2.11.2010

„Hundsbit“ Össurar

Evrópuvaktin 2. nóvember 2010 - leiðari




„Verra en hundsbit“ segir Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, í Morgunblaðinu 2. nóvember, þegar hann er spurður um fylgistapið sem blasir við ríkisstjórn og stjórnarflokkunum tveimur í október-skoðanakönnun Gallups. Ríkisstjórnin nýtur stuðnings 30% aðspurðra og stjórnarflokkarnir fá um 18% stuðning hvor eða samtals 36% stuðning. Stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, nýtur hins vegar einn 36% stuðnings. Eins og við var að búast gefur Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formaður vinstri-grænna, ekki mikið fyrir það í samtali við Morgunblaðið.

Báðir segja þeir Össur og Steingrímur J. (Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra lét auðvitað ekki ná í sig og Hrannar B. Arnarsson, aðstoðarmaður, þegir) að stjórnin hafi kynnt óvinsælar fjárlagatillögur en þeim detti ekki í hug að láta stjórnast af skoðanakönnunum – og þó. Össur segir:

„Hitt er jafnljóst, að auðvitað verður ríkisstjórn að bæta úr ef henni hafa orðið á mistök. Þjóðin hefur rækilega sýnt fram á að henni þykir ríkisstjórninni hafa orðið á mistök í aðgerðum varðandi niðurskurð í heilbrigðismálum. Þá verðum við sem í henni sitjum að skoða rækilega hvernig hægt er úr að bæta. Við verðum sem ríkisstjórn að hlusta, og þyki mönnum ósanngjarnt að farið, eins og þeim þykir klárlega varðandi heilbrigðisgeirann, þá verður að bæta úr því þannig að þjóðin verði sáttari við þann niðurskurð. Jafna hann betur. Og menn eru að skoða það þessa dagana.“

Án þess að lítið sé gert úr vanda ríkisstjórnarinnar vegna illa ígrundaðra tillagna hennar um niðurskurð í heilbrigðiskerfinu, hefði verið skynsamlegra fyrir utanríkisráðherra að líta sér nær. Fjárlagatillögurnar eru ekki hið eina sem hefur borið hátt í umræðum undanfarnar vikur. ESB-aðlögunarferlið hefur ekki síður verið til umræðu. Össur Skarphéðinsson hefur meðal annars ritað nokkrar blaðagreinar um það mál og taldi sig hafa himin höndum tekið, þegar hann fékk stuðning frá Evu Joly, ESB-þingmanni og forsetaframbjóðanda í Frakklandi.

Áður en ESB-aðildarumsóknin var samþykkt á alþingi 16. júlí 2009 og í baráttunni fyrir þingkosningarnar 25. apríl 2009 hélt Össur Skarphéðinsson því blákalt fram að ákvörðunin ein um að senda inn aðildarumsókn til ESB mundi styrkja þjóðarhag vegna meiri festu í efnahagsmálum. Nú í október á sama tíma og Gallup kannaði hug fólks til stjórnmálaflokka og ríkisstjórnar skrifaði Össur nokkrar greinar í þessum sama dúr. Hann nefndi evrópsk smáríki til sögunnar sem hefðu þá fyrst tekið að blómstra efnahagslega eftir að þau fóru í ESB. Með aðildarstefnu sinni væri hann að leggja grunn að 30.000 nýjum störfum á Íslandi.

Eftir því sem Össur talar meira í þessum dúr þeim mun meira fylgi fellur af ríkisstjórninni og Samfylkingunni, svo að ekki sé minnst á áhuga þjóðarinnar á að ganga í ESB. Hér skal því haldið fram að full ástæða sé fyrir Össur að huga að fleiru en heilbrigðismálunum, þegar hann leggur mat á ástæður þess að hann hefur nú orðið fyrir því sem hann kallar „verra en hundsbit“.