16.11.1996

Ávarp við upphaf málræktarþings

Ávarp við upphaf málræktarþings
16. nóvember 1996

Fyrir réttu ári samþykkti ríkisstjórnin tillögu mína þess efnis, að framvegis yrði 16. nóvember, fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar, dagur íslenskrar tungu. Er hann því haldinn hátíðlegur í fyrsta sinn í dag. Af því sem ég fæ ráðið af undirtektum sýnist mér framtakið vel metið og um land allt koma menn saman í dag til að minnast Jónasar og strengja þess heit að leggja rækt við tungu okkar, verkfærið, sem okkur Íslendingum er mikilvægast sem þjóð, því að ekkert tæki sameinar okkur fremur en móðurmálið mitt góða.

Ég fagna því, að Íslensk málnefnd skuli efna hér til þessa málræktarþings um stöðu tungunnar og til að glíma við spurninguna um það, hvort Íslendingar séu að verða tvítyngdir.

Í snjallri stuttri ritgerð um íslenska tungu á árinu 1953 segir Kristján Albertsson, að íslensk tunga hafi ekki orðið til á Íslandi og hefði aldrei getað skapast sem mál fámennrar og strjálbýllar fiskimanna- og bændaþjóðar á fremur hrjóstugri eyju norður undir heimskauti. Tungan hafi verið mál allra norrænna manna á löngu skeiði vaxandi veraldlegrar og andlegrar menningar, stórþjóðamál að auði og magni og rammefldri braglist. Málið hafi hafið þjóðina yfir þá vonlausu smáþjóðamennsku, sem orðið hefði hlutskipti hennar með veigaminni tungu á vörum.

Okkur er hollt að rifja upp þessi orð Kristjáns Albertsonar, þegar við göngum til þessa málræktarþings. Alúð við tunguna er rækt við þann menningararf, sem hefur eflt þjóðinni kjark um aldir og er forsenda þess, að tilefni þykir til að hér búi sjálfstæð þjóð.

Enn blasir við okkur að halda íslenskunni við sem stórþjóðamáli, þótt við séum fámennir. Takist okkur það verður hún áfram verkfærið, sem dugar Íslendingum best í baráttu þeirra fyrir eigin tilvist.