Ávarp á 50 ára afmæli Gideonfélagsins
Ávarp Björns Bjarnasonar, menntamálráðherra
á 50 ára afmæli Gideonfélagsins á Íslandi
30. ágúst 1995.
Ég vil þakka þann heiður að fá að ávarpa ykkur hér í kvöld á 50 ára afmæli Gideonfélagsins á Íslandi. Ég lít á þetta sem heiður, því að ég var í hópi fyrstu skólabarnanna, sem fengu Nýja testamentið afhent sem gjöf frá félaginu fyrir um það bil fjörutíu árum. Enn er þetta eintak mér handhægt og líður varla sá dagur, að ég líti ekki í það.
Í þann mund sem ég var að búa mig undir að taka þessi orð saman, barst mér tölvubréf með þessum texta:
Á námskeiði Samtaka móðurmálskennara í Skálholti dagana 14.-18. ágúst 1995, "Biblían og bókmenntirnar", urðu móðurmálskennarar þar á einu máli um að talsvert vanti á að íslenskir unglingar þekki texta Biblíunnar svo sem vert væri.
Þar sem Biblían hefur öldum saman verið einn af hornsteinum íslenskrar bókmenningar er þekking á texta hennar mjög oft forsenda fyrir skilningi á öðrum textum.
Skyldunámi skólanna er m.a. ætlað að miðla menningararfi þjóðarinnar til ungu kynslóðar-innar og því er hvatt mjög til þess að þessum mikilvæga þætti sé sinnt á þeim vettvangi."
Undir þetta ágæta bréf ritar Sveinbjörg Sveinbjörnsdóttir, formaður Samtaka móðurmálskennara og var ályktun sama efnis send biskupi Íslands.
Hafi ég einhver tök yrði mér mjög ljúft að stuðla að frekari þekkingu íslenskra unglinga á texta Biblíunnar. Þetta er ekki aðeins brýnt vegna hins bókmenntalega gildis heldur og ekki síður vegna hins fagra kristna boðskaps, sem í Biblíunni er að finna.
Ég sé af hinni ágætu sögu Gideonfélagsins, sem sr. Sigurður Pálsson hefur skráð í tilefni hálfrar aldar afmælisins, að ég hef verið í fyrstu árgöngum skólabarna, sem fengu Nýja testamentið að gjöf frá félaginu. Fremst í mínu eintaki er þess getið, að markmið félagsins sé að vinna að útbreiðslu fagnaðarboðskaparins um Krist, einkum með því að dreifa Heilagri Ritningu og einstökum ritum hennar sem víðast.
Þar er einnig að finna þetta fyrirheit úr síðara bréfi Páls til Tímóteusar:
"Halt þú stöðuglega við það, sem þú hefur numið og fest trú á ... þar eð þú frá blautu barnsbeini þekkir Heilagar Ritningar, sem geta veitt þér speki til sáluhjálpar fyrir trúna á Krist Jesú."
Þetta er fagurt fyrirheit og þökk sé þeim, sem brýnir það sérstaklega fyrir íslenskri skólaæsku. Nú liggur fyrir, að flestir Íslendingar 10-52 ára hafi fengið Nýja testamentið að gjöf frá Gideon-félögum. Segir Sigurður Pálsson í bók sinni, að Ísland sé eina landið í heiminum, þar sem Gideonfélög starfa, að þessum árangri hefur verið náð.
Tileinki menn sér það, sem í þessari gjöf felst, er það ekki aðeins til þess fallið að veita lífi þeirra sjálfra meira gildi heldur stuðlar einnig að betra þjóðfélagi. Minnumst þeirrar staðreyndar, sem fram kemur í bréfi Samtaka móðurmálskennara, að Biblían og boðskapur hennar er sem betur fer hluti af menningararfi íslensku þjóðarinnar.
Í huga allra Íslendinga er nafn Gideonfélagsins tengt Biblíunni. Markmið félagsins er þó ekki það eitt að dreifa hinni helgu bók heldur er megin- tilgangurinn að vinna karla og konur fyrir Drottin Jesú Krist.
Á þessum tímamótum læt ég þá ósk í ljós, að Gideonfélagið megi halda áfram að blómstra og dafna um langan aldur og því vegni sem best við að ná markmiði sínu. Hið góða starf, sem félagið hefur unnið, ber dugnaði félagsmanna fagurt vitni. Sé þeim þökk fyrir starf sitt, sem unnið er með Guðs blessun.