6.12.1995

Jólatré í Þjóðminjasafni

Ávarp í Þjóðminjasafninu
6. desember 1995.

Kveikt á jólatré.

Þjóðminjasafnið hefur sýnt lofsvert frumkvæði með því að efna til þessarar athafnar hér hinn 6. desember, Nikulásmessu, ár hvert. Í hinu opna alþjóðlega umhverfi er mikilsverðara en ella að leggja rækt við garðinn sinn, til þess að geta betur nýtt sér þau tækifæri, sem alls staðar eru í boði. Með því að minna á íslenskt jólahald fyrr á öldum, rifja upp sögur um íslenska jólasveina og blása nýju lífi í þá er verið að leggja rækt við íslenskan menningararf.

Séum við spurð um menningarstig þjóða, getum við ekki látið við það eitt sitja að tíunda nútímastofnanir eins og leikhús, sínfóníuhljómsveit, óperu eða dansflokk. Við verðum að líta til þeirra sérkenna í lífi þeirra, sem hafa sett svip sinn á þær um aldir og sköpunargáfu þeirra. Oft verða þá fyrir okkur atvik, persónur, eða atriði, sem ekki verða auðskilin af annarra landa mönnum, en eru um leið sérkenni viðkomandi þjóðar.

Framtak Þjóðminjasafnsins hefur minnt okkur á sérstöðu íslensku jólasveinanna og foreldra þeirra, Grýlu og Leppalúða. Nú á þessum vetri gerist það síðan, að Hveragerði hefur verið breytt í jólabæ meðal annars í því skyni að auka enn veg íslensku jólasveinanna í samvinnu við Þjóðminjasafnið. Þótt þeir njóti liðsinnis Sankti Kláusar, er ljóst, að nú er hafin sókn íslensku jólasveinanna út á alþjóðlegan samkeppnismarkað og má því með sönnu segja, að útrás okkar Íslendinga einkennist af miklu hugviti.

Á mánudag var ég í Kaupmannahöfn og rakst þá á eindálka frétt á forsíðu Berlingske Tidende, sem er eitt af virðulegu stórblöðunum í Danmörku. Fyrirsögnin á fréttinni var: Jólasveinninn á Íslandi - og textinn á þessa leið: Leyndarmál upplýst á Íslandi: Jólasveinninn á heima í bænum Hveragerði á suður-Íslandi, þar sem hann getur notið hverahita, af því að hann er gigtveikur. Með þessu munu Íslendingar hafa gengið á hólm við þá, sem halda, að jólasveinninn búi á Grænlandi. Við Finna, sem segja, að hann búi í Rovaniemi í Finnlandi. Og við Svía, sem segja jólasveininn búa í sænska hluta Lapplands. Norðmenn eru einnig sárir. Þeir segja, að karlinn búi í Drøbak við Oslóarfjörð.

Er augljóst af þessari frétt, að alls ekki þykir lengur ámælisvert að vera líkt við jólasvein. Þvert á móti keppast menn við að eigna sér hann. Enginn tekur þó íslenska jólasveininn frá okkur.

Mér var ljúft að verða við ósk Lilju Árnadóttur, um að koma hingað í dag og kveikja á þessu fallega jólatré. Undan því verður ekki vikist, að allur desember er að breytast í jólamánuð í orðsins fyllstu merkingu. Miklu skiptir, að í öllu umstanginu gleymum við ekki tilefninu, fæðingu Jesús Krists og hinu mikla fyrirheiti, sem í henni felst fyrir okkur öll.

Jólaljósin eru okkur tákn öryggis, birtu og hlýju og stjarnan minnir okkur á ljósið, sem lýsti vitringunum þremur leiðina til barnsins í jötunni.