10.12.1995

Aðventuræða í Akureyrarkirkju

Ræða á aðventukvöldi í Akureyrarkirkju
10. desember 1995.

Ég þakka fyrir boðið um að koma hingað og ávarpa ykkur á aðventukvöldi. Akureyrarkirkja er meðal þeirra bygginga sem margir líta á sem tákn ekki aðeins fyrir Akureyri heldur glæsileika í íslenskri byggingarlist. Þannig segir um hana í bókinni Íslenzk bygging, sem fjallar um verk Guðjóns Samúlessonar: "Akureyrarkirkja er nálega eina guðshús í landinu, þeirra sem ekki hafa forna frægð að baki, sem hrífur hugi gesta á þann veg, að þangað streyma aðkomumenn, sem til bæjarins koma, til að njóta þess, sem þar er vel gert .... Má heita að allir .... innlendir menn og erlendir, felli sama dóm um fegurð og tign þessarar kirkju, sem breiðir djarfan og tígulegan faðm móti vegfarendum .... Ef Akureyringar halda áfram að hlynna að og fegra kirkju sína, eins og þeir hafa gert hingað til, getur hún, áður en langir tímar líða, keppt um fegurð og listrænan búnað við frægar kirkjur í suðurlöndum."

Þessi orð voru rituð fyrir tæpum 40 árum. Enn stendur hin fagra kirkja og breiðir faðm sinn móti vegfarendum. Hún minnir okkur þannig á fyrirheitið, sem felst í boðskap Krists, að þeir, sem til hans leita verði ekki yfirgefnir, heldur eigi hjá honum skjól og vissu um styrk.

Listfengi Guðjóns Samúelssonar birtist okkur í mörgum guðshúsum. Hann fer ekki alltaf troðnar slóðir og nýtir sér sérkenni íslenskrar náttúru, þegar hann vottar Drottni virðingu sína í húsagerðarlistinni. Við eigum fáar fornar minjar um það hvernig forfeður okkar lögðu rækt við trú sína. Fyrir skömmu vorum við þó minnt á þennan menningararf á glæsilegri sýningu Þorgerðar Sigurðardóttur grafiklistakonu í Gerðarsafni í Kópavogi. Þar bregður hún upp tréristum af því, hvernig hún lítur altarisklæðið frá fæðingarstað sínum Grenjaðarstað í Suður-Þingeyjarsýslu. Þetta altarisklæði er nú í Louvre-safninu fræga í París og þar eru sýnd tólf atvik úr æfi heilags Marteins. Klæðið frá Grenjaðarstað er gert í rómönskum stíl, sem mótaðist á 10.-12. öld og í blöndu suðrænna, keltneskra og germanskra hefða. Það er talið frá um 1400 en Paul Gaimard, franski læknirinn og vísindamaðurinn, flutti klæðið úr landi 1836 og hefur það síðan verið í Louvre.

Í tilefni af sýningu Þorgerðar Sigurðardóttur kom út lítil bók eftir Ólaf H. Torfason um heilagan Martein frá Tours, en ævi riddarans og dýrlingsins er einmitt lýst á altarisklæðinu frá Grenjaðarastað. Þegar við lesum þessa bók, erum við minnt á, að við getum ekki skilið samtímann til fulls nema standa föstum fótum í fortíðinni. Er ástæða til að hafa af því nokkrar áhyggjur, ef hraðinn og breytingarnar eru svo miklar, að við töpum áttum eða markmiði okkar.

Í gær rifjaðist upp, þegar Jólaóratoria Bachs var flutt í Hallgrímskirkju undir stjórn Harðar Áskelssonar, að í eina öld voru verk Bachs í glatkistunni. Það var ekki fyrr en tónskáldið Mendelsshon endurvakti list Bachs með því að flytja Mattheusarpassíuna að snilli Bachs varð öllum opinber. Hvar stæðum við, ef við hefðum aldrei fengið að kynnast Bach? Það er þó ekki fyrr en með dr. Páli Ísólfssyni á þessari öld, manni, sem við mörg hér munum af eigin kynnum, að Íslendingar fá fyrst að heyra tónlist eftir Bach flutta í landi sínu.

Eftir að múrinn hrundi í Þýskalandi og landið var sameinað að nýju fyrir rúmum fimm árum, getum við aftur ferðast frjáls um slóðir Bachs. Heimsótt fæðingarstað hans í Eisenach og Tómasarkirkjuna í Leipzig, þar sem hann starfaði á sínum tíma og Páll Ísólfsson einnig, nokkrum öldum síðar. Samhengi hlutanna er oft meira en við áttum okkur á við fyrstu sýn. Víki ég aftur að bókinni um heilagan Martein erum við þar til dæmis minnt á uppruna fornra siða og merkingu orða, sem við notum enn í dag, var hann þó uppi á fjórðu öld. Tvö dæmi vil ég nefna .

