20.11.2010

Ný grunn­stefna NATO - söguleg sátt í íslenskum utanríkis- og öryggismálum

Evrópuvaktin 20. nóvember 2010 - leiðari
Leiðtogar ríkja Atlantshafsbandalagsins (NATO) samþykktu á fundi í Lissabon 19. nóvember nýja grunnstefnu (strategic concept) bandalagsins, þar sem þeir lýstu eindregnum vilja til þess að NATO héldi áfram að gegna einstæðu og mikilvægu hlutverki sínu til að tryggja sameiginlegar varnir og öryggi. Í ályktun sinni segja leiðtogarnir að þessi stefna muni ráða næsta áfanga í þróun NATO til að það skipti áfram máli á tímum breytinga í heiminum gegn nýjum ógnum.

Í grunnstefnunni er áréttuð varnartengsl milli bandalagsþjóðanna, þau muni sameiginlega verjast hvers konar árás. Þá mun NATO láta að sér kveða til að koma í veg fyrir spennuástand, ná tökum á deilum og koma á stöðugleika í kjölfar átaka. Bandalaginu er ætlað að starfa nánar en áður með alþjóðlegum samstarfsaðilum, einkum Sameinuðu þjóðunum og Evrópusambandinu.

Leiðtogarnir bjóða samstarfsaðilum NATO um heim allan meiri pólitísk tengsl en áður við bandalagið og þátttöku í að móta framkvæmd þeirra aðgerða sem NATO stjórnar og þar sem þeir eru þátttakendur.

NATO stefnir að því að skapa aðstæður fyrir kjarnorkuvopnalausa veröld, en áréttar að NATO verði kjarnorkubandalag svo lengi sem einhver kjarnorkuvopn séu í heiminum. Í samræmi við þessa meginafstöðu til kjarnorkuvopna ákváðu leiðtogar NATO-ríkjanna í fyrsta sinn í sögu bandalagsins að styðja áform um að koma upp eldflaugavarnakerfi sem veitti Evrópuríkjum og ríkjum Norður-Ameríku skjól.

Þetta er í þriðja sinn í rúmlega sextíu ára sögu NATO sem ríkin, - að þessu sinni 28 en 12 í upphafi1949,- koma sér saman um grunnstefnu bandalagsins. Síðast var sambærileg samþykkt gerð á 50 ára afmælisári NATO, 1999.

Grunnstefnan treystir NATO enn í sessi sem lykiltæki aðildarríkjanna í öryggis- og varnarmálum, þrátt fyrir að hættan sem NATO-þjóðunum steðjar sé allt önnur nú en áður. Þannig hefur áherslan á varnir á Norður-Atlantshafi breyst enda segir í grunnstefnunni að litlar líkur sé á að ráðist verði á yfirráðasvæði ríkjanna með hefðbundnum vopnum.

Þótt einstök aðildarríki NATO búi sig undir breytingar á norðurslóðum vegna hlýnunar jarðar. ætlar NATO ekki að láta að sér kveða á þessum slóðum. Vill bandalagið líta á norðurslóðir sem lágspennusvæði og ekki hafa neitt frumkvæði að því að breyta þeirri stöðu með sameiginlegum aðgerðum í sínu nafni. Verður þetta til að efla tvíhliða og svæðisbundna samvinnu ríkjanna á norðurslóðum enn frekar.

Ríkisstjórn Íslands stendur að þessari grunnstefnu NATO og Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, tók þátt í Lissabon-fundinum því til staðfestingar. Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, hefur sagt fulltrúa Íslands hafa verið virka þátttakendur í mótun grunnstefnunnar, þótt þeir hafi ekki fengið allt samþykkt, sem þeir báru fyrir brjósti. Vísar hann þar til áherslunnar á norðurslóðir. Kanadamenn hafa hins vegar viljað halda afskiptum NATO í lágmarki.

Þátttaka af Íslands hálfu í þessu stefnumótandi starfi innan NATO er í samræmi við utanríkisstefnuna sem mótuð var með stofnaðild Íslands að bandalaginu árið 1949. Í ljósi deilna um þá ákvörðun er í raun stórviðburður í stjórnmálala- og utanríkissögu þjóðarinnar, að fyrsta „hreinræktaða“ vinstri stjórn landsins skuli standa að baki samþykktarinnar í Lissabon.

Nú hafa öll stjórnmálaöfl Íslands skuldbundið sig til að vinna að sameiginlegum markmiðum NATO, meira að segja því að koma upp eldflaugavörnum.

Það er til marks um söguleg sátt í íslenskum stjórnmálum þegar þessi áfangi næst á sviði utanríkis- og öryggismála.