30.11.2010

Utanríkis­ráðuneytið traðkar á rétti landbúnaðar­ráðherra

Evrópuvaktin30. nóvember 2010 - leiðari

Þegar vitað er um andstöðu Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, við ESB-aðlögunarviðræðunar er forkastanlegt að embættismenn í utanríkisráðuneytinu ætli að taka sér fyrir hendur að ræða við ESB um landbúnaðarmál. Embættismenn landbúnaðarráðuneytisins hafa ekkert umboð frá ráðherra sínum og eru þess vegna marklausir í viðræðunum.

Hér á Evrópuvaktinni var 29. nóvember sagt frá mikilli reiði meðal forystumanna Bændasamtaka Íslands (BÍ) vegna ummæla Stefáns Hauks Jóhannessonar, sendiherra og formanns viðræðunefndar Íslands við ESB, um að afstaða „bænda geti skaðað samningsstöðu Íslands“ eins og sagði á vefsíðunni visir.is 29. nóvember.

Á þennan hátt vill Stefán Haukur reyna að breiða yfir djúpstæðan ágreining sem er innan ríkisstjórnarinnar um ESB-aðildarviðræðurnar. Staðreyndin er sú, að Jón Bjarnason, sem ber stjórnskipulega ábyrgð á landbúnaðarmálum gagnvart ESB, vill ekki leggja neitt af mörkum til ESB-viðræðnanna. Hann er einfaldlega andvígur þeim.

Með orðum sínum veldur Stefán Haukur Jóhannesson tvíþættu tjóni:

  • Í fyrsta lagi hefur hann forystumenn BÍ fyrir rangri sök og ýtir enn frekar undir andstöðu þeirra við að hafa afskipti af ESB-málum undir forystu hans og utanríkisráðuneytisins.
  • Í öðru lagi leitast hann við að blekkja viðmælendur sína hjá ESB. Hann vill láta gagnvart þeim eins og vandi hans í landbúnaðarmálum stafi af tregðu innan BÍ, þegar um hitt er að ræða, að viðkomandi íslenskur ráðherra vill ekkert að málinu koma. Viðræðunefndina skortir því hið stjórnskipulega umboð.

Utanríkisráðuneytið er staðið að margþættri blekkingarstarfsemi í kappsemi sinni við að troða Íslandi inn í Evrópusambandið. Hér bætist enn eitt dæmið í það safn.

Forystumenn Bændasamtaka Íslands hafa skýrt afstöðu sína. Þeir vilja ekki taka þátt í þessum blekkingarleik undir forystu utanríkisráðuneytisins. Vegna þess sæta þeir ómaklegum árásum af hálfu formanns viðræðunefndar Íslands.

Viðræðum við Evrópusambandið um íslensk landbúnaðarmál hlýtur að vera sjálfhætt, ef sá ráðherra á Íslandi, sem ber stjórnskipulega ábyrgð á málaflokknum, vill ekki að málið sé rætt. Bændasamtök Íslands koma aldrei í stað landbúnaðarráðherra, þótt Stefán Haukur Jóhannesson, formaður viðræðunefndar Íslands við ESB, sýnist álíta það.

Spyrja má: Telja embættismenn utanríkisráðuneytisins sér ekki skylt að fara að íslenskum stjórnskipunarlögum ? Telja þeir yfirþjóðlegt vald ESB þegar komið til sögunnar? Í skjóli þess geti þeir farið sínu fram og traðkað á þeirri verkaskiptingu sem mælt er fyrir um í stjórnarskrá og stjórnlögum Íslands?