Í fyrsta lagi er það uppruni þess siðar, að hengja skeifu yfir dyr. Að það sé til heilla á rót sína í tignun heilags Marteins. Fólk hengdi skeifur á utanverðar dyr kirkna, sem voru helgaðar honum, eða yfir dyrnar sem tákn um loforð, heit eða ásetning. Bogi skeifunnar, sem er tákn himins, á að snúa upp en armarnir niður. Skeifa á hvolfi er hins vegar tákn hins illa. Marteinn var vegna þessa verndari skeifnasmiða.

Í öðru lagi vil ég nefna uppruna orðsins kapella. Þetta orð yfir lítil guðshús vísar til skikkju heilags Marteins. Kapella er myndað af latínuorðinu cappa sem merkir skikkja eða mötull og er því rótskylt orðinu kápa. Til skikkju Marteins má rekja helgi hans, því að hann var 18 ára heiðinn riddari í borgarhliðinu í Amiens í Frakklandi, þegar þar varð fyrir honum klæðalítill betlari. Riddarinn aumkaði sig yfir hann og sneið með sverði sínu helming af hermannaskikkju sinni og gaf betlaranum til hlífðar. Næstu nótt vitraðist Kristur Marteini í draumi með skikkjuhlutann og skildi Marteinn það sem skilaboð, um að hann ætti að gerast trúboði. Hann fékk nýtt markmið í lífi sínu.

Fyrsta myndin á Grenjaðarstaðarklæðinu lýsir einmitt þessum atburði. Skikkja heilags Marteins, cappa hans, var síðan geymd í höll Frakkakonungs og hlaut herbergið nafnið kapella. Festist það orð síðan í vestrænum tungumálum um lítil bænahús eða kirkju, en þeir, sem gættu skikkjunnar, voru nefndir kapellánar. Skikkja eða kápa er tákn verndar, María mey tekur fólk undir skikkjufald sinn. Traust tak með vinstri hendi um yfirhöfn er eitt einkenna Marteins.

Þannig getum við þrætt okkur í gegnum sögu heilags Marteins og annarra helgra manna, svo að ekki sé minnst á atburði, sem sagt er frá í Biblíunni, og fundið lykla að mörgu, sem við erum hætt að velta fyrir og tökum sem sjálfsagðan hlut. Eins og tónlist Bachs var mönnum falin í heila öld eftir dauða hans, leynast víða dýrgripir, einnig í samtímanum, sem síðari tíma menn eiga eftir að undra sig á, að við höldum ekki hærra á loft.

Í sögu þjóða eins og manna geta orðið þau þáttaskil, að þeir kasti frá sér fortíðinni eða vilji fela hana. Að þessu leyti eru sálræn áhrif hinna miklu stjórnmálasviptinga, sem orðið hafa í álfu okkar á síðari tímum, jafnvel erfiðari en hin efnalegu. Þótt sögulegur samanburður sé ávallt tvíræður má minna á, að við siðaskiptin var af mörgum gengið þannig til verks, að af of mikilli samviskusemi, ef ég má orða það svo, var reynt að uppræta hinn forna sið. Þar réðu ekki aðeins andlegir hagsmunir heldur einnig veraldlegir.

Með sögu heilags Marteins í huga getum við lúterstrúarmenn glaðst yfir því, að í minnum um hinn heilaga Martein gleymdu menn ekki Lúter, sem skírður var í höfuð á dýrlingnum og sögðu:

"Er hér innifalið að vér minnumst allra annarra andlegra feðra og forstjóra fríðrar Guðs kristni, blíðra biskupa, klerka og kennimanna utan lands og innan um allan kristindóminn, einkum þess merkilega guðsmanns Doctoris Martini Lutheri, hvern Guð uppvakti af djúpum villudómsins svefni, að kveikja það klára guðspjalls ljós hvert að nú geislar í guðsbarna hjörtum ...

Það er einmitt vegna þessa ljóss, sem við komum saman í kvöld, ljóssins, sem á að geisla í guðsbarna hjörtum.

Rómverski orðlistarmaðurinn og heimspekingurinn Seneca var uppi um svipað leyti og Jesús Kristur. Seneca sagði: Áætlanir okkar mistakast, af því að þær eru án markmiðs. Þegar maður veit ekki til hvaða hafnar hann stefnir, er engin vindátt hin rétta fyrir hann.

