mótað mér þá skoðun að undir hatti Baugsmálsins tengdust margir þræðir: stjórnmál, viðskipti, fjölmiðlun, réttarvarsla og staða embættismanns eins og dómsmálaráðherra. Ég skrifaði þessa bók til að sanna tilgátu mína, tengja þessa þræði.“

Einhverjir myndu kannski tala um þráhyggju í þessu sambandi. Hvað segirðu við því?

„Ég skrifaði þessa bók ekki af því að ég sé með málið á heilanum. Stundum hugsaði ég þegar ég rýndi í heimildirnar: Hvers vegna í ósköpunum er ég grufla í þessu? Ég lét þó ekki staðar numið og bókin er komin út og ég tel að það hafi verið þess virði og nauðsynlegt að skrifa hana. Hún á brýnt erindi í pólitíska samtíð okkar. Nú eru miklir umbrotatímar í stjórnmálum og viðskiptum auk þess sem unnið er að víðtækri rannsókn efnahagsbrota. Þessi bók fjallar ekki um Baugsmálið í þröngum skilningi heldur áhrif Baugsmálsins og bylgjurnar sem það sendi út í allt samfélagið.“

Þú varst dómsmálaráðherra á tíma Baugsmálsins og varst gagnrýndur fyrir að tjá þig um það opinberlega. Er þessi bók á einhvern hátt málsvörn þín?

„Mér finnst ég ekki hafa mikið að verja í þessu máli, sé bókin málsvörn er það fyrir aðra en mig. Ég dróst aðeins óbeint inn í málið fyrir orð sem ég lét falla í blaðagreinum, í viðtölum í útvarpi og á vefsíðu minni. Lögmenn Baugs sögðu að ég hefði farið yfir strikið og báru orð mín undir dómara en hvorki undirréttur, Hæstiréttur né mannréttindadómstóllinn í Strassborg tóku undir með þeim. Fyrir kosningarnar 2007 lögðu Baugsmenn mikið á sig til að koma mér út úr pólitíkinni. Jóhannes Jónsson gerði það meðal annars með birtingu auglýsingar þar sem sjálfstæðismenn voru hvattir til að strika mig út af lista í alþingiskosningum. Ætlunin var að bola mér úr stjórnmálum með því að beita mætti peninganna.“

Hefðir þú mátt orða hlutina öðruvísi?

„Það má alltaf orða hlutina öðruvísi. Kannski mætti einnig gagnrýna mig fyrir að hafa haldið mér of mikið til hlés. Það má alveg velta því fyrir sér hvort ég hafi veitt lögregluyfirvöldum nægilegan stuðning miðað við það hversu hart var að þeim sótt við rannsókn Baugsmálsins. Spurningin er: Gat ég gengið eitthvað lengra í stuðningi mínum við lögregluna? Hugsanlega, en hvar hefðu mörkin þá verið? Andrúmsloftið á þessum tíma var mjög einkennilegt.

Stjórnmálamenn verða ávallt að gæta orða sinna. Þegar sakamál eru annars vegar geta þeir fyrr farið yfir strikið en aðrir. Þessi bók er að hluta til leiðbeining til stjórnmálamanna um þau mörk sem þeir verða að virða. Það fer ekki framhjá neinum sem les bókina hversu rækilega forysta Samfylkingarinnar límdi sig upp við Baug á sínum tíma og hversu harkalega hún sakaði andstæðinga sína um annarleg sjónarmið í málinu. Spyrja má hvort svigrúm stjórnmálamanna til stuðnings lögregluyfirvöldum sé rýmra nú en fyrir hrun. Ekki er langt síðan ráðherrar héldu blaðamannafund og fögnuðu því að fésýslumenn hefðu verið handteknir og settir í gæsluvarðhald. Eru stjórnmálamenn sem það gera komnir yfir strikið? Ég tel að svo sé.“

Í bókinni birtirðu ekki tölvubréf og þú vitnar ekki í einkasamtöl. Hvarflaði aldrei að þér að gera það og lýsa einnig þínum tilfinningum á þessum tíma?

