10.5.2010

Inga Þorgeirsdóttir - minningarorð


Þakklæti er efst í huga, þegar ég kveð Ingu, tengdamóður mína. Minningin um kynni okkar árin 45, síðan ég tengdist henni fjölskylduböndum, er ljúf og björt. Gleði Ingu og umhyggja varpaði ávallt birtu yfir stundirnar, sem við áttum saman. Bjartsýni hennar, æðruleysi og góðmennska hefur orðið börnum okkar Rutar góð fyrirmynd.

Þegar ég tók, fyrstur tilvonandi tengdasona, að leggja leið mína á heimili Ingu við Hofteiginn, tókst hún á við verkefni, sem mörgum hefði orðið ofviða. Þá hvíldi heimilið og framtíð fimm dætra á hennar herðum. Aldrei sá ég henni þó bregða vegna þess. Aldrei miklaðist hún heldur af því, að dæturnar komust allar til mennta og skipuðu sér í fremstu röð, hver á sínu sviði. Ekkert af því var sjálfgefið og hefði ekki tekist nema með hina sterku, skilningsríku og hvetjandi móður að baki.

Þá hefur ekki síður verið einstakt að fylgjast með, hve vel hún hefur reynst barnabörnum sínum. Stoð og stytta og einstök fyrirmynd. Eftir að Inga hafði helgað árin dætrum sínum samhliða mikilli kennslu og skyldum, sem henni fylgdu, var hún vakin og sofin yfir velferð barnabarna sinna. Komu þau eins og aðrir betri manneskjur af hennar fundi.

Inga sýndi jafnan nærgætni í samskiptum við aðra. Hún bar með sér innri styrk. Hún hlýtur að hafa búið yfir einstæðum hæfileika til að fyrirgefa. Ég heyrði hana aldrei halla máli nokkurs manns, þótt hún væri síður en skoðanalaus á mönnum og málefnum. Viðhorf hennar mótuðust af kristnum gildum og virðingu fyrir hinu besta í fari manna og þjóðarinnar í heild.

Oft  var ég beðinn að flytja henni kveðju gamalla nemenda hennar, sem ég hitti á förnum vegi. Allir sem einn fóru þeir miklum og góðum orðum um Ingu sem kennara og hve mótandi áhrif hún hafði á þá. Hún tók slíkum kveðjum jafnan af hógværð og lítillæti, en aldrei brást, að hún áttaði sig á því um hvern var að ræða.

Ég kveð Ingu með söknuði og þökk fyrir allt, sem hún gaf mér og mínum. Hin bjarta minning hennar lifir með okkur öllum, sem kynntumst henni og lýsir okkur framtíðina, eins og Inga gerði til hinstu stundar.

Blessuð sé minning Ingu Þorgeirsdóttur.