Þessi orð eiga ekki síður við núna en þegar þau voru rituð fyrir um tvö þúsund árum. Eins og svo margt annað minna þau okkur á þá staðreynd, að það eru fá ný sannindi, sem maðurinn glímir við varðandi eigin breytni og hugarástand, þótt allar aðstæður hans hafi breyst í aldanna rás vegna tæknilegra framfara og umbyltingar í atvinnu- efnahags- og menntamálum. Lítum nánar á það, sem felst í boðskap Seneca. Þar erum við einfaldlega minnt á, að án markmiðs næst enginn árangur. Það er því ekkert nýmæli, að öllum sé okkur nauðsynlegt að stefna að ákveðnu marki til að ná árangri í lífi okkar. Hitt er ekki heldur nýtt, að það kann að hafa í för með sér sáran lífsleiða að setja sér markmið, sem ógerlegt er að ná, eða byggist á röngu mati á sjálfum sér og eigin getu. Hvort tveggja er því greinilega varasamt, að vera án markmiðs eða setja markið svo hátt, að það náist aldrei.

Hugleiðing um þetta á erindi til okkar kristinna manna á aðventu. Þá er tími undirbúnings og eftirvæntingar vegna fagnaðarhátíðarinnar, sem tengist fæðingu frelsarans.

Seneca líkir lífi okkar við siglingu og segir enga vindátt nýtast, ef stýrimaðurinn veit ekki, til hvaða hafnar hann vill halda. Þessi líking er ekki fjarlæg okkur Íslendingum. Þegar við ræðum um eigin hag, er okkur tamt að tala um þjóðarskútuna. Hún er alloft stödd í brimgarði og ekki ósjaldan er hvatt til þess, að þjóðin öll taki á við lífróður.

Á sorgarstundum sannast, að áhöfn þessa eylands sameinast fljótt og hefur eina sál.

Við erum minnt á það í Jakobsbréfi, hve lítið þarf til að hafa stjórn á skipinu, ef vitað er, hvert stefna skuli, en Jakob segir: "Sjá einnig skipin, svo stór sem þau eru og rekin af hörðum vindum; þeim verður stýrt með mjög litlu stýri, hvert sem stýrimaðurinn vill." Þannig er unnt með einföldum hætti að breyta um stefnu, ef réttum aðferðum er beitt og stýrimaðurinn veit, hvert hann á að fara.

Þeir, sem námu fyrstir land á Íslandi, höfðu ekki traustari leiðarmerki, en þau, sem þeir sáu á himnum. Eitt helsta tákn jólanna er einmitt stjarnan. Við sjáum hana blika yfir fjárhúsinu og jötunni. Það var stjarnan, sem leiddi vitringana þrjá, fulltrúa hins veraldlega valds og ríkidæmis, til jólanna í Betlehem.

Hvar er hinn nýfæddi Gyðingakonungur? spurðu vitringarnir þrír, þegar þeir komu til Jerúsalem, og sögðu síðan: "því að vér höfum séð stjörnu hans austan frá og erum komnir, til þess að veita honum lotningu." Stjarnan var ekki aðeins til leiðsagnar vitringunum heldur var hún fyrirboði um leiðsögnina, sem Kristur hefur verið alla daga síðan.

Vitringarnir spurðu um hinn nýfædda Gyðingakonung. Síðar spurði Pontíus Pílatus á ögurstundu: Ert þú konungur Gyðinga? Jesús svaraði, að hann væri konungur en sitt ríki væri ekki af þessum heimi, heldur væri hann til þess fæddur og til þess hefði hann komið í heiminn, að hann bæri sannleikanum vitni: "Hver sem er sannleikans megin heyri rödd mína," sagði hann.

Með spurningunni um konung Gyðinga við fæðingu Jesús og þegar hann stóð frammi fyrir Pílatusi er kallað fram svarið, sem fyllir okkur kristna menn fullvissu í trúnni - hver sem er sannleikans megin heyri rödd mína. Þetta er hið mikla fyrirheit, sem veldur því, að kristinn maður getur aldrei verið án markmiðs.

Góðir áheyrendur!

Í nýlegri ræðu á hátíð 1. desember á vegum stúdenta í Háskóla Íslands lýsti Matthías Johannessen, skáld og ritstjóri, áhyggjum sínum vegna stöðu íslenskrar tungu og menningar í ólgusjó samtíðarinnar. Hann komst þannig að orði, ef ég man rétt, að fyrirheit fortíðar ætti að vera okkur til leiðsagnar á framtíðarbraut. Í þessari þversögn felst mikill sannleikur. Um leið og við setjum okkur markmið og stefnum ótrauð að því, megum við ekki tapa fótfestunni. Án hennar höfum við enga viðspyrnu.

Guðjón Samúelsson notar svipmót stuðlabergshamra á Akureyrarkirkju. Þeir móta faðm kirkjunnar. Hann er opinn öllum, sem til hennar snúa sér. Við byggjum hús okkar á bjargi, ef við hlúum að hinu besta úr fortíð, þegar við göngum djarfhuga á móts við nýja óvissa tíma.