„Nei, því þá hefði ég farið út fyrir þann ramma sem ég setti mér. Það má segja að þessi bók sé ekki aðeins samfelld frásögn af risi og falli stórfyrirtækis heldur einskonar handbók og leiðarvísir fyrir þá sem vilja nota efni hennar til að greina samfélagsþróun eða skrifa meira um það. Aðrir sjá vafalaust aðra hlið á Baugsmálinu en ég og verða þá að skrifa aðra bók. Þá mætti vitanlega skrifa heila bók til dæmis um það sem gerðist árið 2004 þegar Ólafur Ragnar beitti í fyrsta sinn synjunarvaldinu og neitaði að undirrita fjölmiðlalögin.“

Hvað hefði farið öðruvísi ef forsetinn hefði ekki synjað fjölmiðlalögunum staðfestingar?

„Eitt af því sem réð úrslitum um að ég ákvað að ljúka við bókina var að ekki var minnst á Baugsmálið í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, eins og hefði þurft að gera í siðferðiskafla þeirrar skýrslu. Þar var talað um hugmyndafræði eftirlitsleysisins og látið eins og ekkert hefði verið gert af hálfu stjórnvalda. Þegar rætt er um bankahrunið segir fólk gjarnan: Hvar var aðhaldið? Hvar var eftirlitið? Hefði fjölmiðlafrumvarpið náð fram að ganga hefði það verið til marks um fyrirstöðu í þjóðfélaginu. Þá hefðu kannski verið settar skorður við ýmsu öðru og þá hefðu framámenn í viðskiptalífi ekki talið að hér væri þjóðfélag þar sem þeir gætu farið sínu fram og kæmust upp með það. Niðurstaðan í fjölmiðlamálinu varð til þess að skapa þá tilfinningu að stjórnmálamenn hefðu ekki roð við viðskiptavaldinu. Fjármálamenn hefðu undirtökin. Í fjölmiðlamálinu fóru þeir sem vildu aðhald halloka, aðhaldið varð því ennþá minna en ella hefði orðið. Þróunin hefði almennt orðið önnur ef aðhaldssjónarmið hefðu sigrað í fjölmiðlamálinu Um það getur enginn efast.“

Það slær mann mjög þegar maður les bókina hversu margir fullyrtu, án þess að geta sannað það, að lögreglan hefði gengið erinda stjórnmálamanns, Davíðs Oddssonar, í Baugsmálinu. Þetta eru mjög alvarlegar fullyrðingar, hvaða áhrif heldurðu að þær hafi haft?

„Þær voru mjög skaðlegar. Ég er alveg sannfærður um að þessar stöðugu árásir á ríkislögreglustjóra, saksóknara og á lögregluna sjálfa og mig sem dómsmálaráðherra höfðu áhrif á þá sem voru að eftirlitsstörfum annars staðar. Vildu þeir láta draga sig inn í svona harðvítugar umræður? Vildu þeir láta stilla sér upp að vegg og fá ásakanir um að vera útsendarar ákveðinna pólitískra afla? Nei, örugglega ekki.

Í kringum Baugsmálið myndaðist andrúmsloft sem smitaði frá sér inn í aðrar stofnanir. Nú sér enginn eftir þeim peningum sem fara í rannsókn sérstaks saksóknara og laun til þeirra sem vinna að þeim málum. Á tíma Baugsmálsins var illilega vegið að þeim sem rannsökuðu málið. Þá hneyksluðust menn á Alþingi færi ég fram á aukafjárveitingu til saksóknarans í Baugsmálinu. Það voru ekki bara Baugsmenn sem beittu sér, stjórnmálamenn og fjölmiðlar létu líka að sér kveða. Því miður hnignaði blaðamennsku mjög á Baugsárunum. Hér eru enn starfandi fjölmiðlamenn sem voru ekki síður virkir þátttakendur í Baugsmálinu en viðskiptamennirnir sem eru núna úthrópaðir. Það er ástæða til að velta því fyrir sér hvort þessir fjölmiðlamenn eigi meira erindi í almenna umræðu en viðskiptamennirnir í fyrirtækjarekstur.“

Viltu nefna einhver nöfn?

„Menn geta farið í nafnskrá bókarinnar.“

Ætlarðu að skrifa fleiri bækur?

„Mér finnst líklegt að ég geri það, ég hef gaman af því.“

Um hvað?

„Ég hef ekki gert það upp við mig. Ég þarf að skrifa um varnar- og öryggismál, um þær breytingar sem urðu hér á landi þegar kalda stríðinu lauk. Þá er efni í bók að fara yfir landsdómsmálið gegn Geir Haarde. Sá málatilbúnaður er hneyksli að mínu mati og víti til að varast. Loks mætti skrifa bók um Icesave, svo að eitthvað sé nefnt. Ég er ekki að segja að ég muni skrifa bækur um þessi mál, en ég held að samfélag okkar þurfi á bókum að halda þar sem ákveðin lykilefni eru tekin saman án þess að menn setji sig endilega í of fræðilegar stellingar. Hraðinn er svo mikill að auðvelt er að tapa áttum og þræðinum en hann er oftast nauðsynlegur til að leiða mál til skynsamlegra lykta og skilja strauma og stefnur í samfélaginu.“

Ætlarðu að skrifa ævisögu?

„Æ, ég veit ekki hvort taki því. Mér finnst skemmtilegra að fjalla um einstök málefni.“

Konsert í hlöðunni

Þótt þú sért ekki lengur í eldlínu stjórnmálanna þá fylgistu vel með stjórnmálum. Hvernig finnst þér staða Sjálstæðisflokksins nú um stundir og er Bjarni Benediktsson framtíðarleiðtogi flokksins?

„Bjarni er ungur maður sem á framtíðina fyrir sér. Icesave-málið þar sem hann lenti í andstöðu við meirihluta eigin flokks og allar þær sviptingar sem hafa orðið hér á undanförnum mánuðum hafa hins vegar valdið því að hann gengur í gegnum eldraun innan flokksins. Ég hef fulla trú á því að hann hafi vilja og burði til þess. Hins vegar finnst mér stjórnarandstaðan sem heild ekki nógu sterk í gagnrýni á ríkisstjórnina.“

Þú ert enginn aðdáandi ríkisstjórnarinnar.

„Það er skelfilegt að horfa upp á þessa lélegu ríkisstjórn. Þegar friður ríkir um mál reynir hún að stofna til ófriðar um þau, hvort sem það eru stjórnarhættir landsins eða sjávarútvegurinn. Fyrir utan þá vitleysu að reyna að koma þjóðinni inn í Evrópusambandið án þess að nokkur vilji það, nema einstaka sérvitringar.

Árásir Samfylkingarinnar á Sjálfstæðisflokkinn eru engu lagi líkar. Það er mjög ósanngjarnt að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að sitja undir ræðu eins og þeirri sem Jóhanna Sigurðadóttir flutti á flokksstjórnarþingi þar sem hún réðst á Sjálfstæðisflokkinn og talaði um lúðrablástur frjálshyggjunnar eins og hann hefði aðeins borist úr herbúðum flokksins. Ég er nýbúinn að skrifa þessa bók og veit vel hvernig Samfylkingin reyndi ítrekað að koma sér í mjúkinn hjá Baugsmönnum. Samfylkingin vildi sigla á milli Sjálfstæðisflokksins og útrásarvíkinganna til að veita þeim vörn gegn óvinum þeirra. Samfylkingunni væri nær að horfast í augu við eigin fortíð í Baugsmálinu í stað þess að beina spjótum að Sjálfstæðisflokknum.“

Hvernig finnst þér að vera farinn af vettvangi stjórnmálanna?

„Ég hafði gert það svo rækilega upp við mig að hætta að því fylgdi engin eftirsjá. Ég hef líka alveg nóg að gera.“

Þið hjónin eigið hús í Fljótshlíð, eyðir þú miklum tíma í sveitinni?

„Við Rut höfum komið okkur vel fyrir þar, en mér finnst ég aldrei vera þar nógu mikið. Núna um helgina, þegar þetta viðtal birtist, verður Rut með konsert í hlöðunni hjá okkur. Það verður gaman að sjá hvernig það heppnast. Við höfum verið með annan fótinn í Fljótshlíðinni í tæp tíu ár og líkar mjög vel. Þarna hef ég góða aðstöðu til að skrifa. Svo dytta ég að girðingum, slæ og raka, fer í réttir og göngur og spjalla við nágranna mína. Ég er stoltur af því að meira en 70 prósent íbúa á Suðurlandi voru á móti Icesave, það sýnir að þetta er skynsamt fólk.“